Fjölmenningarlegt leikskólastarf á degi leikskólans

06.02.2015
Fjölmenningarlegt leikskólastarf á degi leikskólans
Leikskólabörn á Hæðarbóli

Föstudaginn 6. febrúar er dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins. Þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.

Í ár hafa leikskólar Garðabæjar ákveðið að vekja sérstaka athygli á fjölmenningarlegu leikskólastarfi í tilefni af degi leikskólans.

Fjölbreyttur barnahópur

Þegar unnið er með fjölmenningarlegum barnahópi í leikskóla er mikilvægt að hafa í huga að hvert barn fái notið sín sem einstaklingur og að starfið endurspegli menningu hvers barns að einhverju leyti. Gera þarf öllum börnum kleift að vera þátttakendur í leikskólastarfinu og stuðla að jákvæðu umhverfi með fjölbreyttu námsefni sem endurspeglar fjölbreytileika mannlífsins. Flest börn eru fljót að aðlagast nýju tungumáli og eiga auðvelt með að læra fleiri en eitt tungumál. Móðurmálið er grunnurinn og þarf að hlúa að því til að börn geti lært nýtt tungumál. Kennurum ber að virða móðurmál barnsins til dæmis með því að gera það sýnilegt í leikskólanum og hvetja foreldra til að tala móðurmál sitt við börnin sín. Aðlögun barna og foreldra, sem og gott foreldrasamstarf, gegnir lykilhlutverki í vinnu með fjölmenningarlegum barnahópi. Góð samvinna og traust til foreldra veitir börnum öryggi og sjálfstraust í skólastarfinu og stuðlar að betri námsárangri þeirra og hjálpar þeim að aðlagast nýju heimalandi. Oft er menning barnanna gerð sýnileg í leikskólanum og það getur spornað við fordómum og stuðlað að víðsýni barna og foreldra. Foreldrar eru mikilvægir í því að gera leikskólastarfið fjölmenningarlegt og geta til dæmis komið með myndir, leikföng, bækur, tónlist og fleira að heiman ásamt því að kenna starfsfólkinu algeng orð á þeirra móðurmáli.

Í grein sem birtist í Garðapóstinum fimmtudaginn 5. febrúar er hægt að lesa um helstu áherslur hvers leikskóla undir þemanu Öll erum við eins í tilefni af degi leikskólans í ár. Greinina má lesa hér (pdf-skjal)

Myndir með frétt

Til baka