Safnanótt í kvöld og Sundlauganótt annað kvöld

06.02.2015
Safnanótt í kvöld og Sundlauganótt annað kvöld

Í kvöld, föstudagskvöldið 6. febrúar er hin árlega Safnanótt haldin. Söfnin í Garðabæ bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og eru með opið hús frá kl. 19 til miðnættis, ókeypis aðgangur er í öll söfnin á Safnanótt.  Í Garðabæ er opið í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki á Garðaholti, Bókasafni Garðabæjar bæði á Garðatorgi og í útibúinu á Álftanesi.  Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð og sjötta árið í röð taka nú fjölmörg söfn af öllu höfuðborgarsvæðinu þátt.   

Hér í viðburðadagatalinu má sjá
Dagskrá í Garðabæ á SAFNANÓTT föstudaginn 6. febrúar
Dagskrá í Garðabæ á SUNDLAUGANÓTT í Álftaneslaug laugardaginn 7. febrúar

Sjá einnig dagskrá Vetrarhátíðar í heild sinni á www.vetrarhatid.is
Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á Safnanótt og það er ókeypis aðgangur í safnanæturstrætóinn.  Sjá leiðarkerfi hér
Gestir Safnanætur geta einnig tekið þátt í skemmtilegum spurningaleik á Safnanótt, bæklingar með spurningum eru til staðar á öllum söfnum.

Sundlauganótt - laugardaginn 7. febrúar - dagskrá í Álftaneslaug

Ókeypis aðgangur verður í Álftaneslaug um kvöldið laugardaginn 7. febrúar.  Boðið verður upp á öldudiskó um kl. 18:30, þar sem hægt verður að hlusta á hress lög við sundlaugarbakkann úti við og öldulaugin verður sett af stað.  Um kl. 19:30 geta sundlaugargestir prófað zumba í vatni.  Aqua zumba öðru nafni Zumba sundlaugarpartý gefur hressilegri líkamsþjálfun nýja merkingu.  Um kl. 20 stíga ungir og efnilegir Garðbæingar á svið við sundlaugarbakkann og halda stutta tónleika.  Hljómsveitina skipa þau Rebekka Sif Stefánsdóttir söngkona, Aron Andri Magnússon á rafgítar, Sindri Snær Thorlacius á rafgítar og Helgi Þorleiksson á trommur.   Síðar um kvöldið um kl. 20:30 geta sundlaugagestir slakað á í samfloti þar sem komið er saman og svifið um í leikandi léttu þyngdarleysi í hlýrri og notalegri innilauginni.  Til miðnættis verður svo tónlist og notaleg lýsing í sundlauginni fyrir sundlaugargesti. 

 

Til baka