Sundlauganótt í Álftaneslaug

10.02.2015
Sundlauganótt í Álftaneslaug
Sundlauganótt í Álftaneslaug

Álftaneslaug tók þátt í Sundlauganótt sem var haldin laugardagskvöldið 7. febrúar sl.  Sundlauganótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og fjölmargar sundlaugar af öllu höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í ár.  Þetta var í annað sinn sem Álftaneslaug tók þátt í Sundlauganótt og boðið var upp á dagskrá í lauginni í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar.  Ókeypis aðgangur var í sundlaugina sem var opin til miðnættis þetta kvöld. 

Fjölmargir lögðu leið sína í laugina og heitu pottarnir voru þétt setnir.  Eins og í fyrra var í upphafi kvölds boðið upp á öldudiskó og sundlaugarsvæðið var lýst upp skemmtilega í tilefni kvöldsins. Kristbjörg Ágústsdóttir zumbakennari í Klifinu fékk sundlaugargesti upp úr pottunum og út í stóru sundlaugina þar sem boðið var upp á aqua zumba danskennslu.  Að loknu zumba gátu sundlaugargestir hlýjað sér aftur í pottunum og hlustað frumsamda tónlist flutta af ungum og efnilegum Garðbæingum með Rebekku Sif Stefánsdóttur söngkonu í fararbroddi. Meðleikarar hennar voru Aron Andri Magnússon á rafgítar, Sindri Snær Thorlacius á rafgítar og Helgi Þorleiksson á trommur.  Dagskránni lauk svo með sundlaugarfloti þar sem gestir gátu slakað vel á í leikandi léttu þyngdarleysi í sundlauginni.

 Fleiri myndir frá Sundlauganótt í Álftaneslaug eru á fésbókarsíðu Garðabæjar.

 

Myndir með frétt

Til baka