Jazzhátíðin fer vel af stað

24.04.2015
Jazzhátíðin fer vel af stað
Tríó Sigurðar Flosasonar

Fyrstu tónleikarnir á Jazzhátíð Garðabæjar voru haldnir fimmtudagskvöldið 23. apríl sl. Þá steig Tríó Sigurðar Flosasonar á svið í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, og flutti dagskrá tileinkaða Billie Holiday.  Billie Holiday var einnig í aðalhlutverki þegar jazzhátíðin bryddaði upp á þeirri nýjung að vera með sérstakan fræðsludag sunnudaginn 19. júní sl. þar sem Sigurður Flosason fræddi gesti um feril og ævi söngkonunnar  í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli söngkonunnar. Safnaðarheimilið var þétt setið á þessum fyrstu tónleikum jazzhátíðarinnar og gestir kunnu vel að meta þá ljúfu jazztóna sem tríóið flutti. Með Sigurði Flosasyni á sviðinu þetta kvöld voru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó og Lennart Ginman frá Danmörku á kontrabassa.

Jazzhátíðin er nú haldin í tíunda sinn og stendur til sunnudagsins 26. apríl. Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður. Styrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ.  Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Fjölbreyttir tónleikar við allra hæfi

Í ár fara tónleikar hátíðarinnar fram á þremur mismunandi stöðum en allir kvöldtónleikar verða í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Dagskráin skartar fjölbreyttu úrvali íslenskra listamanna á ýmsum aldri og ólíkum stíltegundum jazztónlistar.  Sem fyrr er sérstök áhersla á listamenn sem tengjast Garðabæ en listamönnum alls ótengdum Garðabæ er einnig gert hátt undir höfði. 

Í kvöld, föstudagskvöldið 24. apríl, er það hin landskunni gítarleikari Friðrik Karlsson með world jazz tríó sem stígur á svið og hrærir saman þjóðlegum stílum ólíkra heimshorna.  Á laugardeginum verða þrennir tónleikar í boði víðs vegar um bæinn, dagskráin hefst kl. 14 með tónleikum í Jónshúsi þar sem verður sérstök dagskrá fyrir eldri borgara.  Síðar um daginn kl. 17 eru tveir ungir og efnilegir Garðbæingar í framlínunni í Haukshúsi á Álftanesi, þau Ingibjörg Fríða söngkona og Aron Örn Óskarsson gítarleikari ásamt tríói.  Um kvöldið heldur dagskráin áfram í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli þar sem kvartett Katrine Madsen kemur fram.  

Ungir og efnilegir listamenn framtíðarinnar

Jazzhátíðinni lýkur svo með stórtónleikum Stórsveitar Tónlistarskóla Garðabæjar sunnudaginn 26. apríl kl. 15.  Strengjasveit tónlistarskólans kemur einnig fram á tónleikum og sérstakir gestasöngvarar eru þau Jóhann Vigdís Arnardóttir (Hansa) og Jón Svavar Jósefsson.

Dagskráin er aðgengileg hér á vef Garðabæjar.

Myndir með frétt

Til baka