Konur úr Garðabæ fjölmenntu á hátíðarfund

21.08.2015
Konur úr Garðabæ fjölmenntu á hátíðarfund
Bæjarfulltrúar á hátíðarfundi og fyrrverandi bæjarfulltrúar

Unga fólkið var bæjarfulltrúum ofarlega í huga á hátíðarfundi bæjarstjórnar sem haldinn var í Kirkjuhvoli í gær til að minnast 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna til Alþingis. Af því tilefni var bæjarstjórnin eingöngu skipuð konum og til fundarins var sérstaklega boðið stúlkum sem luku grunnskólanámi sl. vor, stúlkum í ungmennaráði, konum sem sitja í fastanefndum bæjarins og konum sem hafa verið fulltrúar í hreppsnefnd eða bæjarstjórn Garðabæjar / Álftaness.

Fundurinn var öllum opinn, líkt og aðrir fundir bæjarstjórnar og var hann vel sóttur af konum úr Garðabæ.

Vilja efla og styðja við ungt fólk

Fundurinn samþykkti þrjár tillögur samhljóða sem allar lúta að velferð unga fólksins í bænum og því að virkja það til þátttöku í samfélaginu.

Fyrsta tillagan var borin fram af Áslaugu Hulda Jónsdóttur, bæjarfulltrúa sem lagði til að ungmennum á aldrinum 18-25 ára gæfist tækifæri til þess sumarið 2016 að sækja um starf á bæjarskrifstofunum og starfa þar með yfirstjórn bæjarfélagsins til að kynnast því hvernig starfsemi sveitarfélags er stjórnað frá degi til dags. Einnig var samþykkt tillaga Jónu Sæmundsdóttur, bæjarfulltrúa um að bæjarstjórn beiti sér fyrir því að fjölbreytt námskeið verði í boði til að efla og styrkja ungmenni í Garðabæ og tillaga Sigríðar Huldu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa og forseta bæjarstjórnar um að bæjarstjórn standi á kjörtímabilinu fyrir árlegu stefnumóti við ungmenni í bæjarfélaginu frá og með næsta ári.

Tillögum sem Súsanna B. Vilhjámsdóttir,varabæjarfulltrúi lagði fram fyrir hönd Bjartrar framtíðar um að Garðabær taki upp kynjaða hagstjórn og að settur verði saman stýrihópur til að undirbúa innleiðingu hennar var vísað til bæjarráðs til nánari útfærslu.

Að bæjarstjórnarfundinum loknum var boðið upp á söngatriði. Fyrstar komu fram þær Lilja Bragadóttir og Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir sem báðar útskrifuðust úr grunnskóla í vor og sungu eitt lag við undirleik Hrafnkels Pálmarssonar. Kvennakór Garðabæjar söng að því loknu nokkur lög og dagskránni lauk með söng Ragnheiðar Gröndal við undirleik Guðmundar Péturssonar.

Á efri myndinni eru fulltrúarnir sem skipuðu hátíðarfundinn ásamt konum sem hafa verið fulltrúar í hreppsnefnd/bæjarstjórn Garðabæjar og Álftaness.

Fundargerð hátíðarfundar bæjarstjórnar 20. ágúst 2015.

Myndir 1,2, og 3: Árni Tryggvason
Myndir 4 og 5: Garðabær

 

Myndir með frétt

Til baka