Fræðslu- og söguskilti um Búrfellsgjá afhjúpað

23.11.2015
Fræðslu- og söguskilti um Búrfellsgjá afhjúpað
Fræðslu- og söguskilti um Búrfellsgjá afhjúpað

Fræðslu- og söguskilti um Búrfellsgjá var afhjúpað laugardaginn 21. nóvember sl. Skiltið er staðsett á efri brún Hjallamisgengis, þar sem farið er niður timburtröppur á gönguleið í Búrfellsgjá og á Búrfell. Þaðan er gott útsýni yfir Búrfellsgjá og umhverfi með góðri fjallasýn.

Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar afhjúpaði skiltið og flutti ávarp þar sem kom fram að umhverfisnefnd vinnur að fleiri fræðsluskiltum m.a. um Selgjá. Líkt og á við um fleiri fræðslu- og söguskilti í bæjarlandinu eru texti og kort gerð af Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi og hönnun er eftir Árna Tryggvason.

Þegar skiltið hafði verið afhjúpað var gengið niður í Búrfellsgjá og minjar skoðaðar undir leiðsögn Erlu Biljar Bjarnardóttur, umhverfisstjóra. Göngufólki var boðið var uppá heitt kakó í Gjáarétt, sem var vel þegið í svölu en lygnu vetrarveðri.

Friðlýst sem náttúruvætti

Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár voru friðlýst sem náttúruvætti 30. apríl 2014. Þarna er jarðsagan einstök, en ekki síst menningarminjar í Búrfellsgjá þar er Gjáarétt, Vatnsgjá og Réttargerðið. Réttin var friðlýst sem fornleifar árið 1964. Sjá nánar hér um friðlýsingarnar.

Fræðsla um Búrfellsgjá tekin saman af Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi (PDF-skjal)

Myndir með frétt

Til baka