Viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs

12.01.2016

Ágúst Þorsteinsson, Ágústa Jóhanna Jóhannesdóttir, Hanna Lóa Friðjónsdóttir og Jóhann Steinar Ingimundarson fengu viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs, þegar tilkynnt var um kjör íþróttamanna Garðabæjar 2015 sunnudaginn 10. janúar sl.  Sjá jafnframt frétt um íþróttamenn ársins.

Í umsögn íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar segir:

Ágúst Þorsteinsson fyrir skátastarf
Ágúst gekk ungur til liðs við skátahreyfinguna í Skátafélagi Reykjavíkur. Eftir að Ágúst flutti í Garðahrepp tók hann þátt í skátastarfi þar, fyrst í Skátafélaginu Hraunbúum í Hafnarfirði. Hann var frumkvöðull og einn af stofnendum Skátafélagsins Vífils 20. apríl 1967 og varð fyrsti félagsforingi. Ágúst var kjölfesta í starfi Vífils fyrstu árin og átti ríkan þátt í að byggja upp öflugt skátastarf í vaxandi bæjarfélagi. Á 25 ára afmæli félagsins árið 1992 var Ágúst gerður að heiðursfélaga Vífils og hefur komið að mörgum verkefnum fyrir félagið allt frá stofnun þess og er í dag virkur og traustur félagi í baklandinu. Ágúst var kjörinn skátahöfðingi Íslands og gegndi því embætti frá 1981 til ársins 1988. Eftir að Ágúst lét af störfum sem skátahöfðingi hefur hann tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á vegum Bandalags íslenskra skáta og sinnt trúnaðarstörfum, setið í nefndum og vinnuhópum.

Ágústa Jóhanna Jóhannesdóttir fyrir starf að fimleikum
Ágústa byrjaði í foreldraráði fimleikadeilar haustið 2009 og kom svo inn í stjórn deildarinnar haustið 2010 sem fulltrúi foreldra. Ágústa hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu fimleikadeildarinnar í ört vaxandi deild eftir að nýja fimleikahúsið kom til sögunnar. Hún tók svo við formennsku deildarinnar í janúar 2014. Á þessum árum hefur starfsemi fimleikadeildarinnar vaxið úr því að telja 250 iðkendur upp í að vera nú með ríflega 800 iðkendur. Ágústa hefur alla tíð verið ósérhlífin í störfum fyrir fimleikadeildina og Stjörnuna.

Hanna Lóa Friðjónsdóttir fyrir starf að fimleikum
Hanna Lóa er búin að vera tengd fimleikum í marga áratugi. Hún hefur starfað í mótanefnd deildarinnar, verið í foreldraráði í 5 ár, í meistaraflokksráði síðustu 2 ár og er í því enn, hún situr nú í stjórn deildarinnar þar sem hún hefur verið í 3 ár. Hanna Lóa var eitt ár starfsmaður deildarinnar 2012-2013 og hefur einnig þjálfað í deildinni. Hún tekur alltaf virkan þátt í undirbúningi móta og er einn aðalskipuleggjandi hjá deildinni á því sviði.
Auk þessa hefur Hanna Lóa verið í afreksstefnunefnd Stjörnunnar, verið í tækninefnd og dómaranefnd hjá FSÍ og var hér áður fyrr alþjóðlegur dómari og þjálfaði mikið. Þá hefur hún verið í kvennahlaupsnefndinni.

Jóhann Steinar Ingimundarson
Aðkoma Jóhanns Steinars að félagsstörfum hófst hjá Stjörnunni í kringum 1990 þegar hann kom að undirbúningi leikja hjá meistaraflokki karla í handknattleik. Það þróaðist frá því að vera á kústinum, ritaraborði og dómgæslu til þess að vera fulltrúi í meistaraflokksráðum karla og kvenna í handknattleik sem tók m.a. að sér að keyra meistaraflokkana út á land til keppni. Jóhann Steinar tók sæti í aðalstjórn Stjörnunnar sem varamaður og síðar fulltrúi í meistaraflokksráði karla í knattspyrnu ásamt dómgæslu í knattspyrnu. Síðustu ár sat hann í aðalstjórn félagsins fyrst sem varaformaður og formaður síðustu fjögur árin, eða til 2014. Sem fulltrúi Stjörnunnar tók hann einnig þátt í starfi UMSK, UMFÍ, ÍSÍ auk sérsambanda.
Á tímabili var hann í Rótarýklúbbnum Görðum í Garðabæ og sat þar í stjórn sem gjaldkeri. Jóhann hefur einnig sinnt nokkrum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarmálum.

Til baka