40 ára afmæli Garðabæjar

11.02.2016
40 ára afmæli Garðabæjar
Afmælisblað vegna 40 ára afmælis Garðabæjar febrúar 2016

Garðabær er 40 ára á þessu ári og verður tímamótunum fagnað á margan hátt. Meðal annars hefur sérstakt afmælismerki Garðabæjar verið hannað, þar sem Ráðhústurninn er nýttur sem tákn fyrir bæinn.

Í sérstöku afmælisblaði sem fylgdi Garðapóstinum 11. febrúar og nálgast má hér fyrir neðan er dagskrá afmælisársins kynnt. Þar ber hæst miðbæjarhátíð sem haldin verður á Garðatorgi í september með dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Á árinu verður einnig boðið upp á fjölbreyttar sögu- og fræðslugöngur um bæjarlandið. Fastir liðir í menningarlífi bæjarins verða líka með afmælisþema. Þar má nefna Jazzhátíð Garðabæjar sem í ár verður haldin í 10. sinn og listadaga barna og ungmenna sem haldnir verða í lok apríl.

Í ávarpi til Garðbæinga sem fylgir blaðinu úr hlaði veltir Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjaráðs og afmælisnefndar fyrir sér fertugsaldrinum en hún deilir þeirri reynslu með Garðabæ að fagna 40 ára afmæli á árinum. Í blaðinu rifja einnig fjórir aðrir jafnaldrar Garðabæjar og Áslaugar Huldu upp skemmtilegar æskuminningar úr bænum. 

Meðal annars efnis í blaðinu er umfjöllun um hinn forna Fógetastíg í Gálgahrauni en bæjarstjórn samþykkti á fyrsta fundi ársins hátíðartillögu þess efnis að kynna þessa fornu alfaraleið fyrir Garðbæingum í tilefni afmælisins. Stígurinn hefur þá skemmtilegu tengingu við nútímann að hann tengir saman sveitarfélögin tvö sem nú hafa sameinast að nýju, Garðabæ og Álftanes. 

Ýmislegt fleira er í blaðinu, þar á meðal er greint frá öðrum merkum tímamótum í bæjarfélaginu á árinu 2016 og sagt frá þeim menningarviðburðum sem eru framundan.

Svarið við spurningunni á facebook-síðu Garðabæjar færðu með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan:

Garðabær 40 ára - afmælisblað 11. febrúar 2016 (pdf-skjal 15 MB)

Höfundur afmælismerkis Garðabæjar er Sighvatur Halldórsson.

Fylgstu með á facebook

 

Myndir með frétt

Til baka