Óboðleg stjórnsýsla ráðuneytis

17.03.2016
Óboðleg stjórnsýsla ráðuneytis
Mynd af hjúkrunarheimilinu Ísafold
Framkoma velferðarráðuneytisins, vegna samninga um yfirtöku ríkisins á starfsemi hjúkrunarheimilisins Ísafoldar, er óásættanleg að mati bæjarráðs Garðabæjar. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að leita aðstoðar innanríkisráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanns Alþingis til að tryggja framgang málsins.

Á fundi með fulltrúum Garðabæjar og ráðuneytisins sem haldinn var 10. desember 2015 var því lýst yfir af hálfu ráðuneytisins að ekki yrði hækkun á daggjöldum og að ekki væri vilji fyrir því að greiða vangoldin daggjöld. Í framhaldi af þeirri yfirlýsingu gerði Garðabær þá kröfu að ríkið yfirtæki reksturinn enda hefði bærinn greitt yfir 100 milljónir króna á ári til rekstrarins frá því að heimilið hóf starfsemi. Á fundinum var samþykkt að Garðabær sendi uppkast að samningi um yfirtöku ríkisins á rekstrinum, sem gert var 30. desember 2015. Í uppkastinu er gert ráð fyrir að yfirtakan verði 1. apríl 2016.

Á næsta fundi sem haldinn var 28. janúar kom fram að ráðherra væri tilbúinn að taka yfir reksturinn. Óskað var eftir gögnum frá Garðabæ sem send voru nokkrum dögum síðar. Annar fundur var haldinn 15. febrúar og voru þá ákveðnir næstu tveir fundir, sá síðari 22. febrúar. Báðum þessum fundum var frestað af hálfu ráðuneytisins og hefur nýr fundur ekki verið boðaður til að ræða um efni og frágangs samnings þrátt fyrir ítrekaða beiðni lögmanns bæjarinns.

Málið er því í hnút nú þegar örfáir dagar eru til 1. apríl og sér bæjarráð ekki annað í stöðunni en að leita liðsinnis innanríkisráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og umboðsmanns Alþingis til að tryggja framgang málsins í samræmi við sameiginlega niðurstöðu aðila á fundinum í ráðuneytinu í desember sl.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri tekur undir bókun bæjarráðs og segir um óboðlega stjórnsýslu að ræða, af hálfu ráðuneytisins.

Fylgiskjal þar sem samskiptin við ráðuneytið eru rakin.
Til baka