Flórgoðar og veiðimenn boða komu vorsins

19.04.2016
Flórgoðar og veiðimenn boða komu vorsins
Flórgoði á Vífilsstaðavatni

Þótt veðrið beri það ekki með sér er vorið komið við Vífilsstaðavatn. Veiðitímabilið hófst þann 1. apríl og er óhætt að segja að veiðimenn við vatnið séu viss vorboði. 

Fyrsta flórgoðaparið var komið á vatnið í fyrstu viku aprílmánaðar. Þá var ekki til setunnar boðið að koma út greinabúntum til að hjálpa þeim við hreiðurgerðina eins og gert hefur verið síðastliðin vor. Enda höfðu vökulir bæjarbúar þá látið þjónustuver bæjarins vita af því að flórgoðapar hringsólaði á vatninu og biði eftir hreiðurstæðinu. 

Greinarnar fyrir hreiðurstæðin voru settar út á vatnið 15. apríl sl. af starfsfólki bæjarins. Einnig verður komið fyrir nýrri gerð að flothreiðurstæði sem verður áhugavert að fylgjast með hvort flórgoðarnir samþykki. Þegar flórgoðar hafa valið sér hreiðursvæði þá verja þeir það með oddi og egg með miklum tilþrifum. Fylgst verður með framvindu varps flórgoðanna á Vífilsstaðavatni í sumar líkt og undanfarin sumur, eins og fjöldi áhugafólks um fugla gerir.

Flórgoðum hefur fjölgað í friðlandi Vífilsstaðavatns undanfarin sumur eða frá 2008 er þeir fyrst reyndu varp svo vitað sé, en síðastliðið sumar voru þeir orðnir átta talsins.

Þeir sem vilja koma ábendingum varðandi friðlandið á framfæri sendið póst á umhverfisstjóra erlabil@gardabaer.is. 

Til baka