Malbikun og aðrar framkvæmdir sumarsins

26.05.2016
Malbikun og aðrar framkvæmdir sumarsins
Unnið við holufyllingar á götum Garðabæjar

Malbikunarframkvæmdir sumarsins eru hafnar og er þegar búið að malbika Hofsstaðabraut. Lyngás og Karlabraut eru næstar í röðinni þegar veður leyfir, en ekki er hægt að malbika nema þegar veður er þurrt. Hér er hægt að sjá kort sem sýnir fyrirhugaðar malbiksframkvæmdir sumarsins.

Ýmsar aðrar framkvæmdir eru að fara af stað þessar vikurnar og margar hafa staðið yfir lengur. Á vef Garðabæjar er hægt að sjá yfirlit yfir yfirstandandi framkvæmdir sumarsins og einnig þær sem eru fyrirhugaðar.

Eins og sagt var frá í frétt hér á vefnum fyrr í vor er ætlunin að fylla upp í allar holur í götum bæjarins. Bæjarbúar eru hvattir til að láta vita af holum í götum sem eftir er að fylla upp í. Ein leið til þess er að nýta sér nýtt snjallsímaforrit (app) frá Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) sem veitir vegfarendum tækifæri til að koma upplýsingum um holur í götum og vegum til veghaldara. Holuappið lifnar með byrjunarskjá sem opnast í myndavél. Með smelli á myndavélatakkann er notandi færður á skjámynd þar sem hann merkir staðsetningu holunnar á korti. FÍB tekur á móti myndunum og áframsendir á viðeigandi veghaldara, þ.á.m. Garðabæ þegar það á við.

Til að byrja með er Holuappið til fyrir android stýrikerfið og hægt er að nálgast það í Play store. Appið er væntanlegt fyrir Iphone. Á vef FÍB er hægt að sjá frekari kynningu á appinu og skrá netfangið sitt til að fá póst þegar Iphone útgáfan verður tilbúin. Leitarorðið fyrir appið í Play Store er "hola fib".


Til baka