Garðabær og Wapp í samstarf

03.06.2016
Garðabær og Wapp í samstarf
Garðabær og Wapp í samstarf

Garðabær og Wapp - Walking app hafa undirritað samstarfssamning um birtingu göngu-, hjóla- og hlaupaleiða í Garðabæ í leiðsagnarappinu Wappinu.  Leiðirnar í Garðabæ eru með kortum, gps hnitum, ljósmyndum og upplýsingum á íslensku og ensku í Wappinu og verða leiðirnar notendum að kostnaðarlausu til næstu tveggja ára.  Vonast er til að þetta samstarf auðveldi íbúum Garðabæjar sem og öðrum að nálgast upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir, sögulegan fróðleik um menningarminjar og útivistarmöguleika í landi Garðabæjar og hvetji til aukinnar hreyfingar og útiveru. 

Með þessum samningi er Garðabær að koma vel til móts við íbúa sína og gesti með því að gera göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir aðgengilegar í gegnum snjalltæki.

Settar verða upp svokallaðar söguleiðir og hreyfileiðir í Garðabæ sem verða aðgengilegar í Wappinu. 
Söguleiðir eru leiðir með leiðsögn þar sem eru upplýsingapunktar á réttum stöðum sem veita upplýsingar í texta og oftast með mynd um það sem ástæða þykir til að segja frá í náttúru og umhverfi, úr þjóðsögum eða af lífi fólks á svæðinu fyrr og nú.
Hreyfileiðirnar innihalda minniháttar upplýsingar um umhverfi en þó er fjallað í inngangi um svæðið og hvort eitthvað sérstakt þurfi að hafa í huga á leiðinni, t.d. geta aðstæður á leiðum verið mismunandi eftir árstíðum.  Hreyfileiðirnar verða með upphafspunkt frá íþróttamiðstöðvunum á Álftanesi og í Ásgarði.  Frá Álftanesi verða tvær hlaupaleiðir og ein hjólaleið og frá Ásgarði verða þrjár hlaupaleiðir og ein hjólaleið.  Lokið verður við að gefa út hreyfileiðir í september á þessu ári.

Fyrstu söguleiðirnar opnaðar 9. júní nk.

Í næstu viku eða fimmtudaginn 9. júní nk. býður Garðabær til sögugöngu um Fógetastíg í Gálgahrauni í tilefni af 40 ára afmæli bæjarins á þessu ári.  Við það tækifæri verður leið um Gálgahraun opnuð í Wappinu auk þess sem þrjár aðrar söguleiðir um Búrfellsgjá, Vífilsstaðavatn og Gunnhildi og Bessastaðanes verða opnar almenningi.  Til viðbótar verða söguleiðir umhverfis Bessastaðatjörn og um Hraunstíg gefnar út í september.

Um Wappið

Wappið er stafrænn gagnagrunnur leiðarlýsinga á Íslandi sem er miðlað í gegnum app fyrir Iphone og Android snjallsíma. Leiðarlýsingarnar eru um allt land, með GPS ferlum, ljósmyndum og er miðlað á ensku og íslensku til notenda. Leiðarlýsingum er hlaðið á símann og þær notaðar án þess að vera í gagnasambandi. Stokkur ehf. forritar Wappið og Samsýn ehf. sér um kortagrunninn fyrir Ísland.

Á meðfylgjandi mynd sjást Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Einar Skúlason framkvæmdastjóri Wapp – Walking app skrifa undir samstarfsamning. 
Frá vinstri, sitjandi:  Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Einar Skúlason framkvæmdastjóri Wapp. Efri röð, frá vinstri: Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar, Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir umhverfisstjóri Garðabæjar.

Til baka