Jónsmessugleði framundan

16.06.2016
Jónsmessugleði framundan
Jónsmessugleði 23. júní 2016

Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, ætlar að halda hina árlegu Jónsmessugleði á göngustígnum við strandlengjuna í Sjálandi  fimmtudagskvöldið 23. júní nk. frá kl. 19:30-22.  Fjölmargir myndlistarmenn taka þátt í Jónsmessugleði og setja upp myndlistarsýningu sem stendur eingöngu þetta eina kvöld.  Jónsmessugleði var haldin fyrst árið 2009 og er nú haldin í áttunda sinn.  Jónsmessugleðin hefur vaxið og dafnað og Garðbæingar og aðrir góðir gestir hafa fjölmennt á hátíðina í Sjálandið.

Þema ársins:  ,,Undir rós"

Einkunnarorð Jónsmessugleðinnar eru ,,Gefum, gleðjum og njótum”.  Þar koma saman fjölbreyttir listamenn með ólíka miðla sem gefa vinnu sína þetta kvöld til að gleðja bæjarbúa og annað áhugafólk um list og njóta Jónsmessugleði saman. Í ár er þema Jónsmessugleðinnar ,,Undir rós“.  Í anda þemans vill Gróska hvetja gesti til að mæta í rósóttum fötum og skreyta sig með blómum því við getum jú alltaf á okkur blómum bætt.

Myndlist, lifandi tónlist og spennandi uppákomur

Myndlistin verður eins og áður í aðalhlutverki en eins og fyrri ár geta gestir Jónsmessugleðinnar notið söngs og skemmtunar frá ýmsum listamönnum og kórum.  Meðal þeirra sem koma fram eru kór Vídalínskirkju, hluti Kvennakórs Garðabæjar, Rebekka Sif söngkona, Aron Brink söngvari, hljómsveitin Reason, sænskur kór frá Uppsölum og leikhópur frá leikfélaginu Draumum. 

Ungt fólk í skapandi sumarstarfi hjá Garðabæ ætlar að vera sýnilegt og gefa okkur smjörþefinn af þeirra starfi í sumar með tónlist, myndlist, ljósmyndum og öðrum uppákomum.  Bæjarstarfsmenn og sumarvinnuhópar umhverfisátaks aðstoða með uppsetningu, frágang og ýmsa skipulagningu. 

Sjá einnig fésbókarsíðu Grósku.

Til baka