Góð skemmtun á 17. júní

23.06.2016
Góð skemmtun á 17. júní
17. júní 2016

Fjölbreytt dagskrá var í boði víðs vegar um Garðabæ á þjóðhátíðardaginn 17. júní sl.  Um morguninn var boðið upp á kanósiglingar við Urriðavatn og í Vífilsstaðavatni var ókeypis veiði.  Golfklúbbur Álftaness hélt sitt árlega 17. júní mót um morguninn og frá 10-14 var opið í Álftaneslaug þar sem var ókeypis aðgangur í tilefni dagsins.  Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg var einnig opið og ókeypis aðgangur í tilefni dagsins.

Hátíðardagskrá á Álftanesi

Hátíðardagskráin á Álftanesi hófst að morgni kl. 10 með helgistund í safnaðarheimilinu að Brekkuskógum þaðan sem gengið var í skrúðgöngu að hátíðarsvæði við Álftaneslaug.  Á hátíðarsviði var boðið upp á skemmtidagskrá þar sem fram komu m.a. Agla Bríet, Rebekka Blöndal og einnig mættu íþróttaálfurinn og Solla stirða á svæðið.  Síðar um daginn var hátíðarkaffihlaðborð Kvenfélags Álftaness í hátíðarsalnum á Álftanesi.  

Hátíðardagskrá við Garðaskóla 

Um daginn eða kl. 13.15 var að venju hátíðarstund í Vídalínskirkju og þaðan var haldið í skrúðgöngu að hátíðarsvæði við Garðaskóla og íþróttamiðstöðina Ásgarð.  Þar flutti Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, ávarp og boðið var upp á fjölbreytta skemmtidagskrá þar sem fram komu m.a. Dikta, Agla Bríet, atriði frá Latabæ og inni í Ásgarði var fimleikasýning.  Leiktækin voru að sjálfsögðu á sínum stað þar sem börn gátu skemmt sér í hoppuköstulum og fengið andlitsmálun.  Kaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar var vinsælt eins og fyrri ár og haldið síðdegis í Garðaskóla.

Dagskráin var í umsjón skátafélagsins Vífils.

Fagrir tónar um kvöldið

Um kvöldið voru hátíðartónleikar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Þar steig á svið hljómsveitin Salon Islandus og gestur þeirra þetta kvöld var sópransöngkonan Fjóla Kristín Nikulásdóttir.  Á efnisskránni var hugljúf vínartónlist og atriði úr óperum og söngleikjum.

Á fésbókarsíðu Garðabæjar má sjá fleiri myndir frá deginum.

Myndir með frétt

Til baka