Úthlutun úr 19. júní sjóði

23.06.2016
Úthlutun úr 19. júní sjóði
Úthlutun úr 19. júní sjóði

Úthlutun úr 19. júní sjóði Garðabæjar fór að þessu sinni fram við morgundagskrá á hátíðarsvæði á Álftanesi 17. júní sl. 19. júní sjóður var stofnaður í tengslum við Kvennahlaup ÍSÍ í Garðabæ og tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla íþróttir kvenna í Garðabæ með því að veita fé til uppbyggingar á því sviði.  Það er íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar sem hefur umsjón með úthlutun úr 19. júní sjóðnum.  Að þessu sinni var það einn einstaklingur og tvö félög sem hlutu úthlutun úr sjóðnum og fengu afhent viðurkenningarskjöl á 17. júní.

Freydís Halla Einarsdóttir skíðakona hlaut styrk að upphæð 200 þús kr til að fylgja eftir afreksáætlun sinni næsta vetur vegna undirbúnings fyrir FIS mót erlendis með hápunkti á HM 2017.  Freydís hefur verið í A-landsliði Íslands undanfarin ár og unnið til verðlauna á alþjóðlegum skíðamótum.

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hlaut styrk að upphæð 250 þús kr til gerðar afreksáætlunar kvenna og til að byggja brú milli yngri flokka og meistaraflokks. Markmið verkefnsins er að vinna afreksstefnu í samstarfi stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar, meistaraflokksráðs kvenna, leikmönnum og þjálfurum meistaraflokks kvenna og þjálfurum yngri flokka. Verkefninu er ætlað að tryggja góð tengsl milli yngri flokka og meistaraflokks kvenna og þannig hvetja yngri leikmenn til að leggja sig fram og stefna á að spila með meistaraflokki á meðal þeirra bestu í framtíðinni.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (GKG) hlaut styrk að upphæð 100 þús kr til að halda stelpugolf á félagssvæði sínu.  Þann 16. maí sl. var ,,Stelpugolf" haldið á svæði GKG við Vífilsstaði.  Stelpugolf er haldið af Golfkennaraskóla PGA og GSÍ (Golfsamband Íslands).  Um 800 manns komu á völlinn þennan dag og sóttu sér kennslu.

Á meðfylgjandi mynd með frétt má sjá frá vinstri:
Freydís Halla Einarsdóttir skíðakona,  Andrea Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri PGA á Íslandi, Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, og Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna í körfubolta hjá Stjörnunni.   

 

Til baka