Heimsókn frá Rótarýklúbbnum Hof-Garðabæ

12.08.2016
Heimsókn frá Rótarýklúbbnum Hof-Garðabæ
Frá heimsókn Rótarýklúbbsins Hof-Garðabær 11. ágúst 2016

Félagar úr Rótarýklúbbnum Hof-Garðabær heimsóttu Ráðhús Garðabæjar í gær. Tekið var á móti hópnum í þjónustuveri bæjarins þar sem Gunnar Einarsson bæjarstjóri bauð hann velkominn. Að því loknu kynnti Guðfinna Björk Kristjánsdóttir upplýsingastjóri starf þjónustuversins en þar er tekið á móti öllum símtölum og viðskiptavinum Ráðhússins.

Hópurinn fór síðan upp á þriðju hæð þar sem gengið var um skrifstofurýmið og starfsmenn á hverju sviði sögðu frá starfseminni sem þar fer fram. Kynnt var starf launa- og mannauðsdeildar sem eins og þjónustuverið tilheyrir fjármála- og stjórnsýslusviði, fræðslu- og menningarsviðs, fjölskyldusviðs og tækni- og umhverfissviðs. Að því loknu sagði bæjarstjóri frá nokkrum áhersluatriðum í starfi bæjarfélagsins og bauð upp á veitingar.

Rótarýklúbburinn Hof-Garðabær var stofnaður í júni 2015. Í honum eru 27 félagar. Fyrir var í Garðabæ Rótarýklúbburinn Görðum og eru klúbbarnir í bænum því tveir.

Myndir með frétt

Til baka