Forvarnaviku um net- og skjánotkun að ljúka

14.10.2016
Forvarnaviku um net- og skjánotkun að ljúka
Fræðslufundur fyrir foreldra í forvarnaviku 2016

Forvarnaviku er nú að ljúka í grunnskólunum í Garðabæ. Þema vikunnar var net- og skjánotkun barna og ungmenna og hefur verið fjallað um það málefni í öllum grunnskólunum. Nemendum og starfsfólki skólanna verið boðið upp á fjölbreytta fræðslu, annars vegar um netnotkun barna og ungmenna og hins vegar um líðan og sjálfsmynd.

Foreldrum var einnig boðið á fræðslufund á þriðjudagskvöldinu.Tveir fyrirlesarar voru á fræðslufundinum, þau Friðþóra Arna Sigfúsdóttir sem sagði frá reynslu sinni sem móðir drengs sem glímdi við tölvuleikjafíkn og Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur sem unnið hefur með börnum og fjölskyldum þeirra sem lent hafa í vandræðum vegna of mikillar tölvu- og netnotkunar. Fyrirlestrarnir þóttu sláandi og staðfestu þörfina á því að ræða málefnið og að vera meðvitaður um notkun sína og barnanna á netinu og snjallsímanum. Góð mæting var á fundinn sem haldinn var í samvinnu mannréttinda- og forvarnanefndar Garðabæjar, Grunnstoðar Garðabæjar og allra grunnskólanna í bænum.

Fyrr í haust var efnt til samkeppni um slagorð fyrir vikuna á meðal nemenda. Vinningsslagorðið "Ertu gæludýr símans þíns?" kom frá hópi nemenda í Sjálandsskóla. Í framhaldinu var sett af stað teiknisamkeppni í anda slagorðsins. Vinningsmyndina á Magdalena Arinbjörnsdóttir nemandi í 7. bekk í Sjálandsskóla en einnig var ákveðið að veita viðurkenningar fyrir þjrár aðrar teikningar.

Stöð 2 heimsótti Sjálandsskóla í tilefni af forvarnavikunni og ræddi við nemendurna Magdalenu og Trausta Jónsson sem átti hlut í vinningsslagorðinu ásamt Sesselju Þóru Gunnarsdóttur, aðstoðarskólastjóra.

Frétt Stöðvar 2 er aðgengileg hér.

Frétt um forvarnavikuna á vef Garðabæjar

Myndirnar eru frá fræðslufundinum fyrir foreldra. Á þeirri fyrstu er Sigríður Björk Gunnarsdóttir, formaður mannréttinda- og forvarnanefndar, þá Friðþóra Arna Sigfúsdóttir og loks Eyjólfur Örn Jónsson.


Myndir með frétt

Til baka