Bekkir og lýsing við nýja göngu- og hjólaleið

19.10.2016
Bekkir og lýsing við nýja göngu- og hjólaleið
Erla Bil umhverfisstjóri á bekk við nýja stíginn

Fyrri áfanga uppbyggingar nýrrar göngu- og hjólaleiðar milli byggðar og friðlands Vífilsstaðavatns er að mestu lokið. Fljótlega verður sett led-lýsing við stíginn svo hægt sé að nota hann eftir að dimmt er orðið á kvöldin og þegar er búið að koma bekkjum fyrir meðfram stígnum, sem er tæpur kílómetri að lengd.

Stígurinn liggur sunnan Vífilsstaða meðfram votlendi Vífilsstaðalækjar og Vatnsmýrar sem er affall Vífilsstaðavatns og hæðanna í kring. Með nýja stígnum er hægt að njóta votlendisins í meiri nálægð og virða fyrir sér fuglalífið. Þótt það sé ekki mjög fjölskrúðugt á þessum tíma ársins eru samt endur á læknum og spörfuglar í trjágróðrinum á Vífilsstöðum. Auðséð er að fólk búið að uppgötva nýja stíginn.
Stígurinn kemur á wappið undir heitinu Hraunstígur Garðabæ á næstu dögum. Nánari upplýsingar um wappið eru hér.

Farið verður í seinni áfanga framkvæmdarinnar á næsta ári en þá verður stígurinn malbikaður. Undirlag hans fær þannig tækifæri til að síga í votlendinu fram á næsta vor, þótt fyllingin hafi verið margþjöppuð. Einnig verður fylgst með því hvar vatn flýtur yfir í stórrigningum og leysingum sem segir til um hvar nauðsynlegt er að leggja ræsi undir stíginn.


Myndir með frétt

Til baka