Þróunarverkefnið Sögupokar

16.11.2016
Þróunarverkefnið Sögupokar
Sögupokar á Ökrum

Ágústa Kristmundsdóttir og Jóhanna Beck starfsmenn í leikskólanum Ökrum kynntu verkefnið Sögupokar á menntadegi í Garðabæ fyrr í haust. Sögupokar eru skemmtilegt og lifandi námsefni fyrir börn á leikskólaaldri og frábær leið til að vekja áhuga barna á bókum, sögum og ævintýrum. Meginmarkmiðið með Sögupokum er að auka orðaforða barna, efla lesskilning og vinna með læsi í víðum skilningi.

Samþætta fleiri námsþætti

„Þegar við fórum að vinna að þessu verkefni sáum við fljótt spennandi möguleika á að samþætta inn í verkefnið aðra þætti úr aðalnámskrá eins og stærðfræði, markvissa málörvun, orðaspjall, liti og form, hugtök og leikræna tjáningu," segir Ágústa.

Alls voru gerðir átta sögupokar, fjórir fyrir eldri börn og fjórir fyrir yngri. Í hverjum poka er bók og ýmis verkefni sem tengjast sögunni, handbrúður, spil, orðaspjöld og annað efni. "Það er hægt að vinna á ólíkan hátt með efni pokanna eftir aldri barnanna. Við nýtum þá líka í sérkennslu og sjáum að öll börn njóta sín í þessu, þar á meðal börn með sérþarfir og tvítyngd börn."

Eflir starfsfólk og börn

Ágústa segir að strax hafi verið byrjað að nota sögupokana á Ökrum. "Við hengdum pokana upp á aðgengilegan stað og sáum fljótt að fólki finnst þetta frábært námsefni. Með pokunum fær starfsfólk góð verkfæri í hendurnar til að vinna með sem eflir það og styrkir í starfi. Börnin njóta þess að fá góða og faglega kennslu sem m.a. styrkir þeirra mál- og hljóðkerfisvitund. Bæði fá þau að hlusta á sögur á skemmtilegan og skapandi hátt þar sem notaðir eru fylgihlutir eins og brúður og spil og eins fá þau tækifæri til að endursegja sögurnar á sinn hátt og æfa um leið frásögn, framburð og orðaforða."

Sögupokarnir voru kynntir á stóra leikskóladeginum í Reykjavík og hafa líka verið kynntir fyrir deildarstjórum á leikskólum í Garðabæ. "Við erum núna að kynna einn poka í einu á starfsmannafundum hér á Ökrum og viljum einbeita okkur að okkar skóla fyrst þótt það væri gaman ef fleiri vildu nýta þetta. Þetta er ekki ný hugmynd en okkur fannst spennandi að flétta inn aðra námsþætti eins og stærðfræði og markvissa málörvun. Krakkarnir ljóma þegar þeir sjá pokana og það er greinilegt að þetta er efni sem höfðar til þeirra og þau njóta þess að vera virkir þátttakendur."

Vinnan við verkefnið var mjög skemmtileg og var það unnið að mestu utan hefðbundins vinnutíma. "Við fórum af stað með miklu minna verkefni en það vatt utan á sig þegar við fórum að samþætta alla námsþættina inn í þetta. Við fengum styrk úr þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ til að vinna þetta verkefni og ætlum að halda ótrauðar áfram,“ segir Ágústa að lokum.

Myndir með frétt

Til baka