50 ára afmæli Garðaskóla fagnað

17.11.2016
50 ára afmæli Garðaskóla fagnað
Brynhildur skólastjóri ávarpar gesti við opnun sýningarinnar

Hálf öld er liðin frá því að kennsla hófst í Garðaskóla og var haldið upp á það með opnu húsi og sögusýningu um síðustu helgi.

Garðaskóli tók til starfa í nóvember 1966 og var þá staðsettur í húsnæði við Lyngás. Fyrsta skólaárið í Gagnfræðaskóla Garðahrepps eins og hann hét þá voru nemendur 115 talsins. Skólinn var tvísetinn, kennsla hófst snemma á morgnana og kennt var til klukkan 18 og einnig fyrir hádegi á laugardögum. Sex fastráðnir kennarar voru við skólann og 10 stundakennarar. Vegna mikillar fjölgunar nemenda var fljótlega byggt var við húsið og hófst kennsla í viðbyggingunni haustið 1970. Sama ár hófst undirbúningur að byggingu núverandi húsnæðis Garðaskóla, sem tekið var í notkun í áföngum, sá fyrsti á árinu 1976, á 10 ára afmæli skólans. Áður en til þess kom var formlega kynnt nýtt nafn á skólanum sem fékk nafnið Garðaskóli.

Garðaskóli hefur verið í fararbroddi við að innleiða ýmsar nýjungar í skólastarfi á þeim 50 árum sem hann hefur starfað. M.a. tók hann upp samstarf við foreldra á meðan slíkt var lítt þekkt, þar hefur löngum verið blómlegt félagslíf og snemma var byrjað að halda sérstök félagsmálanámskeið. Garðaskóli var líka frumkvöðull við að innleiða svokallað ferðakerfi, sem felur í sér að nemendum gefst kostur á að flýta fyrir námi sínu með því að ljúka einstökum fögum fyrr en námskrá gerir ráð fyrir og að nemendur í 10. bekk geta tekið hluta af námsefni framhaldsskólastigsins.

Þrír skólastjórar hafa starfað við Garðaskóla. Gunnlaugur Sigurðsson gengdi því í 36 ár, allt frá upphafi til áramóta 2001-2002. Ragnar Gíslason tók við af Gunnlaugi og gegndi starfi skólastjóra þar til hann lét af störfum vegna veikinda í janúar 2014 og þá tók Brynhildur Sigurðardóttir við sem skólastjóri.

Heimild: Saga Garðabæjar eftir Steinar J. Lúðvíksson.

Glatt var á hjalla í 50 ára afmæli skólans og fjölmargir velunnarar skólans notuðu tækifærið til að heimsækja hann og skoða sögusýninguna sem sett hafði verið upp víðsvegar um skólahúsnæðið.

Myndir með frétt

Til baka