Standa sig vel í PISA

08.12.2016
Standa sig vel í PISA
Frá skólatónleikum Garðaskóla í febrúar 2016

Nemendur í Garðabæ koma vel út í PISA könnuninni sem framkvæmd var á árinu 2015. Þegar horft er til átta stærstu sveitarfélaganna á landinu skila nemendur í Garðabæ hæstu meðaleinkunnum í öllum þáttunum þremur sem mældir eru í könnuninni, þ.e. lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. 

Átta stærstu sveitarfélögin á landinu eru: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Akureyri, Reykjanesbær og Árborg.

Í samantekt frá Menntamálastofnun sést að nemendur í Garðabæ standa sig best af nemendum í þessum átta sveitarfélögum. Í öllum tilfellum er meðaleinkunn í Garðabæ líka hærri en meðaleinkunn íslenskra nemenda í heild.

Meðaleinkunn Garðbæinga í lesskilningi er 497, en 489 hjá nemendum í Kópavogi sem koma þar á eftir. Í stærðfræði er meðaleinkunn í Garðabæ 516, nokkuð hærri en hjá nemendum í Mosfellsbæ sem koma næstir með meðaleinkunnina 500. Bæði í lesskilningi og í stærðfræði er meðaleinkunn í Garðabæ hærri en meðaleinkunn OECD landanna. Meðaleinkunn nemenda í Garðabæ í læsi á náttúruvísindi er 487 en næstir koma Mosfellingar með meðaleinkunnina 479.

Einkunnir nemenda í Garðabæ eru ívið lægri en þær voru í könnuninni árið 2012 í lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Mest er breytingin í læsi á náttúruvísindum en hún nemur 28 stigum. Ekki mælist marktæk breyting á meðaleinkunn í stærðfræðilæsi.

Lesskilningur

Garðabær

497

Ísland

482

Meðaltal OECD

493

 

 

Læsi á stærðfræði

 

Garðabær

516

Ísland

488

Meðaltal OECD

490

 

 

Læsi á náttúruvísindi

 

Garðabær

487

Ísland

473

Meðaltal OECD

493


Til baka