Hrafnista tekur við Ísafold

15.12.2016
Hrafnista tekur við Ísafold
Leikfimi á Ísafold

Bæjarráð Garðabæjar hefur falið bæjarstjóra að undirbúa gerð samnings við Hrafnistu um að Hrafnista taki við rekstri Ísafoldar, hjúkrunarheimilis frá 1. febrúar 2017.

Viðræður Garðabæjar og Hrafnistu hafa staðið yfir frá því um miðjan nóvember.  Undanfarið ár hefur Garðabær átt í viðræðum við ríkið um að það taki við rekstrinum en þær viðræður skiluðu ekki árangri. Í framhaldi af því fól bæjarráð bæjarstjóra í nóvember sl. að kanna möguleikann á að þriðji aðili kæmi að rekstrinum.  

Af hálfu Garðabæjar hefur verið lögð áhersla á að við rekstri Ísafoldar taki aðili með umfangsmikla þekkingu og reynslu sem geti leitt áframhaldandi framþróun á starfseminni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir það sína sannfæringu að því markmiði verði náð með samningi við Hrafnistu. „Ég tel það afar góðan kost að Hrafnista taki við rekstri Ísafoldar. Þar er mikil sérþekking og reynsla til staðar sem á eftir að koma starfseminni og íbúum okkar á Ísafold til góða,“ segir Gunnar.

Garðabær hefur rekið hjúkrunarheimilið Ísafold frá árinu 2013 en þar búa 60 einstaklingar.

Fundað var um málið með starfsmönnum Ísafoldar í gær og var jákvæður andi á fundinum. Boðað hefur verið til fundar með heimilisfólki á Ísafold og aðstandendum þeirra á föstudag.

Til baka