Opið bókhald Garðabæjar birt á vef sveitarfélagsins

08.06.2017
Opið bókhald Garðabæjar birt á vef sveitarfélagsins
Opið bókhald Garðabæjar opnað á vefnum

Garðabær hefur nú opnað bókhald sitt uppá gátt í samræmi við nútímalega stjórnunarhætti opinberra aðila. Þetta er gert með því að birta opin mælaborð á vefsíðu Garðabæjar sem sækja gögn beint í bókhaldskerfi sveitarfélagsins. Þetta er gert í anda opins lýðræðis og gagnsæis við rekstur Garðabæjar. Mælaborðin kallast einfaldlega „Opið bókhald Garðabæjar“ og eru unnin í samvinnu við ráðgjafarsvið KPMG á Íslandi.

Við hönnun og uppsetningu mælaborðanna var lögð sérstök áhersla á skýrt, einfalt og notendavænt viðmót. Djúp fjármálaleg þekking er ekki nauðsynleg til að afla sér gagnlegra upplýsinga. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjármálaspekingar fái einnig eitthvað fyrir sinn snúð með því að grafa sig niður og sækja ítarlegar upplýsingar.
Mælaborðunum er skipt í tvo hluta; annars vegar gjaldahluta og hins vegar tekjuhluta. Tekjur eru brotnar niður á málaflokka, þjónustuþætti og einstaka tekjuliði og hægt er að skoða heildartekjur valinna tímabila. Niðurbrot gjalda er sambærilegt en þar er hægt að skoða niðurbrot allt niður á einstaka birgja. 

Á öllum síðum mælaborðanna eru tímasíur þannig hægt er að kynna sér gögn aftur í tímann og gera samanburð milli tímabila. Tímasía skiptir árum niður í ársfjórðunga og nú hafa gögn fyrir allt árið 2016 verið birt. 1. ársfjórðungur fyrir árið 2017 verður birtur um leið og reglur Verðbréfamiðstöðvar vegna skuldabréfaútgáfu heimila.

Auk rekstrarlegs efnis hefur Garðabær í samvinnu við ráðgjafarsvið KPMG á Íslandi unnið ýmsar lýðfræðilegar upplýsingar og sett fram á mælaborði. „Garðabær í tölum“ eins og mælaborðið er kallað birtir m.a. upplýsingar um íbúafjölda, meðalaldur, aldurssamsetningu, þróun fjölskyldugerðar, samsetningu húsnæðis auk nokkra lykiltalna í þjónustu sveitarfélagsins. Frekari vinna og þróun slíkra upplýsinga er í vinnslu og verður kynnt betur síðar.

Það er von bæjaryfirvalda að „Opið bókhald Garðabæjar“ og „Garðabær í tölum“ geti nýst fjölmiðlum, atvinnulífinu og stjórnendum bæjarfélagsins en ekki síst hinum almenna borgara sem allra best. Mælaborð sem byggja á rauntölum er framlag bæjarins til málefnalegrar umræðu um rekstur og þróun sveitarfélagsins.

Beinir tenglar á mælaborð Garðabæjar:
Opið bókhald Garðabæjar – tekjur  
Opið bókhald Garðabæjar – gjöld
Garðabær í tölum

Á meðfylgjandi mynd með frétt eru:
Efri röð frá vinstri: Lára Kristín Gísladóttir fulltrúi í bókhaldi, Þorbjörg Kolbeinsdóttir deildarstjóri bókhalds, Lúðvík Hjalti Jónsson fjármálastjóri.  Neðri röð frá vinstri: Jóna Sæmundsdóttir forseti bæjarstjórnar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri. 

 

 

Til baka