Opinn fundur um fjölnota menningar- og fræðamiðstöð 11. apríl

06.04.2018
Opinn fundur um fjölnota menningar- og fræðamiðstöð 11. apríl
Frá Jazzhátíð í Garðabæ
Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti nýverið að skipa starfshóp til að kanna grundvöll fyrir fjölnota menningar- og fræðamiðstöð í Garðabæ.  Starfshópurinn tók til starfa í mars og í hópnum eru:  Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar og formaður starfshópsins, Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar, Þóroddur Bjarnason varamaður í menningar- og safnanefnd,  Ingibjörg Guðjónsdóttir kórstjóri Kvennakórs Garðabæjar og Laufey Jensdóttir formaður myndlistarfélagsins Grósku.  

Hlutverk starfshóps

Hlutverk hópsins er að kanna grundvöll fyrir byggingu og starfssemi fjölnota menningar- og fræðamiðstöðvar í Garðabæ.  Hópurinn á að vinna grófa þarfagreiningu þar sem horft er til nýtingar hússins fyrir fjölbreytta menningar- og fræðastarfsemi fyrir alla aldurshópa, s.s. aðstöðu fyrir söfn bæjarins, tónlist, myndlist, leiklist, dans og skapandi greinar almennt, ráðstefnur, kórastarf, tónleikahald og sýningar; frumkvöðlastarfsemi og vettvang til að njóta menningar og lista.  Starfshópurinn á einnig að leggja til valkosti um staðsetningu og skila niðurstöðum sínum til bæjarráðs Garðabæjar í lok apríl 2018. 

Opinn fundur miðvikudaginn 11. apríl kl. 17:30

Starfshópurinn boðar til opins fundar um málefni fjölnota menningar- og fræðamiðstöðvar miðvikudaginn 11. apríl nk.  Fundurinn er haldinn í Flataskóla og hefst kl. 17:30 og stendur til kl. 19:00.  Á fundinum verður verkefnið kynnt og íbúar fá svo tækifæri til að koma með hugmyndir um hvernig starfssemi eigi heima í fjölnota menningar- og fræðamiðstöð í hópavinnu á borðum.  Boðið verður upp á súpu og brauð á fundinum.

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðunum.   

Upplýsingar um fundinn í viðburðadagatali Garðabæjar
Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar. 
 
Til baka