Opið bókhald Garðabæjar enn lokað

03.05.2018
Opið bókhald Garðabæjar enn lokað
Séð yfir Garðabæ
Í framhaldi af fréttaflutningi um að í svokölluðu „opnu bókhaldi“ sem birt hefur verið á vef Garðabæjar hafi verið unnt að nálgast persónuupplýsingar var aðgangi að því tafarlaust lokað.  Starfsmenn Garðabæjar hafa unnið að því síðan að fara yfir og greina þær upplýsingar um útgjöld sveitarfélagsins vegna félagsþjónustu sem virðist að hafi verið unnt að nálgast.  Niðurstaða  þeirrar greiningar er að almennt hafa upplýsingar um nöfn skjólstæðinga og kennitölur vegna afgreiðslu mála er varða fjárhagsaðstoð, barnavernd og almenna félagsþjónustu ekki verið aðgengilegar í opnu bókhaldi bæjarins.

Um nokkur frávik er þó að ræða. Er þá um að ræða tilvik þar sem greiðslur vegna útlagðs kostnaðar hafa verið inntar af hendi beint til viðkomandi skjólstæðings eða aðila tengdum honum en ekki á þann hefðbundna hátt sem venja er.  Hér er um að ræða 13 tilvik þar sem persónuupplýsingar hafa verið aðgengilegar og þar af 2 tilvik þar sem viðkvæmar persónuupplýsingar hafa verið aðgengilegar.  Rétt þykir að taka fram að reikningar vegna viðkomandi viðskipta voru í engu tilviki aðgengilegir.

Starfsmenn Garðabæjar eru að hafa samband við þá einstaklinga sem hér eiga hlut að máli og upplýsa þá um málið og bera fram afsökunarbeiðni af hálfu bæjarins. Hverjum og einum verður boðið að koma til fundar hjá starfsmönnum fjölskyldusviðs til að ræða stöðu málsins.

Garðabær harmar að persónuupplýsingar hafi verið aðgengilegar í opnu bókhaldi bæjarins. Við uppsetningu og prófun kerfisins, sem gerð var í samstarfi við endurskoðunarfyrirtækið KPMG, var þess sérstaklega gætt að persónuupplýsingar væru ekki aðgengilegar. Til varúðar var m.a. sett sú regla að engar færslur, hverju nafni sem nefnast, undir kr. 500.000 kæmu fram í opnu bókhaldi bæjarins.  Sú varúðarregla hefði átt að koma í veg fyrir öll ofangreind frávik.

Garðabæ hefur borist bréf Persónuverndar þar sem farið er fram á lýsingu á málsatvikum og nánari upplýsingar um eðli og líklegum afleiðingum af því að gögn sem hafa að geyma persónupplýsingar hafi verið aðgengileg á þennan hátt.  Garðabær fagnar því að Persónuvernd fari fram á upplýsingar um málið enda Garðabæ umhugað um að viðhafðar séu réttar aðferðir við skráningu og birtingu gagna sem hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar á vef bæjarins.

Garðabær mun ekki gera opið bókhald bæjarins aðgengilegt á ný fyrr en upplýsingar liggja fyrir með skýrum hætti hvað var þess valdandi að hægt var nálgast upplýsingar sem ekki áttu að vera aðgengilegar. Þá þarf jafnframt að vera tryggt að mál að þessu tagi komi ekki upp aftur.
 
Til baka