Erna Ingibjörg ráðin í starf skólastjóra Álftanesskóla

07.05.2018
Erna Ingibjörg ráðin í starf skólastjóra Álftanesskóla
Erna Ingibjörg

Erna Ingibjörg Pálsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Álftanesskóla frá og með 1. ágúst næstkomandi. 

Erna Ingibjörg lauk B.Ed gráðu í kennarafræðum árið 1981 auk viðbótarnáms frá Kennaraháskólanum árið 1984. Hún lauk M.Ed prófi í stjórnun menntastofnana árið 2006. Erna Ingibjörg hefur verið aðstoðarskólastjóri í Álftanesskóla frá árinu 2008, en hefur einnig starfað sem deildarstjóri og grunnskólakennari á Álftanesi og í Hafnarfirði. Erna Ingibjörg hefur haft aðkomu að rekstri, stjórnun og starfsmannahaldi í gegnum störf sín sem aðstoðarskólastjóri, auk þess sem hún hefur stýrt ýmsum faglegum verkefnum, m.a. tengt nýjum leiðum í námsmati. Þá hefur hún komið að fjölmörgum faglegum verkefnum og skrifum, m.a. fyrir Menntamálaráðuneytið og Menntamálastofnun, auk námskeiðahalds og handleiðslu fyrir kennara. 

Alls bárust 7 umsóknir um starf skólastjóra Álftanesskóla. 

Álftanesskóli er rótgróinn grunnskóli fyrir nemendur í 1.-10. bekk. Ríflega 400 nemendur eru í skólanum sem byggir skólastarfið m.a. á hugmyndafræðinni um „Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga“. Skólinn er staðsettur nálægt fjöru og fallegri náttúru, auk þess að vera í göngufæri við tvo leikskóla og íþróttamiðstöð. Í sumar hefst vinna við nýja viðbyggingu við skólann, sem mun bæta aðstöðu skólans til muna, m.a. vegna mötuneytis, bókasafns og tengingar við íþróttamiðstöð. 

 

Til baka