Stórátak við uppbyggingu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

08.05.2018
Stórátak við uppbyggingu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins
Frá undirrituninni
Sveitarfélögin Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Reykjavíkurborg, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, undirrituðu í gær tímamótasamkomulag sveitarfélaganna um stórátak við endurnýjun og uppbyggingu mannvirkja skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins í Bláfjöllum og Skálafelli. 

Undirritunin fór fram í þjónustumiðstöðinni í Bláfjöllum. 

Samkomulagið felur í sér að á næstu árum verður ráðist í endurnýjun og uppsetningu þriggja stólalyfta í Bláfjöllum og endurnýjun stólalyftu í Skálafelli. Að auki verður settur upp búnaður til snjóframleiðslu í Bláfjöllum. 

Samhliða þessum verkefnum verður unnið að áframhaldandi uppbyggingu á skíðgöngusvæði og bættum aðstæðum fyrir skíðagöngufólk. 

Áætlaður kostnaður vegna þessara framkvæmda á árunum 2019 – 2024 er um 3,6 milljarðar króna. 

Þessi verkefni eru fyrri áfangi af tveimur við heildaruppbyggingu skíðasvæðanna sem byggja á tillögu að framtíðarsýn um uppbyggingu og rekstur þeirra til ársins 2030. 

Með samkomulaginu verður rofin sú kyrrstaða sem verið hefur á uppbyggingu skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins um nokkurt skeið, og það markar því tímamót í uppbyggingu og rekstri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
 

Myndir með frétt

Til baka