Aðgengi í Ásgarðslaug

16.05.2018
Aðgengi í Ásgarðslaug
Ásgarðslaug

Ný og endurbætt Ásgarðslaug opnaði á sumardaginn fyrsta, 19. apríl sl.  Endurbætur á sundlauginni í Ásgarði og rýmum innandyra var ein stærsta framkvæmdin sem var í gangi hjá Garðabæ á þessu og síðasta ári.  Eftir að sundlaugin opnaði hafa ýmsar gagnlegar ábendingar komið sem nú er unnið að því að framkvæma.

Aðgengi fyrir fatlaða

Í sundlauginni í Ásgarði var gott aðgengi haft að leiðarljósi við endurbætur á lauginni og í inniklefum karla og kvenna voru settir upp nýjir klefar fyrir fatlað fólk.  Markmiðið var að bæta verulega aðgengi og aðstöðu þeirra sem geta hjálpað sér sjálfir en einnig þeirra sem þurfa aðstoð, s.s. í búningsklefa.
Von er á nýrri lyftu og hjólastólum um mánaðarmótin fyrir fatlað fólk. Lyftan verður staðsett í sundlauginni og bætir verulega aðgengi fyrir fatlaða að lauginni.  Við undirbúning framkvæmda var haft samráð við fulltrúa Gott aðgengi ehf en sérfræðingur fyrirtækisins var fenginn til að fara yfir teikningar að endurbótunum innan- sem utandyra í sundlauginni. 

Útisvæði til skoðunar

Yfirborðsefni sem er til staðar á útisvæðinu við sundlaugina og við heitu pottana hefur reynst hált eftir að sundlaugin opnaði á ný.  Efnið sem var notað við að steypa yfirborðið á að verða stamara við veðrun en til að sporna við slysum hafa verið settar upp mottur um útisvæðið.  Unnið hefur verið hörðum höndum að því í samvinnu við verktaka og eftirlitsaðila með verkinu til að sjá hvað veldur því að efnið hafi ekki reynst eins og ætlast var til og finna lausnir á því.  
 
Til baka