Íþróttastarf fyrir börn og unglinga – opinn fundur ÍTG kl. 17

14.09.2017
Íþróttastarf fyrir börn og unglinga – opinn fundur ÍTG kl. 17
Opinn fundur ÍTG 14. september kl. 17

Íþróttastarf fyrir börn og unglinga – Erum við á réttri leið?


Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar heldur opinn fund þar sem fjallað verður um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 14. september kl. 17:00 – 18:30 í Golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Í Garðabæ hefur verið lögð mikil áhersla á íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga enda sýna rannsóknir að að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi geti haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd ungra einstaklinga. Hefur það m.a. verið gert með því að skapa heilsueflandi umhverfi, sem býður upp á fjölþætt framboð og góða aðstöðu til íþrótta- og tómstundastarfs.  Einnig er boðið upp á hvatapeninga til að niðurgreiða æfingagjöld íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga í Garðabæ á aldrinum 5-18 ára. 
Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar átt sér stað í skipulagi á íþróttastarfi fyrir börn og unglinga, má þar m.a. nefna að æfingamagn í mörgum greinum hefur aukist, hópum er getuskipt fyrr og börn byrja fyrr að taka þátt í keppnishaldi.

Á fundinum verður rætt um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga og leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:
Hvaða áhrif hefur skipulag æfinga á félagslega hegðun og líðan barnanna í daglegu lífi? 
Hvaða kosti eða ókosti hefur getuskipting varðandi íþróttalega færni og sköpunarmátt barna?
Er markmiðum starfsins innan íþróttafélaganna náð til skemmri og lengri tíma litið?

Fræðimenn frá HÍ og HR flytja 15 mín erindi og svara síðan fyrirspurnum. Umræður um málefnið verða í pallborði þar sem yfirþjálfarar frá íþróttafélögum í Garðabæ taka þátt ásamt frummælendum. Fundurinn er opinn öllum sem áhuga hafa á málefninu.

Dagskrá:
Kári Jónsson íþróttafulltrúi Garðabæjar - ,,Þátttaka Garðbæinga í skipulögðu íþróttastarfi og nýting hvatapeninga" 
Sveinn Þorgeirsson íþróttafræðingur M.Sc. - ,,Er meira betra í þjálfun barna?" 
Vanda Sigurgeirsdóttir, sérfræðingur í eineltismálum - ,,Hvernig líður þeim?" 
Viðar Halldórsson félagsfræðingur - ,,Íþróttir barna og ungmenna: Uppeldisstarf eða afreksstarf?" 
Pallborðsumræður
Umræðustjóri er Björg Fenger formaður íþrótta-, og tómstundaráðs Garðabæjar

Allir velkomnir!

 
Til baka