Listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar - Laufey Jensdóttir

07.12.2017
Listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar - Laufey Jensdóttir
Laufey Jensdóttir er listamaður desembermánaðar í bókasafninu

Laufey Jensdóttir er Listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar í desember.  Verk eftir Laufeyju verða til sýnis í bókasafninu á Garðatorgi í desember. 

Viðburður á facebook

Fimmtudaginn 7. desember verður hún með mótttöku í safninu á Garðatorgi kl. 17-19.  Léttar veitingar í boði og tækifæri til að spjalla við listamanninn um verkin sem verða til sýnis.

Laufey Jensdóttir útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og ári síðar með kennsluréttindi frá sama skóla. Hugsjón hennar í listsköpun er að nýta frelsið sem felst í því að vinna með ólíka listmiðla og með því skapa spennu fyrir sig sjálfa og áhorfandann. Því einkennast verk hennar af fjölbreytileika og gjarnan togstreitu á milli miðlanna.
Laufey er hugmyndasmiðurinn að baki Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ, og er einn af stofnendum þess. Nú situr hún í stjórn félagsins sem formaður. Hún var útnefnd bæjarlistarmaður Garðabæjar árið 2009 fyrir framlag sitt til lista og þá sérstaklega innan bæjarins en hún hafði þá komið á fót Jónsmessugleði.

Laufey er listamaður desembermánaðar hjá Bókasafni Garðabæjar. Síðustu ár hefur hún unnið mikið með fugla í verkum sínum. Nýjustu verk hennar eru litríkir, handmótaðir fuglar úr steinleir. Þar leikur hún sér að andstæðum geometrískra forma og mjúkum línum náttúrunnar.

Sjá einnig vef Bókasafns Garðabæjar  og fésbókarsíðu safnsins.

Til baka