Nágrannavarsla

Nágrannavarsla

Merki nágrannavörslunnar

Garðabær hóf innleiðingu á nágrannavörslu í hverfum bæjarins haustið 2008 og hefur hún verið kynnt í öllum hverfum bæjarins, síðast á Álftanesi í lok árs 2014.

Verkefnið er skipulagt þannig:

  1. Þegar byrjað er að innleiða nágrannavörslu í hverfi er öllum íbúum hverfisins boðið á fund þar sem verkefnið er kynnt. Á fundunum greinir lögreglan frá tölfræði um fjölda brota í Garðabæ og starfsmaður atvinnu- og tækniþróunarnefndar fræðir íbúa um hvert þeirra hlutverk getur verið í því að gæta eigna sinna og nágranna sinna.
  2. Á fundinum eru valdir tengliðir úr hópi íbúa í hverri götu, svokallaðir götustjórar, sem sjá m.a. um að upplýsa nýja íbúa um verkefnið svo og þá íbúa götunnar sem ekki komu á fundinn.
  3. Íbúum eru afhendir límmiðar til að líma í rúður húsa sinna sem segja að í götunni sé nágrannavarsla.
  4. Skilti er sett upp í götunum sem gefur nágrannavörslu til kynna.

Samstarfsverkefni Garðabæjar og lögreglunnar

Verkefnið var undirbúið af atvinnu- og tækniþróunarnefnd bæjarins og er samstarfsverkefni Garðabæjar og lögreglu höfuðborgarsvæðisins. 

Verkefnið byggir á samskonar verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í nokkrum götum í nágrannasveitarfélögum og þykja hafa skilað góðum árangri.

Góð forvörn

Nágrannavarsla er ein besta forvörn sem hægt er að grípa til gagnvart innbrotum, þjófnuðum og skemmdarverkum í íbúðarhverfum. Nágrannavarsla er ekki löggæsla heldur snýst hún um að íbúar standi saman og hafi auga með umferð um götuna sína. Verði íbúar varir við grunsamlegar mannaferðir, t.d. við hús nágranna sem þeir vita að er fjarverandi, er þeirra hlutverk að hringja í 112 og gefa lýsingu á atburðinum.

Upplýsingar um nágrannavörslu veitir:
Sunna Sigurðardóttir
þjónustustjóri
s: 525 8502
sunnas@gardabaer.is

Gagnlegar slóðir þar sem fjallað er um nágrannavörslu:

Garðabær - kynning Pétur Guðmundsson maí 2015.pdf

Glærur frá kynnngu Lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nóvember 2014

Lögregluvefurinn - nágrannavarsla

Leiðbeiningar um nágrannavörslu á vef Sjóvár

Leiðbeiningar um nágrannavörslu á vef VÍS

Upplýsingar fyrir götustjóra