Saga byggðar

Saga byggðar í landi Garðabæjar

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð. Talið er að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem bjó á Skúlastöðum og Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur. Árið 1994 fundust í Garðabæ minjar af bænum Hofsstöðum þar sem nú er miðbær Garðabæjar. Fornleifarannskóknir sýna að á Hofsstöðum hefur verið búið allt frá landnámsöld og að þar hafi verið stórbýli. Hofsstaða er ekki getið í Landnámu og ekki er vitað hver bjó þar.

Garðahreppur 1878

Á þjóðveldisöld var tekin upp hreppaskipting hér á landi og var land Garðabæjar þá í Álftaneshreppi en hann náði frá Kópavogi í norðri til suðurs að Hvassahrauni. Árið 1878 var Álftaneshreppi skipt í Garðahrepp og Bessastaðahrepp og tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð þá Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það átti Garðahreppur land beggja vegna við Hafnarfjörð, til ársins 1959, að mörkum sveitarfélaganna var breytt, en nokkrar breytingar hafa síðan verið gerðar á þeim.

Landbúnaður og útgerð

Í Garðahreppi fækkaði íbúum þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi og tók þeim ekki að fjölga aftur fyrr en á þriðja átatugnum. Landbúnaður, einkum sauðfjárbúskapur, var burðarás atvinnulífsins, en einnig var nokkur útgerð frá Álftanesi og þar var til dæmis mikil hrognkelsaveiði á vorin. Stærstu býlin voru Vífilsstaðir og Hofsstaðir en í Arnarnesi var einnig allstór bújörð, Litla-Arnarnes, og neðan Hafnarfjarðarvegar var býlið Lyngholt þar sem stundaður var myndarlegur búskapur um tíma.

Fyrsta þéttbýlisskipulagið 1955

Fyrsta skipulag Garðahrepps, sem miðaði að því að þar risi þéttbýli, er frá árinu 1955, og náði það til svæðis beggja vegna Hafnarfjarðarvegar, frá Arnarneslæk að Engidal. Samkvæmt skipulaginu reis byggð á Hraunsholti og í Silfurtúni. Árið 1960 fékk hreppurinn löggildingu sem verslunarstaður og voru íbúar 730, þar af 690 í þéttbýli og var hann fjölmennasti hreppur landsins. Eftir þetta óx þéttbýli hratt og var íbúafjölgunin um skeið sú mesta í nokkru sveitarfélagi á landinu en í árslok 1970 voru íbúar tæplega 2.800. Garðahreppur bættist í tölu kaupstaða 1. janúar 1976 og voru íbúar þá 4.108.

Safn til sögu Garðabæjar

Safn til sögu Garðabæjar hefur verið gefið út í þremur bindum en bókasafn bæjarins hefur haft forgöngu um söfnun heimilda til verksins. Út eru komin ritin Byggð milli hrauns og hlíða, um þróun byggðar og Frá fjöru til fjalls, um jarðfræði og Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Rit þessi eru hugsuð sem stofn og undirbúningur að vinnu við sögu byggðarlagsins.
Ritin í safni til sögu Garðabæjar fást í Bókasafni Garðabæjar.