Íþróttamaður ársins - karlar

Tilnefndir í karlaflokki - íþróttamaður Garðabæjar 2017

 

Birgir Leifur HafþórssonBirgir Leifur Hafþórsson, golfari

Birgir Leifur náði sínum besta árangri á ferlinum þegar hann sigraði á Cordon golf open mótinu í Frakklandi, en það mót er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu (Challenge Tour), næst efstu deild atvinnumanna. Með sigrinum tryggði Birgir Leifur sér þátttökurétt í um 12 mótum á næstu leiktíð efstu deildarinnar, Evrópumótaraðarinnar (European Tour). Hér heima leiddi Birgir Leifur sveit GKG til sigurs í Íslandsmóti golfklúbba, í fyrsta sinn síðan 2012 og í fimmta sinn alls. Enginn íslenskur kylfingur hefur náð viðlíka árangri og Birgir Leifur, og því óhætt að segja að hann sé enn í framför eftir 20 ár í atvinnumennsku í golfi. Birgir Leifur er frábær fyrirmynd annara, yngri sem eldri, reglusamur, vinnusamur, ávallt jákvæður og ekki síst þrautseigur. Hann er öflugur liðsmaður, hvetjandi og drífandi. 

 

Guðjón BaldvinssonGuðjón Baldvinsson, knattspyrnumaður

Guðjón Baldvinsson var ómetanlegur í sterku liði Stjörnunnar sem endaði í 2. sæti Íslandsmótsins. Þar með tryggði liðið sér þátttökurétt í Evrópukeppni næsta sumar og festa liðið enn frekar í sessi sem topplið á Íslandi. Guðjón varð þriðji markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar með 12 mörk í 19 leikjum fyrir félagið. Þá var Guðjón valinn besti leikmaður liðsins bæði af þjálfurum og leikmönnum liðsins auk þess að vera valinn í lið ársins meðal ýmissa aðila sem fjalla um íslenska knattspyrnu. Guðjón er jákvæður, metnaðarfullur og ber hag félagsins fyrir brjósti sem vel má sjá á aukaæfingum sem hann hefur tekið að sér fyrir yngstu iðkendur félagsins. Guðjón Baldvinsson er sönn fyrirmynd ungra Garðbæinga.

 

Guðmundur Karl ÞorgrímssonGuðmundur Kári Þorgrímsson, fimleikamaður 

Guðmundur hefur verið fyrirliði í mix liði Stjörnunnar frá því að hann kom í liðið haustið 2016. Hann er mikilvægur liðsmaður, þroskaður og yfirvegaður iðkandi sem getur fengið alla í liðinu til þess að sjá hlutina á jákvæðan hátt.  Hann smitar frá sér góðu skapi og setur sjálfan sig aldrei hærra en liðið, þar sem liðið skiptir hann öllu máli. Sem fimleikamaður er hann í mikilli framför og á ennþá nóg inni.  Guðmundur er metnaðarfullur og veit að til þess að ná lengra þarf hann að vinna hart að því, sem hann gerir án þess að hika. Hann þekkir liðsfélaga sína vel og finnur um leið ef einhver þarf á smá upplyftingu að halda. Guðmundur varð á árinu Bikarmeistari með sínu liði í meistaraflokki Stjörnunnar Mix. 

 

Pétur Fannar GunnarssonPétur Fannar Gunnarsson, dansari

Pétur Fannar og Polina Odd sem dansa saman fyrir Dansfélag Reykjavíkur urðu heimsmeistarar í suður amerískum dönsum undir 21 árs, en Heimsmeistaramótið WDC fór fram í París 11. desember. Þetta frábæra danspar skráði þar með nýtt afrek í sögubækur landsins en Pétur og Polina unnu einnig HM 2016 og eru því einu Íslendingarnir sem hafa unnið heimsmeistaratitil tvö ár í röð. 
Þau urðu í 2. sæti í Blackpool og eru einnig Reykjavík International og  Íslandsmeistarar á árinu. Auk þessa unnu þau sigur á Lotto Open nú í nóvember.

 

Tómas Þórður HilmarssonTómas Þórður Hilmarsson, körfuknattleiksmaður 

Tómas er lykilleikmaður í meistaraflokki körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar. Hann var valinn í A-landslið nú á haustmánuðum og spilaði sinn fyrsta landsleik í undankeppni HM á móti Tékklandi í nóvember 2017. Val Tómasar í hið gríðarsterka íslenska landslið undirstrikar hversu framúrskarandi Tómas hefur verið með liði Stjörnunnar árið 2017 og gott dæmi um afrakstur af þeirri aukavinnu sem Tómas hefur lagt á sig til að bæta sinn leik.  Tómas er uppalinn í Stjörnunni frá 6 ára aldri, og á að baki landsleiki með U16, U18 og  U20.  Tómas hefur spilað 185 leiki með meistaraflokki Stjörnunnar frá 16 ára aldri, er góður liðsmaður og öll framkoma hans er til fyrirmyndar.