Íþróttamaður ársins - konur

Tilnefndar í kvennaflokki - íþróttamaður Garðabæjar 2017

Andrea Sif PétursdóttirAndrea Sif Pétursdóttir, fimleikakona

Andrea hefur gegnt stöðu fyrirliða í meistaraflokki Stjörnunnar  í hópfimleikum kvenna síðasta ár og á það sæti vel skilið. Hún er metnaðarfull, drífandi, leggur hart að sér og er með skýr markmið. Andrea er sterkur liðsmaður innan salarins sem utan og er mikil fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í Stjörnunni og á landinu öllu. Hún hefur mikla ástríðu fyrir fimleikum, sem hefur skilað sér í því að hún hefur verið lykilmaður í landsliðum Íslands í hópfimleikum síðustu ár, hvort sem er á Norðurlandamóti eða Evrópumóti. Andrea varð á árinu Norðurlandameistari, Bikarmeistari og Deildarmeistari með meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum kvenna.

 

Freydís Halla EinarsdóttirFreydís Halla Einarsdóttir, skíðakona

Freydís Halla, sem keppir fyrir Ármann, hefur nokkur undanfarin ár verið með fremstu skíðakonum Íslands.  Undanfarin ár hefur Freydís bætt árangur sinn jafnt og þétt. Nú er hún í um 200. sæti á heimslistanum í svigi og 400. sæti í stórsvigi. Á HM í Sviss náði hún einmitt besta árangri sínum í stórsvigi. Freydís stundar nám í háskóla í Bandaríkjunum. Hún var í hópi 34 kvenna sem fengu keppnisrétt á lokamóti allra háskóla í Bandaríkjunum annað árið í röð.  Hún sigraði á nokkrum alþjóðlegum mótum í Bandaríkjunum og jafnaði m.a. besta árangur sinn í svigi. Árangur tímabilsins kórónaði hún á Íslandsmeistaramótinu þar sem hún vann þrjá titla af fjórum, í stórsvigi, samhliðasvigi og í alpatvíkeppni. Hún er einstök íþróttakona með mikinn metnað, ávallt jákvæð og leitar stöðugt leiða til að bæta sig.  Freydís Halla er góð fyrirmynd og er hvetjandi fyrir liðsfélaga sína.

 

Helena Rut ÖrvarsdóttirHelena Rut Örvarsdóttir, handknattleikskona

Helena Rut hefur spilað með meistaraflokki Stjörnunnar í handknattleik frá 15 ára aldri. Síðastliðið vor ákvað hún að reyna fyrir sér í atvinnumennsku og fluttist til Noregs. Þar spilar hún nú í bestu deild Evrópu með Byåsen sem er í 7. sæti Norsku úrvalsdeildarinnar. Helena er mikil íþróttakona og frábær fyrirmynd ungra stúlkna í íþróttum. Hún var einnig mjög mikilvæg innan liðsins, frábær karakter innan vallar sem utan. Hún hefur nú leikið 13 A-landsleiki. Helena varð deildarmeistari 2017, bikarmeistari 2016 og 2017, í 2. sæti á Íslandsmóti 2016 og 2017. Hún skoraði 112 mörk í 21 leik tímabilið 2016-2017. Hún er nú 7. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með Byåsen. 

 

Irma GunnarsdóttirIrma Gunnarsdóttir,  frjálsíþróttakona

Irma Gunnarsdóttir hefur verið ein af efnilegustu frjálsíþróttakonum landsins um árabil. Irma sem keppir fyrir Breiðablik sigraði í langstökki kvenna á RIG. Hún vann til sex Íslandsmeistaratitla utanhúss og fjögurra titla innanhúss í flokki 18-19 ára stúlkna. Irma lenti í öðru sæti á NM í fjölþraut í flokki 18-19 ára. Árangur í silfurþrautinni var samtals 5.127 stig. Auk þess að ná í verðlaun á NM í Finnlandi náði hún lágmarki á EM undir 20 ára sem var haldið í Grosseto á Ítalíu síðasta sumar. Íslandsmeistaratitlar Irmu utanhúss voru í 100 hlaupi, 100 m grindahlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og langstökki. Innanhúss sigraði hún í 200 m hlaupi, 60 grindahlaupi, langstökki og kúluvarpi. 

 

Kristín Valdís ÖrnólfsdóttirKristín Valdís Örnólfsdóttir, skautakona

Kristín Valdís æfir með Skautafélagi Reykjavíkur. Hún hlaut í fyrsta sinn nafnbótina Skautakona ársins 2017 hjá ÍSS. Meðaltal af heildar skori Kristínar Valdísar á árinu er 91.43 stig. Hún keppti í junior flokki á Norðurlandamóti 2017 og hafnaði þar í átjánda sæti. Hún keppti fyrir hönd Íslands á ISU Junior Grand Prix Riga Cup 2017 og hafnaði þar í 27. sæti með 90.49 stig. Samanlögð heildareinkunn hennar er nú stigamet íslensks skautara á JGP. Kristin Valdís hafnaði í 19. sæti með 93.91 stig á Volvo Cup Open, efst íslensku skautaranna í þeim flokki. Hún hafnaði í 11. sæti á RIG, í 1. sæti á Haustmóti ÍSS, í 2. sæti á Bikarmóti ÍSS, en hún var einnig í 2. sæti á Íslandsmóti í junior flokki. Kristín Valdís er kappsfull og metnaðarfull íþróttakona sem leggur sig alla fram í sinni íþrótt og er öðrum iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.

 

Margrét JóhannsdóttirMargrét Jóhannsdóttir, badmintonkona

Margrét varð þrefaldur Íslandsmeistari í badmintoni á árinu og komst þar með í hóp 18 annarra sem hafa unnið til þess frá árinu 1952. Margrét vann á árinu sinn annan Íslandsmeistaratitill í einliðaleik og fyrsta Íslandsmeistaratitli í tvíliðaleik. Margrét vann síðan sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í röð í tvenndarleik. Margrét hefur unnið öll mót á árinu sem hún hefur tekið þátt í innan mótaraðar Badmintonsambandsins. Margrét hefur keppt fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét á átta A-landsleiki að baki. Áður spilaði hún með U17 og U19 unglingalandsliðum Íslands. Margrét er í 312. sæti heimslistans, þrátt fyrir að vera einungis með fjögur alþjóðleg mót sem hún hefur keppt á, en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna. Margrét mun keppa í Evrópukeppni kvennalandsliða í febrúar nk. sem fer fram í Kazan í Rússlandi.