Kvennahlaup ÍSÍ

Frá kvennahlaupinu 2007

Árið 1990 var fyrsta kvennahlaup ÍSÍ haldið. Aðalhlaupið var í Garðabæ en einnig var hlaupið á sjö öðrum stöðum á landinu. Þátttakan hefur aukist með ári hverju og í Garðabæ hafa á bilinu sex til átta þúsund konur hlaupið. Fyrstu árin var hlaupið frá Garðaskóla en frá 2003 hefur hlaupið hafist á Garðatorgi. Hægt er að velja um mismunandi hlaupaleiðir frá 2 km og upp í 9 km.

Konur hvattar til hreyfingar og samstöðu

Tilgangurinn með Kvennahlaupinu í upphafi var að fá konur til að stunda líkamsrækt og sýna samstöðu í því efni. Þess vegna er konum boðið að leggja mis langar vegalengdir að baki á þeim hraða sem hver þeirra ræður við. Í hlaupinu geta konur sameinað holla hreyfingu og útiveru og lögð er áhersla á samstöðu kvenna.

Það gefur hlaupinu aukið gildi að það fer jafnan fram á kvenréttindadeginum 19. júní eða sem næst honum. Kvennahlaupið hefur verið stærsti íþróttaviðburðurinn á Íslandi á ári hverju í meira en áratug. Aðalstyrktaraðili Kvennahlaups ÍSÍ undanfarin ár er fyrirtækið Sjóvá-Almennar. Á heimasíðu Sjóvá, www.sjova.is, er hægt að skoða myndir frá Kvennahlaupinu og einnig er þar að finna ýmsan fróðleik um hlaupið.