• 10.10.2018 - 14.10.2018, Hönnunarsafn Íslands

Verk í náttúru Þeistareykja

  • Verk í náttúru Þeistareykja

Sýning í Hönnunarsafni Íslands á vinningstillögum í hugmyndasamkeppni um verk í náttúru Þeistareykja stendur yfir dagana 10.-14. október 2018.

Sýning í Hönnunarsafni Íslands á vinningstillögum í hugmyndasamkeppni um verk í náttúru Þeistareykja stendur yfir dagana 10.-14. október 2018. Af því tilefni verður ókeypis aðgangur í safnið til og með 14. október. 
Landsvirkjun stóð fyrir hugmyndasamkeppninni í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, en auglýst var eftir tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, sem staðsett yrði í náttúru Þeistareykja. Markmið keppninnar var að fá fram tillögu að verki sem gæti aukið á upplifun þeirra sem leið eiga um svæðið. Við mat á tillögum var horft til þess að hugmyndin væri áhugaverð, frumleg og metnaðarfull. Einnig að tillagan félli að umhverfi Þeistareykja og hefði skírskotun til náttúru, sögu og/eða einkenna svæðisins og tæki tillit til umhverfis- og vistfræðiþátta. Þá þurfti í tillögunni að felast ráðdeild þannig að raunhæft væri og framkvæmanlegt að útfæra hana í fullri stærð.

Nú má skoða á Hönnunarsafninu þær fjórar tillögur sem fóru áfram í síðari hluta keppninnar en Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni. Tillaga hans ber heitið Römmuð sýn.

Í safninu stendur nú einnig yfir sýning á ævistarfi arkitektsins Einars Þorsteins Ásgeirssonar (1942–2015). Einar ánafnaði Hönnunarsafninu allt innihald vinnustofu sinnar, en hann var brautryðjandi í rúmfræðirannsóknum og sérfræðingur í margflötungum. Einar þykir hafa verið á undan sinni samtíð hvað varðar hugmyndir um sjálfbærni, samanber kúluhúsin sem hann hannaði og voru reist upp úr 1980, en fyrsta kúluhúsið sem reist var hér á landi var borholuhús við Kröflu.
Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1.  Safnið er opið alla daga (nema mánudaga) frá kl. 12-17.
Vefur Hönnunarsafns Íslands Hönnunarsafn Íslands á facebook