Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Garðabæjar
2. (842). fundur
07.02.2019 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Garðabæjar saman til fundar í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.
Fundinn sátu: Áslaug Hulda Jónsdóttir aðalmaður. Stella Stefánsdóttir varamaður. Kjartan Örn Sigurðsson varamaður. Gunnar Valur Gíslason forseti bæjarstjórnar. Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir varamaður. Almar Guðmundsson aðalmaður. Björg Fenger aðalmaður. Gunnar Einarsson aðalmaður. Valborg Ösp Á. Warén varamaður. Ingvar Arnarson aðalmaður. Harpa Þorsteinsdóttir aðalmaður.

Fundargerð ritaði: Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari.
Fundurinn er hljóðritaður.

Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar, setti fund og stjórnaði.

Forseti lagði til að fundargerð menningar- og safnanefndar verði tekin fyrir á fundinum sem dagskrárliður nr. 7, sbr. heimild í 17. gr. samþykkta um stjórn Garðabæjar. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu forseta um afbrigði frá boðaðri dagskrá fundarins.

Fundargerð bæjarstjórnar frá 17. janúar 2019 er lögð fram.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 1901030F - Fundargerð bæjarráðs frá 22/1 ´19.
Ingvar Arnarson, kvaddi sér hljóðs og óskaði Stjörnunni til hamingju með sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla og kvenna í körfuknattleik. Ingvar ræddi 17. tl., bréf Hrafnistu varðandi samstarf um rekstur dagdvalar á Ísafold.

Gunnar Einarsson, ræddi 17. tl.. bréf Hrafnistu varðandi samstarf um rekstur dagdvalar á Ísafold og svaraði fyrirspurn.

Afgreiðsla mála.
 
1806461 - Fjárhagsáætlun 2019 (2019-2022) - viðauki nr. 1.
 
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi viðauka nr. 1 við fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2019, samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Með kaupsamningi dags. 11. janúar 2019 kaupir Garðabær jörðina Kirkjubrú og land sem henni fylgir. Kaupverð er 125 m.kr. Greiða skal 45 m.kr. á árinu 2019, 40 m.kr. árið 2020 og 40 m.kr. árið 2021.
Kaupsamningurinn var samþykktur á fundi bæjarstjórnar 17. janúar 2019.

Kaup á landi kr. 125.000.000 (eignfært)

Fjármögnun:
Greiðsla 2019 kr. 45.000.000 Hækkun á lántöku ársins um kr. 45.000.000
Greiðslur 2020 og 2021 kr. 80.000.000 Fært á efnahag - lántaka
Samtals kr. 125.000.000
 
 
1811054 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi umsókn um byggingarleyfi fyrir smáhýsi við Nýjabæ.
 
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um að hafna umsókn ábúenda að Nýjabæ um breytingu á deiliskipulagi Garðahverfis vegna smáhýsa við Nýjabæ ásamt því að hafna staðsetningu smáhýsa á jörðinni utan deiliskipulagsvæðisins.
 
 
1711067 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brekkuási 7.
 
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um að vikið sé frá skilmálum deiliskipulags vegna afgreiðslu umsóknar byggingarleyfis fyrir einbýlishúsið að Brekkuási 7 enda liggi fyrir samþykki nágranna.

 
 
1803184 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi tillögu að breytingu á vaxtarmörkum svæðisskipulags vegna svæðis í Rjúpnahlíð.
 
Gunnar Einarsson kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir hugmyndum að baki tillögu um breytingu á legu vaxtarmarka svæðisskipulags í Rjúpnahlíð.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um að farið verði fram á við svæðisskipulagsnefnd að hafin verði vinna við gerð tillögu að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er varðar legu vaxtarmarka í Rjúpnahlíð með það að markmiði að fyrirhugað athafnasvæði um 20 ha falli innan vaxtarmarka. Samhliða breytingu á svæðisskipulagi verður unnið að gerð rammahluta aðalskipulags sem nær til Vífilsstaðalands og Hnoðraholts.
 
 
1812022 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi lýsingu á deiliskipulagsgerð fyrir friðland Garðahrauns.
 
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um að kynna almenningi samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lýsingu vegna deiliskipulagstillögu fyrir friðland Garðahrauns. Lýsingin skal send til kynningar í umhverfisnefnd og Umhverfisstofnun.
 
 
1710244 - Afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi lýsingu á deiliskipulagsgerð fyrir friðland Gálgahrauns.
 
Ingvar Arnarson, kvaddi sér hljóðs og ræddi tillögu að lýsingu fyrir friðland Gálgahrauns.

Stella Stefánsdóttir, ræddi tillögu að lýsingu fyrir friðland Gálgahrauns og svaraði fyrirspurn.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um að kynna almenningi samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lýsingu vegna deiliskipulagstillögu fyrir friðland Gálgahrauns. Lýsingin skal send til kynningar í umhverfisnefnd og Umhverfisstofnun.

Fundargerðin sem er 17 tl. er samþykkt samhljóða.
 
2. 1901043F - Fundargerð bæjarráðs frá 29/1 ´19.
Almar Guðmundsson, ræddi 6. tl., bréf frá ungu fólki úr Garðabæ um úthlutun lóða og lagði fram eftirfarandi tillögu sem hann flytur ásamt Stellu Stefánsdóttur.

"Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að semja drög að reglum um úthlutun íbúðarhúsalóða í eigu Garðabæjar.
Í reglunum skal lögð áhersla á opið og gegnsætt kynningar- og auglýsingarferli ásamt skýrum upplýsingum um skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að umsóknir teljist gildar. Í reglunum skulu koma fram upplýsingar um fjárhæð gatnagerðargjalda og greiðslur vegna sölu byggingarréttar. Í þeim tilvikum sem umsóknir um lóðir eru umfram framboð skal kveða á um hvernig útdráttur og val á lóðum fer fram."

Greinargerð:
Á vegum Garðabæjar er nú unnið að gerð deiliskipulags svæða þar sem fjöldi íbúðalóða í eigu bæjarins mun koma til úthlutunar. Í því sambandi er rétt að bæjarstjórn samþykki reglur um úthlutun lóða þar sem lögð sé áherslu á gegnsætt ferli með skýrum ákvæðum um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla ásamt reglum um útdrátt og val á lóðum.
Eðlilegt er að skoða hvort reglurnar skuli innihalda ákvæði til að mæta vel skilgreindum markmiðum sem snúa að þörfum ýmissa hópa í anda húsnæðisáætlunar Garðabæjar 2018-2025 sem í vinnslu er og lögð verður til samþykktar á næsta fundi bæjarstjórnar. Sem dæmi um þetta má nefna lóðir fyrir fyrstu kaupendur, lóðir til að mæta óskum ungra Garðbæinga um lóðir til að geta stækkað við sig húsnæði fyrir fjölskyldur sínar, lóðir fyrir eldri borgara sem vilja minnka við sig og lóðir fyrir almennar leiguíbúðir, búsetukjarna fyrir fatlað fólk og félagslegt húsnæði.

Ingvar Arnarson, ræddi framkomna tillögu og lagði til að tillögunni verði vísað til bæjarráðs.

Kjartan Örn Sigurðsson, ræddi 1. tl., íbúakönnun - þjónusta sveitarfélaga 2018.

Almar Guðmundsson, ræddi framkomna tillögu.

Ingvar Arnarson, ræddi framkomna tillögu að nýju.

Gunnar Einarsson, ræddi framkomna tillögu.

Harpa Þorsteinsdóttir, ræddi 8. tl., bréf UMF Álftanes varðandi ósk um aukið fjárframlag til uppbyggingar aðstöðu og íþróttastarfs. Harpa óskaði eftir upplýsingum um efni bréfs sem boðað var að senda félaginu.

Gunnar Einarson, ræddi 8. tl., bréf UMF Álftanes varðandi ósk um aukið fjárframlag til uppbyggingar aðstöðu og íþróttastarfs og las upp bréf sem sent var UMFÁ vegna málsins.

Kjartan Örn Sigurðsson, ræddi 8. tl., bréf UMF Álftanes varðandi ósk um aukið fjárframlag til uppbyggingar aðstöðu og íþróttastarfs.

Ingvar Arnarson, ræddi framkomna tillögu. Þá ræddi Ingvar 9. tl., afgreiðslu umhverfisnefndar varðandi friðlýsingu á náttúrvættinu Búrfelli.

Gunnar Einarsson, ræddi að nýju framkomna tillögu.

Afgreiðsla mála.

Tillögu um að vísa framkominni tillögu um að setja reglur um úthlutun lóða til bæjarráðs er felld með átta atkvæðum (GVG,ÁHJ,AG,BF,GE,SS,KÖS,LHAL) gegn þremur (IA,HÞ,VÖÁW).

Tillaga um að setja reglur um úthlutun lóða er samþykkt með átta atkvæðum (GVG,ÁHJ,AG,BF,GE,SS,KÖS,LHAL). Þrír sitja hjá (IA,HÞ,VÖÁW).


 
1810375 - Afgreiðsla umhverfisnefndar varðandi friðlýsingu á náttúruvættinu Búrfelli, Búrfellsgjá og eystri hluta Selgjár.
 
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisnefndar um að leitað verði eftir því við Umhverfisstofnun að hafinn verði undirbúningur að því að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluta Selgjár sem náttúruvætti en fyrri ákvörðun um friðlýsingu var felld niður með auglýsingu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nr. 380 frá 25. apríl 2016.

Fundargerðin sem er 11 tl. er samþykkt samhljóða.
 
3. 1902001F - Fundargerð bæjarráðs frá 5/2 ´19.
Enginn kvaddi sér hljóðs.

Fundargerðin sem er 14 tl. er samþykkt samhljóða.
4. 1901026F - Fundargerð fjölskylduráðs frá 23/1 ´19.
Almar Guðmundsson, ræddi 1. tl., húsnæðisáætlun Garðabæjar, 6. tl., skipun öldungaráðs, 7. tl., skipun samráðshóps um málefni fatlaðs fólks og 9. tl., tillögu um eflingu lýðræðislegra vinnubragða.

Fundargerðin lögð fram.
5. 1901001F - Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 4/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
6. 1901017F - Fundargerð leikskólanefndar frá 17/1 ´19.
Valborg Ósk Á Warén, ræddi 5. tl., hækkun leikskólagjalda.

Fundargerðin lögð fram.
7. 1901038F - Fundargerð menningar- og safnanefndar frá 25/1 ´19.
Gunnar Valur Gíslason, kvaddi sér hljóðs og vakti athygli á að á fund menningar- og safnanefndar mætti Eiríkur Björn Björgvinsson, nýráðinn sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs og var hann boðinn velkominn til starfa. Þá ræddi Gunnar Valur 3 tl., aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldi Íslands, 5. tl. vetrarhátíð 2019 og 8. tl., verkefni menningar- og safnanefndar 2018-2019.

Björg Fenger, ræddi 5. tl., vetrarhátíð 2019.

Harpa Þorsteinsdóttir, ræddi 5. tl., vetrarhátíð 2019.

Fundargerðin lögð fram.
8. 1901021F - Fundargerð skipulagsnefndar frá 17/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
9. 1901008F - Fundargerð skólanefndar grunnskóla frá 24/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
10. 1901032F - Fundargerð umhverfisnefndar frá 23/1 ´19.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, ræddi 6. tl., tillögu um að draga úr plastmengun í rekstri Garðabæjar og stofnana á vegum Garðabæjar og lagði fram eftirfarandi tillögu sem hún flytur ásamt Jónu Sæmundsdóttur.

"Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að flokkunartunnur verði settar upp í stofnunum sveitarfélagsins."

Greinargerð:
Mikil vitundarvakning hefur verið í umhverfismálum og flokkun sorps er orðin hluti af okkar daglega lífi. Það er mikilvægt að bæjarbúar, starfsmenn Garðabæjar og aðrir gestir séu meðvitaðir um mikilvægi flokkunar. Bæta má aðgengi og sýnileika flokkunartunna í stofnunum sveitarfélagsins. Sýnileikinn getur verið hvetjandi til flokkunar auk þess sem mikilvægt er að flokkun sé til staðar þar sem mikið sorp fellur til.
Með betri umgengni, flokkun sorps með það að markmiði að minnka sorp bætum við ekki aðeins lífsgæði okkar heldur einnig okkar afkomenda.

Valborg Ösp Á Warén ræddi framkomna tillögu og lagði til að tillögunni verði vísað til bæjarráðs.

Gunnar Einarsson, ræddi framkomna tillögu.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, ræddi að nýju framkomna tillögu.

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, ræddi framkomna tillögu.

Ingvar Arnarson, ræddi 3. tl., mengun af völdum flugelda um áramót, 4. tl., friðlýsingu og 5. tl., uppgræðslu á beitarhólfi í Krísuvík.

Gunnar Einarsson, ræddi 5. tl., uppgræðslu á beitarhólfi í Krísuvík.

Ingvar Arnarson, ræddi að nýju 5. tl., uppgræðslu á beitarhólfi í Krísuvík.Afgreiðsla mála.
Tillaga um að vísa framkominni tillögu um flokkunartunnur til bæjarráðs er felld með átta atkvæðum (GVG,ÁHJ,AG,BF,GE,SS,KÖS,LHAL) gegn þremur (IA,HÞ,VÖÁW).

Tillaga um flokkunartunnur samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram.
11. 1901198 - Fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 18/1 ´19.
Ingvar Arnarson, ræddi 6. tl., viðhorfskönnun meðal íbúa Leirvogstungu.

Fundargerðin lögð fram.
12. 1901316 - Fundargerð stjórnar SHS bs. frá 18/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
13. 1901375 - Fundargerð stjórnar SSH frá 14/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
14. 1901407 - Fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 11/1 ´19.
Björg Fenger, ræddi 1. tl., akstursþjónustu fatlaðs fólks, 3. tl. eflingu almenningsamgangna í tengslum við uppbyggingu nýs Landspítala og 5. tl., innsend erindi ? aukin tíðni ferða.

Valborg Ösp Á Warén, ræddi 1. tl., akstursþjónustu fatlaðs fólk.

Björg Fenger, ræddi 1. tl., akstursþjónustu fatlaðs fólks og svaraði fyrirspurn.

Ingvar Arnarson, ræddi 5. tl., innsend erindi - aukin tíðni ferða.

Gunnar Einarsson, ræddi 1. tl., akstursþjónustu fatlaðs fólks og svaraði fyrirspurn.

Fundargerðin lögð fram.
15. 1901420 - Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 28/1 ´19.
Fundargerðin lögð fram.
16. 1902056 - Tillaga Garðabæjarlistans um að gerð verði könnun meðal eldri borgara varðandi nýtingu á þeirri heilsurækt sem er í boði í Garðabæ.
Harpa Þorsteinsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.

"Við í Garðabæjarlistanum leggjum til að gerð verði könnun á því hvernig eldri borgarar í Garðabæ eru að nýta sér þá heilsurækt sem í boði er með það að markmiði að fá betri yfirsýn yfir það hvernig hægt sé að mæta þörfum allra íbúa. Markmiðið væri að greina hvaða hópur eldri borgara er að nýta þá þjónustu sem nú þegar er til staðar, hversu hátt hlutfall kýs að leita annað og borga þá þjónustu að fullu og þá er mikilvægt að greina þann hóp sem ekki nýtir sér nein úrræði og af hverju."

Greinargerð:
Heilsurækt fyrir eldri borgara þarf að vera fjölþætt, hvetjandi og aðgengileg fyrir íbúa 65 ára og eldri. Um er að ræða stækkandi hóp samfélagsins og má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn og öðrum útfærslum sem þarft er að bregðast við. Með því að greina notkunina á þeirri heilsurækt sem stendur íbúum til boða og þann hóp sem ekki nýtir sér þau úrræði fáum við skýrari mynd af því hvernig hægt er að svara eftirspurn og þannig stuðla að heilsueflingu og aukinni virkni eldra fólks. Það er ábyrgð þeirra sem fara með stjórn í sveitarfélögum að finna leiðir til þess að sem flestir íbúar geti viðhaldið góðri heilsu.

Björg Fenger, ræddi framkomna tillögu að lagði til að tillögunni verði vísað til íþrótta- og tómstundaráðs.

Harpa Þorsteinsdóttir, ræddi að nýju framkomna tillögu.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, ræddi framkomna tillögu.

Gunnar Einarsson, ræddi framkomna tillögu.

Afgreiðsla mála.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa framkominni tillögu um könnun meðal eldri borgara til íþrótta- og tómstundaráðs.
17. 1902049 - Fyrirspurn um vöru- og þjónustukaup 2018.
Ingvar Arnarson, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi fyrirspurn.

"Fyrirspurn um kaup á vöru og þjónustu frá stærstu birgjum á árinu 2018.
Fyrirspurn þessi varðar heildarkaup frá birgjum hvort heldur þau eru gjaldfærð eða eignfærð í bókhaldi."

Gunnar Einarsson, tók til máls.

Kjartan Örn Sigurðsson, tók til máls.

Almar Guðmundsson, tók til máls.

Afgreiðsla mála.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að svara fyrirspurninni.
18. 1902050 - Fyrirspurn um niðurgreiðslur á fæði fyrir eldri borgara
Valborg Ösp Á Warén, kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi fyrirspurn.

"Ég vil leggja fram eftirfarandi spurningar er varðar fyrirkomulag um niðurgreiðslu á fæði til eldri borgara í Garðabæ.
Hversu há er niðurgreiðsla á fæði til eldri borgara í Garðabæ ?
Ef niðurgreiðslan er engin, hver er ástæða þess ?"

Gunnar Einarsson, tók til máls.

Afgreiðsla mála.
Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að svara fyrirspurninni.
19. 1806461 - Fjárhagsáætlun 2019 - Lántaka
Gunnar Einarsson, gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 500.000.000.

"Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 500.000.000 með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórn hefur kynnt sér.
Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögnunar á byggingu á grunnskóla í Urriðaholti og viðbyggingu við grunnskóla á Álftanesi sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Gunnari Einarsyni, bæjarstjóra, kt. 250555-4079, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Garðabæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns."

Afgreiðsla mála.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 500.000.000, fimmhundruðmilljónirkróna.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum.