Fundargerðir

Til baka Prenta
Skipulagsnefnd Garðabæjar
1. fundur
14.01.2021 kl. 08:00 kom skipulagsnefnd Garðabæjar saman til fundar Fundurinn er haldinn með fjarfundarbúnaði.
Fundinn sátu: Sigurður Guðmundsson formaður, Lúðvík Örn Steinarsson aðalmaður, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir aðalmaður, Stella Stefánsdóttir aðalmaður, Baldur Ólafur Svavarsson aðalmaður, Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri, Sólveig Helga Jóhannsdóttir skipulagsfræðingur, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Anna Guðrún Gylfadóttir byggingarfulltrúi, Anna María Guðmundsdóttir verkefnastjóri, Guðbjörg Brá Gísladóttir deildarstjóri umhverfis og framkvæmda.

Fundargerð ritaði: Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið: 
1. 2010333 - Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030. Breyting 7. Breyting á landnotkun v. búsetukjarna í Brekkuás
Lögð fram tillaga að breytingu Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 sem gerir ráð fyrir því að landnotkunareitur 2.06 S Brekkuás breytist í 2.06 Íb sem er breyting úr svæði fyrir samfélagsþjónustu í svæði fyrir íbúðarbyggð í samræmi við áður samþykkta skipulagslýsingu sem hefur verið auglýst. Lagðar fram ábendingar og umsagnir sem borist hafa við lýsinguna. Markmið breytingarinnar er að skapa grundvöll fyrir deiliskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir því að leiksskólalóð breytist í einnar hæðar fjölbýlishúsalóð sem ætluð er búsetukjarna fyrir fatlaða. Í ábendingum sem komið hafa fram hjá nágrönnum kemur fram sú ósk að svæðið verði skilgreint sem opið svæði eins og það hefur verið í raun frá því að hverfið byggðist. Skipulagsnefnd ítrekar mikilvægi þess að búsetuúrræðum verði fundinn góður staður í íbúðarbyggð og óbyggða svæðið við Brekkuás uppfyllir þau skilyrði mjög vel. Nýverið hefur verið gert ráð fyrir leikskóla á lóð við Lyngás og þannig hugað að þeirri þjónustu í Ásahverfi þar sem fyrir er leikskóli. Skipulagsnefnd samþykkir forkynningu tillögunnar í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2. 2005435 - Búsetukjarni Brekkuás 2, breyting á deiliskipulagi Hraunsholts vestra
Lögð fram tillaga að breytingu deiliskipulags Hraunsholts vestra (Ásahverfis) sem gerir ráð fyrir því að lóð fyrir leikskóla við Brekkuás breytist í lóð fyrir fjölbýlishús sem ætlað er hreyfihömluðum. Skiplagsnefnd vísar tillögunni til forkynningar í samræmi við 3.mgr.40.gr. Þær breytingar hafa verið gerðar frá fyrri tillögu að lögun byggingarreits breytist í kjölfar samráðs við fjölskyldusvið um mögulegar útfærslur á byggingunni með tilliti til búsetunnar. Skipulagsnefnd samþykkir forkynningu tillögunnar í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún kynnt samhliða tillögu að breytingu aðalskipulags sem nær til sama svæðis.
3. 2008424 - Vesturtún 38-40 - hækkun þaks -Fyrirspurn til skipulags og byggingarfulltrúa
Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu deiliskipulags Vesturtúns sem nær til parhúsalóðarinnar Vesturtún 38-40. Tillagan gerir ráð fyrir því að hámarks mænishæð hækkar um 70 cm. Skipulagsstjóri vísaði tillögunni til grenndarkynningar í samræmi við 2. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 44. gr. sömu laga. Engar athugasemdir hafa borist. Tillagan skoðast því samþykkt.
4. 2012035 - Brúnás 12 - Umsókn um byggingarleyfi
Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu deiliskipulags Hraunsholts vestra (Ásahverfis) sem nær til lóðarinnar Brúnás 12. Tillagan gerir ráð fyrir því að þakvirki og burðarveggur undir því fari lítillega út fyrir byggingarreit, að gólfkóti aðalhæða sé 20 cm hærri en G-kóti á hæðarblaði og vegghæð hærri hluta húss sé 40 cm hærri en miða má við í skilmálum. Skipulagsstjóri vísaði tillögunni til grenndarkynningar í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 44. gr. sömu laga.
Lögð fram gögn þar sem að allir aðilar sem grenndarkynning náði til hafa með áritun sinni lýst yfir því að þeir geri ekki athugasemdir við tillöguna. Fyrir mistök stendur í erindi með grenndarkynningu að G-kóti sé 43,3 mys (metrar yfir sjávarmáli) en rétt er að hann er 34,3 mys. Rétt hæð kom fram á uppdrætti sem var hluti grenndarkynntra gagna. Leiðréttist sú villa hér með.
Tillagan skoðast því samþykkt og er skipulagsstjóra heimilað að stytta tíma grenndarkynningar í samræmi við 3. mgr. 44. gr. ofangreindar laga.
5. 2101186 - Fyrirspurn. Lyngás 13 og 15. Breyting á deiliskipulagi Ása og Grunda
Lögð fram fyrirspurn lóðarhafa Lyngáss 13 og 15 um hugmyndir að breytingum á deiliskipulagi. Vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði.
Sólveig Helga Jóhannsdóttir sat ekki fundinn undir þessum lið.
6. 1912107 - Hraunhólar 8, breyting á deiliskipulagi Hraunholts eystra
Deiliskipulag lóðarinnar og annarra lóða sunnan Hraunhóla ræddar. Skipulagsnefnd telur skynsamlegra að skoða nánar möguleika á því að breyta deiliskipulagi lóðanna þannig að þar mætti reisa íbúðarhús með fleiri íbúðum sem gætu verið minni og af fjölbreyttari gerð. Ennfremur þarf að huga að áhrifum fyrirhugaðrar stofnbrautar milli Engidals og Reykjanesbrautar á byggð við Hraunhóla. Málinu vísað til tækni- og umhverfissviðs til skoðunar.
7. 2101013 - Garðatorg 4 - Umsókn um byggingarleyfi
Lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir kaffihús á jarðhæð hússins að Garðatorgi 4. Óskað er eftir því að heimilað verði að setja svæði fyrir borð og stóla utan lóðarmarka við Vífilsstaðaveg. Vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði.
8. 2101092 - Asparlundur 19 - stækkun eignar baka til - Fyrirspurn til skipulags og byggingarfulltrúa
Lögð fram fyrirspurn um stækkun byggingarreits raðhúss þannig að hægt verði að byggja yfir innskot við stofu.
Vísað til umsagnar arkitekts húsanna og deiliskipulagsráðgjafa.
9. 2012166 - Keldugata 14 - Fyrirspurn til skipulags og byggingarfulltrúa
Lögð fram umsögn deiliskipulagshöfundar vegna fyrirspurnar sem laut að því hvort heimilað yrði að loka bílskýli sem skal vera opið samkvæmt deiliskipulagi.
Svar skipulagsnefndar: Nefndin tekur undir umsögn deiliskipulagshöfundar og leggur til að lögð verði fram fullnægjandi útfærsla og sótt um deiliskipulagsbreytingu hvað þetta atriði varðar.
10. 2002267 - Hraungata 7 - DSK breyting
Lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir því að leyfilegur þakhalli verði 0-15 gráður í stað 15-45 og að heimilaðar verða 4h hæðir í tengibyggingu á milli húshluta þar sem fyrirhugað er að hafa lyftuhús.
Skipulagsnefnd metur breytinguna sem óverulega breytingu deiliskipulags Urriðaholts vesturhluta í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og vísar henni til grenndarkynningar í samræmi við 44. gr. sömu laga. Grenndarkynna skal eigendum Hraungötu 5, 8, 9, 10, 12 og 14 og Holtsvegar 41 og 43.
Baldur Ó. Svavarsson vék af fundi undir þessum lið.
11. 2010441 - Keldugata 2, dsk br Urr.vesturhluti
Lögð fram tillaga að breyting deiliskipulags Urriðaholts vesturhluti að lokinni auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir sem borist hafa lagðar fram.
Vísað til úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði.
12. 1811064 - Umferðaröryggisáætlun
Berglind Hallgrímsdóttir og Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir hjá Eflu verkfræðistofu kynntu tillögu að umferðaröryggisáætlun Garðabæjar. Skipulagsnefnd samþykkir áætlunina fyrir sitt leyti og vísar henni til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
13. 2012034F - afgreiðslufundir skipulagsstjóra - 16:00
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00. 
Til baka Prenta

Fylgigögn eru birt með fundargerðum:

  • bæjarráðs, frá og með 12. fundi 2015
  • skólanefndar grunnskóla frá og með 14. fundi 2015
  • mannréttinda- og forvarnanefndar frá og með 16. fundi 2015
  • umhverfisnefndar frá og með 18. fundi 2015
  • leikskólanefndar frá og með 15. fundi 2015
  • menningar- og safnanefndar frá og með 12. fundi 2015
  • íþrótta- og tómstundaráðs frá og með 14. fundi 2015

Reglur um birtingu gagna með fundargerðum (sjá reglur undir stjórnsýslu).