11. jan. 2021

Hilmar Snær og Ágústa Edda eru íþróttamenn Garðabæjar

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2020 eru þau Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður og Ágústa Edda Björnsdóttir, hjólreiðakona.

  • Íþróttamenn Garðabæjar 2020
    Íþróttamenn Garðabæjar 2020

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2020 eru þau Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður og Ágústa Edda Björnsdóttir, hjólreiðakona.

Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 10. janúar sl. Vegna fjöldatakmarkana var ekki haldin stór samkoma til að heiðra þá sem unnið hafa til afreka á árinu 2020 eins og gert hefur verið undanfarin ár. Kjöri íþróttamanna ársins, konu og karls, var því lýst í beinni útsendingu á vef Garðabæjar. Þá var einnig tilkynnt um val á „liði ársins“ og „þjálfurum ársins“ auk heiðursviðurkenninga vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum.

Lið ársins 2020 er lið Stjörnunnar í meistaraflokki karla í körfuknattleik. Einnig voru afhentar viðurkenningar fyrir þjálfara ársins sem að þessu sinni voru þau Íris Ósk Hafþórsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ og Elías Jónasson, barna- og unglingaþjálfari Stjörnunnar í handknattleik.

Viðurkenningar fyrir frábæran árangur innanlands sem utanlands

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þ.e. til einstaklinga sem hlutu Íslands-, bikar- eða deildarmeistaratitla eða settu Íslandsmet. Í þetta sinn voru það alls 176 einstaklingar sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur innanlands.
Einn einstaklingur hlaut viðurkenningu fyrir A-landsliðsþátttöku og einn einstaklingur hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku með yngra landsliði. Þá hlaut einn einstaklingur viðurkenningu fyrir árangur á erlendum vettvangi, EM, NM eða sambærilegt. Um er að ræða töluvert færri viðurkenningarhafa en fyrri ár, sem rekja má til heimsfaraldurs og þeirra áhrifa sem hann hafði á íþróttaiðkun.

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs og í ár voru það eftirtaldir einstaklingar sem fengu þær viðurkenningar: Gunnar Jónsson GKG, Lárus Guðmundsson KFG, Þorgerður Kristinsdóttir UMFÁ og Ingi Þór Hermannsson GO.

Viðurkenningar á hátíðinni - nafnalisti (pdf-skjal)

Um íþróttamenn Garðabæjar 2020

Íþróttakarl Garðabæjar er Hilmar Snær Örvarsson – skíðamaður, íþróttir fatlaðra.

Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður er íþróttakarl Garðabæjar í annað sinn. Hilmar Snær tók þátt í 16 mótum á alþjóðlegum vettvangi, þar af 13 Evrópubikarmótum en þremur heimsbikarmótum á keppnistímabilinu 2019-2020. Hann stóð uppi sem sigurvegari í fimm af þessum mótum og var á verðlaunapalli í 11 þeirra. Hilmar varð fyrstur Íslendinga til að sigra Evrópumótaröð IPC í alpagreinum en það gerði hann á lokamótinu í Króatíu í febrúar 2020. Á heimsbikarmótaröðinni landaði hann silfri á Ítalíu í svigi og þrenn gullverðlaun litu svo dagsins ljós í janúar í Jasna í Slóvakíu á móti innan Evrópumótaraðarinnar, tvenn gull í svigi og ein í stórsvigi. Frá Slóvakíu lá leiðin til Zagreb í Króatíu þar sem Hilmar tryggði sér endanlega sigur á Evrópumótaröðinni með tvenn gullverðlaun og eitt silfur í svigi. Lokaniðurstaða Evrópubikarmótaraðarinnar varð því 1. sæti samanlagt í svigi og stórsvigi og 1. sæti í svigi.

Íþróttakona Garðabæjar er Ágústa Edda Björnsdóttir – hjólreiðakona í Tindi.

Ágústa Edda Björnsdóttir er íþróttakona Garðabæjar. Ágústa Edda sneri sér að hjólreiðum eftir glæsilegan handboltaferil til margra ára, þar sem hún var meðal annars valin handboltakona ársins 2009. Ágústa Edda hóf að æfa hjólreiðar markvisst fyrir tæpum fimm árum. Hún hefur æft og keppt með hjólreiðaklúbbnum Tindi frá upphafi en einnig sem hluti af keppnisliði Kría Cycles. Á þessum vettvangi hefur hún orðið Íslandsmeistari í götuhjólreiðum síðustu þrjú ár og bikarmeistari í götuhjólreiðum síðustu þrjú af fjórum árum. Hún hefur orðið Íslandsmeistari í tímatöku síðustu tvö ár og bikarmeistari síðustu þrjú ár. Þá hefur hún verið valin hjólreiðakona ársins undanfarin 3 ár. Ágústa Edda var fyrst Íslendinga til að keppa á HM í götuhjólreiðum 2019 en hún keppti einnig á því móti í ár.