Ómar Guðjónsson gítarleikari heldur djasstónleika í Garðabæ
Ómar Guðjónsson er ungur gítarleikari úr Garðabæ sem hefur nú þegar látið að sér kveða í íslensku djasslífi og tók m.a. þátt í nýliðinni djasshátíð í Reykjavík. Sunnudaginn 23. nóvember kl. 20:30 heldur hann tónleika í Garðabæ í sal Tónlistarskólans við Kirkjulund. Djassaðdáendum á höfuðborgarsvæðinu gefst þarna tilvalið tækifæri til að hlusta á upprennandi ungan tónlistarmann sem fær aðstoð frá öðrum þekktum djassleikurum.Nýlega gaf Ómar út sína fyrstu sólóplötu, Varma land. Á tónleikunum í Garðabæ mun Ómar leika lög af disknum með aðstoð bróður síns Óskars Guðjónssonar á saxófón, Helga Svavars Helgasonar á trommur og Jóhanns Ásmundssonar á kontrabassa.
Ómar Guðjónsson
er fæddur 1978. Hann byrjaði að spila á gítar 12 ára gamall. Fjórtán ára hóf hann nám í FÍH. Kennarar hans þar voru m.a. Hilmar Jensson, Jón Páll Bjarnason og Sigurður Flosason. Ómar útskrifaðist úr FÍH í byrjun árs 2003. Síðustu ár hefur Ómar spilað mikið opinberlega og starfað með fjölda hljómsveita. Meðal hljómsveita sem hann hefur stofnað eru Funkmaster 2000, Desmin og HOD. Ómar var meðlimur í kvartettnum Off Minor sem tók þátt í Norðurlandadjasskeppni ungliða í Helsinki árið 2002 á vegum ,,Young Nordic Jazz Comets". Árið 2003 tók Ómar þátt í sömu keppni með hljómsveitinni HOD. Hann vann til verðlauna ungur að árum sem besti gítarleikari músiktilrauna.
Tónleikarnir á sunnudag eru haldnir í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar. Miðasala verður á staðnum. Sjá nánari upplýsingar um tónleikana og tónlistarmennina með því að smella hér.