Fatlað fólk

Þjónusta við fatlað fólk

Þjónusta við fatlað fólk byggist á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.  Sjá nánar hér í lögum um málefni fatlaðs fólks

Þjónusta er veitt á heimilum og utan þeirra og miðar að því að stuðla að jafnrétti og skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Garðabær ber ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk, stefnumótun, framkvæmd þjónustunnar og eftirliti með henni. Fatlað fólk á rétt á allri almennri þjónustu sveitarfélagsins en sé þjónustuþörf meiri er sértæk þjónusta veitt.

Garðabær veitir margvíslega þjónustu, svo sem ráðgjöf og stuðning við fatlað fólk og foreldra fatlaðra barna, þjónustu á heimilum, hæfingu, starfsþjálfun, verndaða vinnu, stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn, skammtímavistun og ferðaþjónustu. 

Þjónustan miðar að því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og skapa því skilyrði til að lifa eðlilegu lífi og taka virkan þátt í samfélaginu. 

Hér má finna reglur Garðabæjar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

Hverjir eiga rétt á þjónustu?

Í lögum um málefni fatlaðs fólks segir: 
Einstaklingur á rétt á þjónustu samkvæmt lögum þessum sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum. 

Umsjón með málafloknum hefur:

Pála Marie Einarsdóttir, umsjónarþroskaþjálfi á fjölskyldusviði
netfang: palaei@gardabaer.is

Upplýsingar fást einnig hjá:
Þjónustuveri Garðabæjar í síma:  525 8500
netfang: gardabaer@gardabaer.is

 

Ferðaþjónusta fatlaðra

Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsvagna kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Umsóknir skulu berast bæjarskrifstofu og skal fylgja þeim læknisvottorð, þar sem það á við.

Hér á vefnum er hægt að nálgast umsókn til útprentunar (undir þjónusta Garðabæjar).  Einnig er hægt að senda inn rafræna umsókn í gegnum íbúavefinn Minn Garðabæ.

Reglur um akstursþjónustu fatlaðra má finna hér.

Upplýsingar veitir fjölskyldusvið Garðabæjar, sími 525 8500 (þjónustuver), netfang gardabaer@gardabaer.is

Reglur ferðaþjónustu fatlaðra:

  • Ekið er virka daga kl. 6:30 - 24:00 nema á stórhátíðum en þá er ekið á sama tíma og Strætó bs. Laugardaga er ekið frá kl. 7:30-01:00 og sunnudaga 9:30-24:00
  • Þeir sem njóta þjónustunnar skulu hafa tiltekin ferðaleyfi sem gefin eru út af fjölskyldusviði.
  • Þjónustusvæðið er: Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.
  • Pöntunarsími er 540-2727, einnig er hægt að senda pöntun á pant@pant.is eða fylla út umsókn á vefnum,  www.pant.is
  • Þjónustuver er opið alla virka daga milli kl. 9:00 og 16:00, og 10-14 um helgar.

 

Félagsleg liðveisla

Félagsleg liðveisla er persónulegur stuðningur og aðstoð sem er ætlað að rjúfa félagslega einangrun og styrkja fólk til þátttöku í menningar- og félagslífi. Liðveisla er veitt fötluðum börnum frá 6 ára aldri, sem og fullorðnu fötluðu fólki.

Heimili fatlaðra

Garðabær rekur eftirtalin heimili:

  • Heimilið Miðskógum 22, forstöðumaður Lilja Guðmundsdóttir, sími 565-4525
  • Heimilið Krókamýri 54, forstöðumaður Ingibjörg Friðriksdóttir, sími 565-9505
  • Heimilið Sigurhæð 12, forstöðumaður Hlöðver Sigurðsson, sími 544-4700
  • Heimilið Ægisgrund 19, forstöðumaður Ásta Kristinsdóttir, sími 565-8130
  • Skammtímavistun Móaflöt 24, forstöðumaður Ingibjörg Elín Baldursdóttir, sími 512-1570
  • Íbúðakjarni Unnargrund 2, forstöðumaður Jóna Jóhanna Sveinsdóttir, sími 414-0555

 

Heimili og heimilishald

Fötluðu fólki stendur til boða félagsleg þjónusta og sérstakur stuðningur til að geta búið á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þessi þjónusta á að taka mið af aðstæðum, óskum og þörfum hvers og eins. Þjónustan skal miða að því að fólk fái aðstoð við að ráða lífi sínu og aðstæðum, styrkja stöðu þess og lífsgæði. 

Hægt er að sækja um þjónustu heim á formi félagslegrar heimaþjónustu og frekari liðveislu, hvort sem fólk býr í eigin íbúð, leiguíbúð á almennum markaði eða félagslegri leiguíbúð. 
  
Sjá nánar um félagslegt leiguhúsnæði hér

Stuðningsþjónusta


Stuðningsþjónustu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf stuðning til að geta séð um sig sjálft, svo sem aðstoð við almennt heimilishald, persónulega umhirðu og félagslegan stuðning. 
 
Sjá nánar um stuðningsþjónustu hér.

Frekari liðveisla


Frekari liðveislu er ætlað að aðstoða fólk sem þarf sérstakan stuðning við ýmsar athafnir í daglegu lífi sínu. Sá stuðningur kemur til viðbótar félagslegri liðveislu og heimaþjónustu 
Athugið að félagsleg heimaþjónusta og frekari liðveisla ná að hluta til yfir það sama og skarast því og munu að öllum líkindum færast undir einn og saman hattinn eftir 2014.

 

Hæfing, starfsþjálfun og vernduð vinna

Hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu er ætlað að veita fötluðu fólki þjálfun og stuðning sem miðar að því að auka hæfni þess til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði.

Frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni í Garðabæ

Síðustu sumur hefur verið boðið upp á atvinnutengt frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni í Garðabæ. 

Markmiði starfsins er tvíþætt: 

  • Að gefa ungmennum tækifæri til þess að taka þátt í hinum ýmsu störfum með þeim stuðningi sem hver og einn þarfnast 
  • Að efla sjálfstæði einstaklinga og styrkja félagsleg tengsl með því að áhersla er einnig lögð á fjölbreytt frístundastarf

Almennt er gert ráð fyrir 4 stundum á dag í vinnu og að síðan taki við frístundastarf.

 

Hæfing

Með hæfingu er átt við starfs- og félagsþjálfun í þeim tilgangi að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Lögð er áhersla á þjálfun sem viðheldur og eykur starfsþrek, sjálfstæði í vinnubrögðum og félagslega færni.

Starfsþjálfun

Fatlað fólk getur sótt um tímabundna starfsþjálfun til að auka hæfni til að takast á við störf á almennum vinnumarkaði. Starfsþjálfun líkir eftir vinnuaðstæðum og kröfum sem búast má við á almennum vinnumarkaði. Einnig má sækja um starfsprófun sem metur hvers konar störf henta fólki í ljósi starfsgetu, áhugasviðs og starfsmöguleika. 

Vernduð vinna

Fatlað fólk getur sótt um vinnu á vernduðum vinnustað, en lög gera einnig ráð fyrir að atvinna með stuðningi standi til boða á almennum vinnumarkaði. 

Vernduðum vinnustöðum er ætlað:

  1. að veita fötluðu fólki launaða starfsþjálfun svo að það verði hæfara til að starfa á almennum vinnumarkaði
  2. að veita fötluðu fólki föst störf. 

Vinnan er launuð samkvæmt sérstökum kjarasamningi sem byggir á samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Hlutverks – samtaka um vinnu og verkþjálfun. 

 

Atvinna með stuðningi

Atvinna með stuðningi (AMS) felur í sér stuðning við fólk sem hefur skerta starfsgetu vegna fötlunar. Það fær aðstoð við að finna heppilegt starf á almennum vinnumarkaði og stuðning við að sinna því.

Atvinna með stuðningi er starfrækt hjá:
Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins
Kringlunni 1, 105 Reykjavík
sími: 515-4850.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.


Réttindagæsla fatlaðs fólks

Velferðarráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun og eftirliti með að þjónustan sé í samræmi við markmið laga og reglugerða og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. 

Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi þess, fjármuni og önnur persónuleg mál. Það má gera með því að hringja eða senda tölvupóst og hann aðstoðar fólk við að leita réttar síns. 

Þeir sem telja að brotið sé á réttindum fatlaðs fólks eiga að tilkynna það réttindagæslumanni. Hann getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði. Starfsmönnum fjölskyldusviðs Garðabæjar er skylt að veita réttindagæslumanni þær upplýsingar sem hann þarf vegna starfs síns. 

Fatlað fólk sem á erfitt með að gæta réttar síns getur valið sér persónulegan talsmann sem hjálpar því að koma óskum sínum á framfæri. Talsmaðurinn aðstoðar fólk við að gæta réttar síns og við önnur persónuleg málefni, svo sem meðferð heilbrigðisstarfsmanna, val á búsetu, atvinnu, tómstundum og ráðstöfun fjármuna. 

Skilyrði fyrir því að verða persónulegur talsmaður er þekking á persónulegum þörfum og áhugamálum þess sem hann aðstoðar. Starf persónulegs talsmanns er ólaunað en hann fær endurgreiddan kostnað vegna starfa sinna.

Frekari upplýsingar um réttindagæslumenn eru á vef Velferðarráðuneytisins og í lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks

Símanúmer réttindagæslumanna er: 554-8100

Tölvupóstur réttindagæslumanna: postur@rettindagaesla.is

Facebook-síða Réttindagæslumaður fatlaðs fólks

Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks

Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks er skipaður samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um félagsþjónustu sveitafélaga nr. 40/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 37/2018. Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks (Notendaráð) er formlegur samráðsvettvangur þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar.

Upplýsingar veitir: Pála Marie Einarsdóttir, ráðgjafarþroskaþjálfi fjölskyldusviðs Garðabæjar, í síma 525-8500 eða á netfanginu palaei@gardabaer.is

Fulltrúar í samráðshópi árið 2022-2026:

Kristín Einarsdóttir, formaður, kjörin af bæjarstjórn (D)
Sveinbjörn Halldórsson, kjörin af bæjarstjórn (D)
Hjördís Guðmundsdóttir, kjörin af bæjarstjórn (B)
Bergþóra Bergsdóttir, tilnefnd af ÖBÍ
Elín Hoe Hinriksdóttir, tilnefnd af ÖBÍ
Árni Björn Kristjánsson, tilnefndur af Landsamtökunum Þroskahjálp


Skammtímavistun

 

Skammtímavistun er ætlað að veita fötluðum börnum og fullorðnum tímabundna dvöl til tilbreytingar eða til að létta álagi af aðstandendum vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem veikinda eða annars álags. Vistunin er því ýmist reglubundin eða veitt til ákveðins tíma og er dvalartíminn breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins.

Skammtímavistanir eru í Garðabæ fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri, í Hafnarfirði fyrir einstaklinga eldri en 18 ára og í Kópavogi þar sem fullorðnir einstaklingar dvelja ávallt tvær vikur í hverjum mánuði.

Stuðningsfjölskyldur

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu sem hefur það hlutverk að taka barnið í umsjá sína í skamman tíma til að létta álagi af fjölskyldu þess. Þörf fyrir þjónustu er metin út frá aðstæðum barns og fjölskyldu. Við matið er horft til fötlunar barnsins og umönnunarþarfar, sem og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar.

Sjá einnig reglur Garðabæjar um stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra og minnisblað um greiðslur til stuðningsfjölskyldna (síða um reglugerðir undir félagsþjónustu)

 

Styrkir fyrir fatlað fólk

Garðabær vekur athygli á möguleika fatlaðs fólks sem þarfnast sértæks stuðnings vegna fötlunar sinnar til að sækja um styrki skv. 25. grein laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Opið er fyrir umsóknir frá 15. september til og með 15. október 2022.
Rafræn umsóknareyðublöð eru á Þjónustugátt Garðabæjar. (Undir umsóknir og 06. Málefni fatlaðs fólks)

Fatlað fólk getur sótt um eftirfarandi aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar:
1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Forsendur fyrir styrknum eru að eiga lögheimili í Garðabæ, hafa náð 18 ára aldri og vera með varanlegt örorkumat. Hámarksstyrkur til umsækjanda er 65.000 kr.

Nánari upplýsingar veitir Pála Marie Einarsdóttir umsjónarþroskaþjálfi, netfang: palaei@gardabaer.is

 

Stefna í málefnum fatlaðs fólks

 

Stefna Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks var samþykkt í september 2012.  Stefnan nær til alls þjónustusvæðisins sem er Garðabær og Áfltanes.

Stefnan byggir á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum sem og reglugerðum og reglum sveitarfélagsins.

Markmið laganna kemur fram í 1. gr. þeirra: 
“Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

Jafnframt byggir stefnumótunarvinnan á framkvæmdaáætlun Velferðarráðuneytis í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2012 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.

Í 3. gr. samningsins koma fram almennar meginreglur sem byggt hefur verið á og varða m.a.: 
• virðingu fyrir sjálfræði og sjálfstæði einstaklingsins 
• bann við mismunun 
• virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika 
• virka þátttöku í samfélagi án aðgreiningar 
• jöfn tækifæri.

 

Stefna Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks.

 

 

Þjónusta við fötluð börn

Stuðningsfjölskyldur

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og veita barninu tilbreytingu. Stuðningsfjölskyldan hefur barnið í umsjón sinni að jafnaði tvo sólarhringa í mánuði. Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu er samningsbundin til ákveðins tíma.

Til að sækja um stuðningsfjölskyldu þarf að fylla út eyðublaðið Umsókn um þjónustu við fatlað fólk.

Rafrænt eyðublað er á Mínum Garðabæ.

Skammtímavistun

Garðabær starfrækir skammtímavistun fyrir fötluð börn í Móaflöt 24. Einnig er skammtímavistun fyrir ungmenni og fullorðna í Hnotubergi 19 í Hafnarfirði. Tilgangur skammtímavistunar er að bjóða upp á tímabundna dvöl til að létta álagi af fjölskyldum og veita börnunum/ungmennunum sjálfum tilbreytingu. Þessi þjónusta stuðlar að því að börnin/ungmennin geti búið sem lengst í foreldrahúsum. Lengd dvalartíma er breytileg eftir fötlun og aðstæðum hverju sinni. Boðið er uppá skammtímavistun alla daga vikunnar, allan ársins hring fyrir utan hátíðisdaga.

 

  • Móaflöt 24 í Garðabæ

Skammtímavistun sem einkum er fyrir börn og unglinga. 

 

  • Hnotuberg 19 í Hafnarfirði

Skammtímavistun fyrir ungmenni og fullorðið fólk.

 

Til að sækja um skammtímavistun þarf að fylla út eyðublaðið Umsókn um þjónustu við fatlað fólk.

Rafrænt eyðublað er á Mínum Garðabæ.

Umönnunargreiðslur

Foreldrar fatlaðra barna geta sótt um umönnunargreiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins

Tekið er mið af fötlun barnsins og þeirri þjónustu sem það nýtur utan heimilis. Við ákvörðun á umönnunarmati er tekið tillit til umönnunarþyngdar og sérstakra útgjalda sem skapast vegna fötlunar barnsins. Matið byggist á upplýsingum úr læknisvottorði og frá foreldrum. Sótt er um umönnunargreiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins en fjölskyldusvið Garðabæjar veitir umsögn og gerir tillögur að umönnunarmati. Endanleg ákvörðun umönnunarmats er ávallt Tryggingastofnunar ríkisins og annast hún allar greiðslur þess efnis. Umönnunargreiðslur eru samþykktar til ákveðins tíma og endurmetnar með reglulegu millibili.

Ráðgjöf

Fjölskyldusvið Garðabæjar býður þjónustunotendum og aðstandendum þeirra ýmsa þjónustu og ráðgjöf til viðbótar þeirri þjónustu sem talin er upp hér að framan. Þar eru meðal annars veittar upplýsinguar um réttindi og möguleika fatlaðs fólks til þjónustu.