Umsókn um skipulagsbreytingar

Ef sótt er um breytingu á deiliskipulagi skal fylla út þar til gert eyðublað á vef þjónustugáttar Garðabæjar. 

Umsókn skulu fylgja breytingaruppdrættir deiliskipulags, ljósrit af lóðablöðum, umsögn deiliskipulagshöfundar og skýringarmyndir sé þess þörf.  Uppdráttum og öðrum gögnum skal einnig skilað á tölvutæku formi. Uppdrættir skulu brotnir saman í A4 stærð og skilað í þremur eintökum. 

Gjöld vegna skipulagsvinnu og útgáfu framkvæmdaleyfis eru samkvæmt gjaldskrá.

Algengt er að byggingarfulltrúi bendi umsækjendum um byggingarleyfi á að nauðsynlegt sé að sækja um skipulagsbreytingu ef í ljós kemur að tillagan uppfyllir ekki skipulagsskilmála.

Umsókn um deiliskipulagsbreytingu - Þjónustugátt Garðabæjar

Deiliskipulagsbreyting 

Deiliskipulagsbreytingarferlið er í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. 

Þegar bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu að deiliskipulagsbreytingu skal hún auglýst í 6 vikur en að þeim tíma liðnum rennur út tími til að gera athugasemdir. Kynningin er auglýst með áberandi hætti á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, á heimasíðu Garðabæjar, í Morgunblaðinu á fimmtudögum og Garðapóstinum. 

Engar athugasemdir berast: 

Ef engar athugasemdir berast við auglýsta tillögu að deiliskipulagsbreytingu þarf ekki að taka tillöguna til annarrar umræðu í bæjarstjórn. 

Niðurstöður auglýsingar er kynnt fyrir skipulagsnefnd. 

Endanleg skipulagsgögn og samþykkt tillaga eru send við Skipulagsstofnunar til yfirferðar. 

Þegar afgreiðsla Skipulagsstofnunar liggur fyrir birtist auglýsing um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagsbreytingunni í B-deild Stjórnartíðinda, sem við það öðlast gildi og fyrst þá má veita byggingar- og eða framkvæmdarleyfi á grundvelli hennar. 

Frestur til að kæra ákvörðun um breytt deiliskipulag til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um samþykkt. 

Athugasemdir berast: 

Ef athugasemdir berast á auglýsingartíma ber að kynna niðurstöður auglýsingar, ásamt tillögu að svörum við innsendum athugasemdum fyrir skipulagsnefnd. Einnig skal taka fyrir niðurstöður, s.s. hvort eða hvaða breytingar eru gerðar á tillögunni.

Þegar athugasemdir berast skal tillagan, svör og viðbrögð við athugasemdum tekin fyrir í Bæjarstjórn.

Svör og viðbrögð við athugasemdum skal síðan send þeim er gerðu athugasemdir við auglýsti tillögu að deiliskipulagsbreytingu. 

Endanleg skipulagsgögn, samþykkt tillaga og svör við athugasemdum eru send við Skipulagsstofnunar til yfirferðar.

Þegar afgreiðsla Skipulagsstofnunar liggur fyrir birtist auglýsing um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagsbreytingunni í B-deild Stjórnartíðinda, sem við það öðlast gildi og fyrst þá má veita byggingar- og eða framkvæmdarleyfi á grundvelli hennar.

Hafi verið verðar athugasemdir við tillögu að deiliskipulagsbreytingu og/eða á henni gerðar breytingar að auglýsingartíma loknum skal bæjarstjórn auglýsa samþykkt sína á henni á heimasíðu Garðabæjar samhliða svörum við athugasemdum.

Frestur til að kæra ákvörðun um breytt deiliskipulag til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um samþykkt. 

Óveruleg deiliskipulagsbreyting

Deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt er sem óveruleg breyting skal vísa til grenndarkynningar ef breytingin varðar hagsmuni nærliggjandi nágrennis. 

Ef tillagan er grenndarkynnt er tillagan auglýst á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar ásamt því að vera send bréfleiðis þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Athugasemdarfrestur er 4 vikur. 

Ef engar athugasemdir berast þá þarf ekki að leggja tillöguna fyrir skipulagsnefnd og skoðast hún þá samþykkt.
Berist athugasemdir er tillagan tekin fyrir á ný í skipulagsnefnd og ýmist samþykkt óbreytt, breytt eða henni er hafnað.

Eftir að bæjarstjórn samþykkir tillögu að breytingu er tillagan ásamt málsgögnum send til athugunar hjá Skipulagsstofnun og í kjölfar þess er deiliskipulagsbreytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, sem við það öðlast gildi og fyrst þá má veita byggingar- og eða framkvæmdarleyfi á grundvelli hennar. Skipulagsstofnun fær síðan send öll gögn til varðveislu.