Vífilsstaðavatn og nágrenni

Friðland í þéttbýli

Vífilsstaðavatn og nágrenni voru friðlýst árið 2007.

Markmiðið með friðlýsingunni er að friða og vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að treysta svæðið sem útivistarsvæði. Friðlýsingin var sú fyrsta í Garðabæ og með henni er almenningi tryggður réttur til að njóta ósnortinnar náttúru á miðju höfuðborgarsvæðinu til framtíðar.

Friðland í þéttbýli

Svæðið sem friðlýsingin nær yfir er 188 hektarar að stærð og þar af er vatnið sjálft 27 hektarar. Svæðið er í eigu Garðabæjar sem er óvenjulegt þar sem flest friðlönd eru í einkaeigu eða á afrétt. Það er einnig óvenjulegt að jafn stórt svæði sé friðlýst svo nálægt þéttbýlinu. Friðlýsingin tekur til 

Vífilsstaðavatns og hlíðanna að sunnan- og austanverðu upp frá vatninu að meðtöldu Grunnavatnsskarði.

Fjölbreytt lífríki

Lífríki Vífilsstaðavatns hefur verið rannsakað um ára skeið. Þar eru sérstæðir stofnar bleikju, urriða, áls og hornsíla. Óvenjuleg blanda glerála frá Ameríku og Evrópu gengur upp Vífilsstaðalæk í Vífilsstaðavatn. Hornsílin í vatninu eru heimsfræg, en þau eru sérstök að því leyti að þau skortir kviðgadda. Hornsílin í Vífilsstaðavatni hafa komið við sögu í rannsóknum vísindamanna á Íslandi og í Bandaríkjunum á sviði þróunar- og erfðafræði.

Náttúrukennsla við Vífilsstaðavatn

Í september á hverju ári fer 6. bekkur í Sjálandsskóla, Flataskóla og Hofsstaðaskóla að Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk þar sem fram fer kennsla um lífríkið í og umhverfis vatnið og lækinn. Kennslan við vatnið er liður í náttúrufræðikennslu í skólunum, en þessa vinsælu útikennslu hefur umhverfisnefnd Garðabæjar boðið upp á síðan 1999.

Vífilsstaðavatn er eitt lífríkasta vatn landsins miðað við fjölda dýra á fermetra. Í vatninu er að finna fjöldann allan af smádýrum t.d. efjufló, rykmýslirfur, vatnabobba, vorflugupúpur og blóðsugur. Svipað er að finna í læknum nema þar eru bitmýslirfur í stað rykmýslirfa. Í vatninu eru einnig fiskar og eru það urriðar, bleikjur, álar, og hornsíli. Það hefur komið fram í rannsóknum á lífríki vatnsins að í vatnasviði Vífilsstaðavatns mætast Evrópu- og Ameríkuálar en Ísland er eina landið sem vitað er að það gerist. Hornsílin eru heimsfræg sökum kviðgaddaleysi þeirra og er Vífilsstaðavatn það eina hér á landi og eitt fárra vatna í heiminum sem er með slík síli.

Náttúran er alltaf að koma okkur á óvart því einn nýjasti meðlimur í íslensku fiskifánunni fannst í Hraunsholtslæk við ósinn og er það flatfiskur sem fer upp í ferskvatnslæki og -ár rétt eins og sjóbirtingurinn. Þessi fiskur heitir Ósalúra og hefur hann verið að hasla sér völl við strendur landsins. Þannig að það er ekki að sjá annað en að krakkar í grunnskólum bæjarins, fái náttúruvísindin beint í æð.

Útivist

Umhverfis Vífilsstaðavatn er útivistarstígur, hann er um 2,6 km að lengd. Átlað er að það taki 35 mín. eað ganga kringum vatnið en 15 mín. að skokka. Útivistarbekkir eru meðfram stígnum og skýli við bílastæðið við Elliðavatnsveg. Fræðsluskiltum hefur verið komið upp, um lífríki vatnsins, fugla við vatnið og gróður. Gamla bryggjan var endurgerð við vesturbakkann fyrir nokkrum árum til að auðvelda aðgengi fatlaðra. Umhverfi vatnsins er á öllum árstíðum eftirsóknarvert til útivistar, þaðan er hægt að ganga upp að vörðunni Gunnhildi uppi á Vífilsstaðahlíð, þar er útsýnisskilti og gott útsýni. Einnig er gönguslóði innan við vatnið upp í Grunnavatnaskarð. Á ísilögðu vatninu er hægt að fara á skauta.

Umgengni um friðlandið

Óheimilt er að spilla náttúrulegu gróðurfari, hrófla við jarðmyndunum og náttúruminjum í friðlandinu og trufla þar dýralíf. Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi verða óheimilar nema með leyfi Umhverfisstofnunar og bæjarstjórnar Garðabæjar. Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur umsjón með aðgerðum til verndunar landsins og til þess að almenningur geti notið svæðisins. Þegar hefur verið ákveðið að koma upp nýju fræðsluskilti við vatnið með leiðbeiningum til útivistarfólks.

Umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð á friðlandinu nema vegna þjónustu við það. Heimilt er að fara á reiðhjólum um svæðið eftir vegum og stígum. Stangveiði er áfram heimil í vatninu eins og verið hefur yfir sumartímann með Veiðikortinu www.veidikortid.is.