3. mar. 2021

Garðabær auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar

Þróunarsjóðnum er ætlað að stuðla að nýbreytni og framþróun í starfi leikskóla í Garðabæ.

  • Sögupokar á Lundabóli
    Sögupokar á Lundabóli -verkefni sem hefur fengið styrk úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar.

Garðabær auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar. Þróunarsjóðnum er ætlað að stuðla að nýbreytni og framþróun í starfi leikskóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar og starfsfólk sem starfa við leikskóla í Garðabæ, einn leikskólar eða fleiri leikskólar/fagaðilar í sameiningu, fræðslu og menningarsvið í samstarfi við leikskóla geta sótt um styrk í sjóðinn.


Til úthlutunar árið 2021 eru 4,5 miljónir.

Áhersluþættir Þróunarsjóðs leikskóla 2021-2022:

  • Vellíðan og vinátta. Verkefni er stuðla að velllíðan, vináttu og að tilheyra hópi leggja grunnin að heilbrigði barna. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla að velferð og vellíðan barna, með skólabrag í þessum anda mótast menning sem hefur samfélagslegt forvarnargildi. Í þessum áhersluþætti er vísað til grunnþátta menntunar í leikskólum um heilbrigði og velferð.
  • Ung börn og upplýsingatækni. Upplýsingatækni og tæknibúnaður tengdur því er hluti af daglegu umhverfi barna. Sé horft til framtíðar mun umhverfi einstaklingsins byggja sífellt meira á tækniþekkingu og tæknilausnum. Megin markmið þessa áhersluþáttar er að nota upplýsingatækni á skapandi hátt í starfi með börnum.
  • Þátttökumiðað nám. Námssvið leikskólans leggja áherslu á reynslu barna, áhuga/forvitni og hugmyndir. Kennsluaðferðir leikskólans byggja á hugmyndum um þátttökumiðað nám þar sem lagt er upp með þátttöku barnsins í námsferlinu og þróun þess í samhengi við umhverfið og samfélagslegar breytingar. Alla grunnþætti menntunar er hægt að fella undir þátttökumiðað nám.

Einnig er hægt að sækja um styrki til verkefna sem styðja við skólanámskrá og sérstöðu hvers skóla. Við afgreiðslu er m.a. horft til tengingar við fræðasamfélagið og samstarfs milli skóla og skólastiga.

Umsóknir skulu hafa borist fyrir 1. apríl 2021 og verður þeim svarað fyrir 30. apríl 2021.