Snjómokstur

Fyrirkomulag á snjómokstri í Garðabæ

Í Garðabæ hefst snjómokstur kl. 4 að nóttu þegar snjóað hefur og er unnið eftir forgangsáætlun. Hægt er að skoða þær götur og stíga sem eru í forgangi varðandi snjómokstur á kortavefnum map.is/gardabaer

Snjómokstur hefst kl. 4 að nóttu

Í Garðabæ hefst snjómokstur kl. 4 að nóttu þegar snjóað hefur og er unnið eftir forgangsáætlun. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar og verktakar vinna hörðum höndum að því að halda öllum aðalleiðum opnum, hvort sem um er að ræða götur eða stíga. Húsagötur koma þar á eftir og eru þær hreinsaðar eins hratt og hægt er á hverjum tíma.  

Hægt er að skoða þær götur og stíga sem eru í forgangi varðandi snjómokstur á kortavefnum map.is/gardabaer. Opna þarf flokkinn "Umhirða" í upplýsingaglugganum hægra megin á síðunni og haka við "Snjómokstur". Þá koma upp leiðirnar sem farnar eru og sést hvaða götur og stígar eru í forgangi. Ef smellt er á "i" sést hvað litirnir tákna.  

Kortavefur

Snjóvakt frá 1. nóvember til 1. apríl

Snjóvakt er í Garðabæ frá 1. nóvember til og með 1. apríl. Starfsmenn og verktakar eru þá til taks utan hefðbundins vinnutíma. Þegar snjór fellur eða hálka myndast er unnið eftir fyrirliggjandi viðbragðsáætlun og starfsmenn og verktakar ræstir út klukkan 4.00 að nóttu til sé talin ástæða til. 

Verkefni við snjóhreinsun og hálkueyðingu má i stórum dráttum skipta eftir því hvort um er að ræða götur eða stíga, gangstéttar eða tröppur. Ólíkar aðstæður kalla á mismunandi tækjakost og aðferðir en markmiðið er það sama; að tryggja greiðar leiðir.

Umferðargötur - snjóhreinsun og hálkueyðing

Á umferðargöturnar fara stórtæk snjóruðningstæki sem komast hratt yfir og salt er notað til hálkueyðingar. Markmiðið er að stofnbrautir, strætisvagnaleiðir, fjölfarnar safngötur, bílaplön við stofnanir, stofnanalóðir og aðkoma að skólum og leikskólum sé orðin greiðfær fyrir kl. 7.30 að morgni. Í framhaldi er oft farið í húsagötur sem eru hreinsaðar séu þær orðnar þungfærar, snjódýpt talsverð eða hálka og þá er saltað eða sandað eftir atvikum. Snjóhreinsun takmarkast við að gera þessar götur akfærar. Við snjóhreinsun í húsagötum er líklegt að við innkeyrslur myndist snjóruðningar. Þótt reynt sé að haga mokstri þannig að það gerist ekki eru aðstæður mjög misjafnar og stundum er það óhjákvæmilegt. Ekki hefur verið lögð áhersla á að moka ruðningana nema í sérstökum tilfellum. Það fellur því í hlut íbúanna sjálfra að hreinsa burt snjó úr innkeyrslum.

Stígar- og gangstéttar - snjóhreinsun og hálkueyðing

Á stíga og gangstéttar fara sérútbúnar dráttarvélar og til hálkueyðingar er notaður sandur og salt. Stofnstígar, þ.e. breiðir göngu- og hjólastígar sem tengja saman bæjarhluta hafa forgang í hreinsun og síðan er farið í megingönguleiðir að strætóskýlum og skólum. Miðað er við að þær séu orðnar greiðfærar fyrir kl. 8:00 virka daga. Stundum er farið út um helgar ef mikið hefur snjóað til að reyna að létta á göngustígum. Þröngir göngustígar í eldri hverfum (1-1.2 m) eru öllu jöfnu ekki mokaðir enda erfitt að fara þar um með vélar vegna þrengsla. Reynt er þó að bregðast við ábendingum eins og kostur er.

Ábendingar vegna snjómoksturs og hálkuvarna

Hægt er að koma ábendingum vegna snjómoksturs og hálkuvarna til Garðabæjar í gegnum ábendingavef umhverfis þar sem hægt er með auðveldum hætti að senda inn upplýsingar um staði, götur þar sem þarf að bæta úr.  Íbúar mega gjarnan nýta ábendingavefinn til að benda á það sem þarf að laga eða má betur fara í umhverfinu í Garðabæ. Ábendingar sem sendar eru inn fara beint til Þjónustumiðstöðvar til úrvinnslu.

Einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver Garðabæjar í netfanginu gardabaer@gardabaer.is eða í síma 525-8500 .