Stafrænt skólastarf í Garðabæ

Menntastefna

Stafrænt nám er lykilþáttur í framtíðarsýn Garðabæjar, þar sem lögð er áhersla á að búa nemendur undir stöðugar samfélags- og tæknibreytingar. Garðabær hefur sett fram skýra menntastefnu sem leggur grunn að farsælu og framsæknu skólastarfi þar sem tækni er nýtt á ábyrgan, öruggan og skapandi hátt. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám og fjölbreytta kennsluhætti þar sem upplýsingatækni er nýtt til að efla færni nemenda til að takast á við framtíðaráskoranir. Einnig til að jafna tækifæri til náms, efla nýsköpun, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun.

Námstæki

Aðgengi nemenda að námstækjum hefur aukist mikið og við árslok 2024 munu allir nemendur í 4.-10. bekk hafa aðgang að Chromebook tölvum til að nýta í námi sínu. Rekstur og stjórnun Chromebook tölvanna fer fram í Google Workspace for Education Plus umsjónarkerfinu og nemendur skrá sig inn með gerviauðkennum. Lokað er fyrir öll samskipti utan kerfisins. 

Jafnframt er stefnt að því að tryggja hverjum nemanda í 1.-3. bekk iPad spjaldtölvu til afnota í námi sínu. Spjaldtölvunum er stýrt með miðlægu umsjónarkerfi Jamf, sem veitir kerfisstjórum möguleika á að setja takmarkanir á notkun. Upplýsingatæknideild Garðabæjar getur meðal annars hindrað aðgang að App Store og dreift smáforritum miðlægt. Nemendur skrá sig ekki inn í spjaldtölvurnar og eru þær allar læstar með aðgangskóða.    

Hugbúnaður

Val á hugbúnaði/forritum sem nýtt eru í skólastarfi með börnum krefst vandlegrar skoðunar. Áður en hugbúnaður er tekinn í notkun fer fram ítarlegt greiningarferli sem felur meðal annars í sér áhættumat, gerð vinnslusamninga, skráningu vinnslufyrirkomulags og mat á áhrifum á persónuvernd. 

Unnið er að innleiðngu á smáforriti sem tilheyrir Jamf-stýrikerfinu fyrir spjaldtölvur. Með því  getur kennari stjórnað kennslustund meðal annars með því að takmarka aðgengi neenda að ákveðnum smáforritum og vefsíðum. 

Markvisst er unnið að því að lágmarka vinnslu persónuupplýsinga nemenda í þeim hugbúnaðarlausnum og námstækjum sem nýtt eru í skólastarfi í Garðabæ. Þeirri vinnu er stýrt miðlægt frá skrifstofu fræðslu- og frístundasviðs. 

Andmælaréttur

Nemendur eða forráðafólk sem vilja andmæla notkun tiltekins hugbúnaðar geta sent andmæli til skólastjóra viðkomandi skóla. Öll andmæli eru skráð, metin og eftir atvikum boðið upp á aðrar lausnir fyrir nemendur sé talið tilefni til þess. 

Einnig er hægt að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Garðabæjar vegna fyrirspurna um vinnslu persónuupplýsinga. Fyrirspurnum má beina á netfangið personuvernd[hjá]gardabaer.is. Einnig er hægt að senda erindi til Persónuverndar.   

Ábyrgð

Skólastjóri ber ábyrgð á notkun upplýsingatækni í sínum skóla og ber að fræða foreldra um samþykkta notkun hugbúnaðar/forrits.    

Samþykktur hugbúnaður

Hér fyrir neðan er að finna upplýsingar um hugbúnað sem hefur fengið samþyki til notkunar í skóla- og frístundastarfi í Garðabæ. Allur hugbúnaður hefur verið metinn af sérfræðingum fræðslu- og frístundasviðs og þjónustu og þróunarsviðs út frá öryggis- og persónuverndarsjónarmiðum. Smella þarf á plúsinn til að opna frekari upplýsingar um viðkomandi hugbúnað.  

Áhættugreining

Áhættugreiningu fyrir hugbúnaðinn hér fyrir neðan er að finna á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga

Hlekkir á tengt efni

Apple kjarnahugbúnaður iPad

Sjá nánar um Apple kjarnahugbúnað iPad

Apple Clips - Myndbandsforrit til að taka upp og klippa myndskeið. 

Apple School Manager - Stjórnunarkerfi sem heldur utan um smáforrit og hugbúnað keyptan í App Store.

Apple swift Playgrounds - Forritunarkennsla og þjálfun með skemmtilegum verkefnum og leikjum. 

GarageBand - Hljóðvinnsluforrit, hægt að skapa tónlist, taka upp og klippa. 

iMovie - Kvikmyndagerðarforrit. 

Keynote - Glærugerðarforrit, hægt að gera kynningar með myndum, hreyfimyndum og texta. 

Notes - Einfalt glósugerðarforrit. 

Numbers - Töflureikniforrit, hægt að vinna með töflureikna, mynstur og gögn á sjónrænan og skapandi hátt. 

Pages - Ritvinnsluforrit. 

Safari - Netvafri. 

Voice memos - Radd- og hljóðskráningarforrit.   

Bebras áskorunin

Bebras er alþjóðleg áskorun sem miðar að því að auka áhuga á upplýsingatækni og efla tölvunarhugsun
(e. computational thinking). 

Sjá nánar um Bebras áskorunina

Til stendur að taka þátt í hinni alþjóðlegu Bebras áskorun sem miðar að því að auka áhuga á upplýsingatækni og efla tölvunarhugsun (e. computational thinking) meðal nemenda á öllum skólastigum. Fer hún fram á vefnum í nóvember ár hvert undir umsjón kennara. Áskorunin er hýst í Amsterdam hjá hollenska tölvufyrirtækinu Eljakim Information Technology bv sem er NEN7510:2017 og ISO27001:2013 vottað. Ský félag fyrir fólk og fyrirtæki í upplýsingatækni , er í forsvari fyrir áskorunina á Íslandi.

Bebras áskorunin er skemmtileg og áhugaverð leið til að kynnast og þjálfa tölvunarhugsun fyrir nemendur á aldrinum 6-18 ára. Þátttakendur fá krefjandi verkefni til að leysa og hafa til þess eina tilraun sem varir 45 mínútur. Viðfangsefnin eru aldursmiðuð og skiptast í 6 aldursflokka og styðja meðal annars við kennslu markmið aðalnámskrár grunnskóla.

Engar persónuupplýsingar verða skráðar um nemendur. Eftirfarandi upplýsngar verða skráðar í hugbúnaðinn:  

  • Gerviauðkenni. 
  • Bekkur.
  • Þyngdarstig - til að tryggja að nemandi fái viðfangsefni sem hæfa aldri hans og þroska.

Eftirfarandi upplýsingar verða skráðar um stjórnendur/kennara:

  • Nafn
  • Netfang - er geymt sem tengiliða upplýsingar fyrir skólann.
    Gögn um þátttakendur eru geymd í allt að 10 mánuði að þeim liðnum er öllum persónuupplýsingum um þátttakendur eytt. Gögn sem eru gefin út niður á skóla, skólaár og kyn eru gerð ópersónugreinanleg. Þátttakandi og/eða foreldrar/forsjáraðilar geta hvenær sem er óskað eftir að fá gögnin afhent og/eða að þeim verði eytt, jafnvel innan 10 mánaða. Senda þarf tölvupóst annað hvort á umsjónarkennara eða beint á netfangið sky[hjá]sky.is með slík erindi. Kennarar geta valið að taka ljósmyndir af þátttakendum og sent á Ský eftir þeim reglum sem gilda um myndatökur og myndbirtingar viðkomandi skóla. Myndirnar gætu verið notaðar í umfjöllun um áskorunina.

Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við Bebras áskorunina er að styðja við og efla kennslu í upplýsingatækni og þróa hæfni nemenda í upplýsingatækni, forritun og tölvunarhugsun (e. computational thinking) með markvissum hætti.

Verkefni áskoruninnar byggjast á notkun upplýsingatækni með tengingu inn á svið stærðfræðinnar og eru sérsniðin að aldri og getu nemenda. Þetta styrkir þverfaglega hugsun nemenda og hæfni þeirra til að tengja saman ólík viðfangsefni. Þrautirnar reyna á sköpunargáfu nemenda með því að ýta undir að þeir finni nýjar leiðir til að leysa verkefni með óhefðbundnum aðferðum.

Sveitarfélaginu er nauðsynlegt að vinna með tilgreindar persónuupplýsingar á grundvelli þess að vinnslan þyki nauðsynleg vegna verkefnis sem unnið er í þágu almannahagsmuna og við beitingu opinbers valds sem sveitarfélagið fer með, sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 enda leiðir það af hlutverki grunnskóla samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008.

Kennslufræðilegur rökstuðningur

Með þátttöku í Bebras áskoruninni læra nemendur að hugsa kerfisbundið, finna lausnir á flóknum vandamálum og nota rökræna hugsun sem er hluti af færni í upplýsingatækni og miðlalæsi. Bebras notar stafrænt og gagnvirkt námsefni sem eflir nemendur í að nýta tæknilausnir á fjölbreyttan hátt.

Í kafla 26 - Upplýsinga- og tæknimennt í aðalnámskrá grunnskóla segir m.a. „Megintilgangur kennslu í upplýsinga- og tæknimennt er að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi öðlast víðtæka hæfni á sviði upplýsinga- og miðlalæsis við lok grunnskóla. Þjálfa þarf hvern nemanda markvisst í upplýsinga- og miðlalæsi alla skólagönguna.“ (Aðalnámskrá grunnskóla, kafli 26.1 Upplýsinga- og tæknimennt).

Einnig er tilgangur vinnslunnar að styðja við þjálfun eftirfarandi hæfniviðmiða í upplýsinga- og tæknimennt sem og stærðfræði aðalnámskrár grunnskóla.

Að nemandi getur:

  • Nýtt rafrænt og gagnvirkt námsefni.
  • Nýtt rafrænt og gagnvirkt námsefni á fjölbreyttan hátt.
  • Notað hugbúnað/forrit við miðlun þekkingar á einfaldan hátt.
  • Notað myndmál, frásögn og texta jafnhliða táknmáli stærðfræðinnar og unnið með innbyrðis tengsl þeirra.
  • Sett sig inn í og tjáð sig, bæði munnlega og skriflega, um ólíkar leiðir við lausnir stærðfræðiverkefna.
  • Kannað, búið til og tjáð sig um reglur í talnamynstrum og öðrum mynstrum á fjölbreyttan hátt og spáð fyrir um framhald mynsturs, t.d. með því að nota líkön og hluti.

    Þátttaka í Bebras áskoruninni styður við alla ofangreinda þætti aðalnámskrár grunnskóla.

Sérfræðingar fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar hafa framkvæmt áhættugreiningu á Bebras áskoruninni. Greiningin leiddi í ljós að notkun er heimil með takmörkunum.

Um nemendur er eingöngu heimilt að skrá gerviauðkenni, bekk og þyngdarstig

Ekki er heimilt að skrá nafn eða kyn. Með því er vinnsla persónuupplýsinga nemenda lágmörkuð.

 Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Book Creator iPad

Rafbókarforrit, hægt að búa til stafrænar bækur á skapandi hátt með texta, myndum, myndskeiðum og hljóði.

Sjá nánar um Book Creator iPad


Classroom Screen

Vefhugbúnaður sem birtir skipulagsverkfæri fyrir kennara á einum skjá til að styðja nemendur í að halda einbeitingu og skipulagi í kennslustund með fjölbreyttum sjónrænum verkfærum. Er sérstaklega hannaður til að bæta upplifun nemenda og tekur mið af mismunandi námsstílum. 

Innbyggt í hugbúnaðinn er tímastillir og skeiðklukka, umferðarljós, hávaðamælir, textatöflur, athugasemdakassi, teikniforrit (e. whiteboard), handahófskennd hópaskipting, spurningakort og skjáskipting (e. multi-screen).

Sjá nánar um Classroom Screen 

Til stendur að taka vefhugbúnaðinn Classroom Screen í notkun í grunnskólum Garðabæjar. Leyfilegt er að nota bæði ókeypis útgáfu hugbúnaðarins og áskriftarleið fyrir skóla. Þegar áskriftarleiðin er valin er eingöngu leyfilegt að skrá kennara sem notendur (ekki nemendur, skráðir notendur verða að hafa náð 18 ára aldri), kennarar geta skipulagt kennslustundir á "skjám" og vistað. Gögnin eru vistuð innan EES í vottuðum gagnaverum (ISO 27001, SOC 1, SOC 2, SOC 3, ISO 27017, ISO 27018) og notast er við dulkóðun gagna í flutningi og hvíld. 

Nafnalista hugbúnaðarins er leyfilegt að nota ef nýtt eru gerviauðkenni í stað eiginnafna nemenda.  

Hávaðamælir hugbúnaðarins þarf aðgang að hljóðnema viðkomandi tölvu til að mæla hávaðastig í kennslustofunni, auðvelt er að opna og loka fyrir hljóðnemann í forritinu. Hægt er að stjórna aðgengi að hljóðnemanum í stillngum vefvafrans eða í tölvunni. Notanda er valfrjálst hvort hann veiti hugbúnaðinum aðgang að hljóðnemanum og hefur það ekki nein áhrif á virkni. Engin upptaka eða streymi á sér stað við notkun hávaðamælisins. 

Skjalamyndavél þarf aðgang að innbyggðri myndavél tölvunnar eða utanáliggjandi vefmyndavél til að varpa upp á skjáinn. Engin upptaka eða streymi á sér stað við notkun skjalamyndavélarinnar.   

Persónuupplýsingar

  • Um kennara eru skráðar eftirfarandi persónuupplýsingar: nafn og tölvupóstfang.
  • Um nemendur er hægt að skrá nafn og er sá möguleiki aðeins í boði þegar skipta á í hópa af handahófi.
    Ekki er leyfilegt að: 
  • vista skjái ef nöfn nemenda eru sett inn í hópaskiptingar-verkfærið
  • skrá nöfn nemenda í nafnalista (e. Name lists).   

Kennslufræðilegur rökstuðningur 

Hugbúnaðurinn styður við sveigjanlega kennslu, mismunandi námsstíla og mætir þörfum ólíkra nemenda, hjálpar nemendum að stjórna eigin tíma og einbeitingu. Með sjónrænum táknum, hljóðstýringu og skjáborði getur hugbúnaðurinn haft margvísleg jákvæð áhrif á kennslu og námsárangur nemenda. Sveigjanlegt viðmót hugbúnaðarins dregur úr truflun í kennslustund og styður kennara við að auðvelda skipti á milli verkefna, veita skýr fyrirmæli og sýnilega leiðsögn. 

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga

Dash og dot

Forrit til að stjórna Dash og Dot vélmönnum/þjörkum. Kennir grunnatriði forritunar og hreyfistýringu í gegnum skapandi leik og verkefni.

Sjá nánar um Dash og dot


Fjármálaleikarnir

Fjármálaleikarnir er stafræn keppni í fjármálalæsi fyrir grunnskólanemendur. Keppnin veitir nemendum tækifæri til að fræðast um fjármál á skemmtilegan hátt og prófa þekkingu sína með því að leysa fjölbreytt verkefni.

Sjá nánar um Fjármálaleikana

Til stendur að taka þátt í Fjármálaleikunum. Veflausnin hefur verið áhættumetin af sérfræðingum Garðabæjar með hliðsjón af persónuverndarlögum og upplýsingaöryggi. Gögnin eru vistuð í gagnaverum AWS (e. Amazon Web Services) í Dublin, Írlandi, sem fellur undir evrópska persónuverndarlöggjöf (GDPR). Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) er ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga í keppninni og hafa þau gert vinnslusamning við gagnaverið. Persónugreinanlegum upplýsingum er handvirkt eytt 6 mánuðum eftir að keppni lýkur. 

Hverjir geta tekið þátt?

Nemendur í efstu bekkjum grunnskóla geta tekið þátt fyrir hönd síns skóla. Keppnin er á vegum SFF og Landsamtaka lífeyrissjóða. 

Hvernig virkar keppnin?

Nemendur skrá sig inn á vefsíðuna www.fjarmalaleikar.is.
Þau svara spurningum og leysa verkefni um fjármálalæsi.
Stig nemenda eru reiknuð saman og skólinn safnar heildarstigum. 
Skólinn með hæstu stigin vinnur og tveit nemendur þaðan fá að keppa í úrslitum Evrópukeppninnar í Brussel. 

 Hver þátttakandi skráir sig til leiks á vefslóðinni www.fjarmalaleikar.is. Við skráningu gefur þátttakandi upp nafn, aldur, netfang og heiti skóla og þar með er viðkomandi skóli orðinn þátttakandi í leiknum. Ekki þurfa allir nemendur í árgangi að skrá þátttöku til að viðkomandi skóli teljist með, en lágmarksfjöldi skráðra þátttakenda úr hverjum skóla er tíu. Árangur hvers skóla er reiknaður hlutfallslega miðað við fjölda þátttakenda og fjölda nemenda í árganginum. Niðurstöður verða eingöngu teknar saman hjá þeim nemendum sem klára að svara öllum spurningunum. Sérstakur hnappur er fyrir kennara sem vilja fylgjast með gangi leikanna - þeir skrá sig til leiks í  „Kennaraskólann“. Kennarinn þarf ekki að klára leik eða svara spurningum, frekar en hann vill. 

Myndatökur og myndbirtingar

Farið er eftir reglum Garðabæjar um myndatökur og myndbirtingar. Myndir eru aðeins birtar með samþykki nemenda og foreldra/forráðafólks. Myndirnar geta verið birta á samfélagsmiðlum SFF, Instagram, Facebook og TikTok. 

Nemendur, foreldrar/forráðafólk eða kennarar geta afturkallað samþykki eða óskað eftir eyðingu gagna með því að senda tölvupóst á fjarmalavit[hja]fjarmalavit.is. 

Ef þú hefur spurningar eða vilt frekari upplýsingar getur þú haft samband beint við skólann eða senda tölvupóst á fjarmalavit[hja]fjarmalavit.is.

Graphogame

Kennsluhugbúnaður sem styður börn í lestrarnámi með þjálfun í að tengja hljóð við bókstafi.

Sjá nánar um Graphogame

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Krakkarúv

Krakkarúv er safn af íslensku barnaefni frá RÚV, bæði á vef og í smáforriti. Þar má finna fréttir, þætti, leiki og hljóðefni sem eru sérstaklega gerð fyrir börn. 

Sjá nánar um Krakkarúv

Til stendur að taka í notkun smáforritið Krakkarúv í skólastarf í Garðabæ. Innskráning er ekki möguleg, engar auglýsingar eru í hugbúnaðinum og efnið er aðgengilegt öllum á Íslandi. Þetta er öruggt og skemmtilegur svæði fyrir börn til að horfa, hlusta og læra.  

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Lego Spike

Sjá nánar um Lego Spike

Til stendur að taka í notkun smáforritið Lego Spike

Lego WeDo 2.0

KennsIuhugbúnaður sem styður við verklega STEM kennslu (e. sience, technology, engineering, mathematics) með áherslu á grunnatriði forritunar, verkfræði og hönnunar með skapandi verkefnum. Nemendur byggja þjarka (e. robots) og forrita þá til að leysa fjölbreyttar áskoranir.
  

Sjá nánar um Lego WeDo 2.0

Til stendur að taka í notkun hugbúnaðinn Lego WeDo 2.0 sem virkar á flestum stýrikerfum sem nýtt eru í dag. Hann virkar eingöngu með ákveðinni tegund Lego leikfanga. Ekki er hægt að skrá neinar  persónuupplýsingar um notendur. 

Valkvætt er hvort hugbúnaðurinn fái aðgang að hljóðnema, bluetooth, myndavél og myndaalbúmi. En til þess að forritið geti sent foritunarskipanir á þjarkinn þarf að vera opið fyrir Bluetooth. Auðvelt er að stjórna þessu aðgengi í stillingum viðkomandi námstækis.  

Lego hefur hætt þróun hugbúnaðarins og mun fjarlægja hann úr forritabúðum þann 31. júlí 2026. Sérfræðingar hafa metið áhættuna vegna þessa í lágmarki byggir það mat m.a. á því að hugbúnaðurinn er staðbundinn og krefst ekki nettengingar eða gagnaflutnings við vinnslu. 

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga

Lærum og leikum með hljóðin

Lærum og leikum með hljóðin er íslenskur kennsluhugbúnaður hannaður af talmeinafræðingum til að efla hljóðkerfisvitund og undirbúa lestrarnám. 

Sjá nánar um Lærum og leikum með hljóðin 

Til stendur að taka smáforritið Lærum og leikum með hljóðin til notkunar í grunnskólum Garðabæjar. Það er íslenskt kennsluforrit hannað af talmeinafræðingum til að efla hljóðkerfisvitund og undirbúa lestrarnám. Forritið byggir á gagnreyndum aðferðum til að kenna hljóðkerfi íslenska tungumálsins á lifandi og skemmtilegan hátt. Það tekur mið af því í hvaða röð íslensk börn tileinka sér talhljóð í máltökunni og hvernig auðveldast er að kenna hljóðin.

Með gagnvirkum æfingum og leikjum geta notendur æft framburð og tengt hljóð við táknmyndir, sem styður við málþroska og lesskilning. Forritið býður upp á fjölbreytt verkefni þar sem hægt er að vinna með einstök hljóð, orð og setningar.

  • Nemandi notar forritið alltaf í umsjá kennara sem styður við þjálfunina.
  • Nemandi notar iPad eða Chromebook sem honum hefur verið úthlutað af skólanum og aðeins hann hefur afnot af.
  • Einnig er leyfilegt að vinna á spjaldtölvu og vefforrit í tölvu sem er í umsjá sérkennara.

    Sérfræðingar fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar hafa framkvæmt áhættugreiningu á smáforritinu og vefforritinu Lærum og leikum með hljóðin. Greiningin leiddi í ljós að notkun smáforritsins og vefforritsins er leyfð með takmörkunum.

Eftirfarandi upplýsingar verða skráðar um nemendur

  • Fornafn
  • Aldur (fæðingardagur, mánuður og ár)

    Persónuupplýsingarnar eru eingöngu vistaðar á iPad spjaldtölvu eða Chromebook fartölvu sem nemanda hefur verið úthlutað af skólanum og aðeins hann hefur afnot af. Ef unnið er í vefforriti í fartölvu kennara vistast upplýsingarnar staðbundið í vefvafrann. iPad spjaldtölvur, Chromebook fartölvur nemenda og fartölvur kennara í Garðabæ er aðgangsstýrt með aðgangskóða sem er sérstakur fyrir hvern notanda. Ekki er heimilt að nota innbyggða skráningu athugasemda í smáforritinu.
Ekki er um neina miðlæga skráningu eða stýringu að ræða.

Kennslufræðilegur rökstuðningur

Rannsóknir hafa sýnt að hljóðkerfisvitund er lykilþáttur í lestrarnámi og sterk forspá um lestrarárangur. Börn með góða hljóðkerfisvitund eiga auðveldara með að læra að lesa og skrifa, þar sem þau geta betur tengt saman hljóð og stafi (Lesvefurinn, 2024).

Með þjálfun hljóðkerfisvitundar, sem er undirstaða lestrarfærni, eflist hæfni nemanda við að lesa og skilja texta. Gagnvirkar æfingar forritsins hvetja nemanda í að nota eigið ímyndunarafl og beita þekkingu sinni á skapandi hátt sem ýtir undir hæfni þeirra í skapandi hugsun. 

Forritið býður upp á fjölbreyttar æfingar sem þjálfa þessa færni á markvissan hátt. Með notkun fá nemendur tækifæri til að æfa sig í að greina hljóð, tengja þau saman og mynda orð, sem styrkir lestrarfærni þeirra.

Forritið er hannað með það í huga að vera aðgengilegt og skemmtilegt fyrir börn, sem eykur áhuga þeirra á náminu og stuðlar að jákvæðri upplifun af lestrarnámi.

Forritið styður við hæfniviðmið og lykilhæfni aðalnámskrár grunnskóla með því að efla grunnfærni í lestri, stuðla að sjálfstæðu námi og hvetja til skapandi hugsunar.

Osmo

Osmo Educational System er samansafn af fjölda smáforrita sem nota sérstakan búnað utan á iPad spjaldtölvur til að notendur geta unnið að þjálfunarverkefnum sem byggja á leikjamiðaðri nálgun náms. 

Smáforritin eru gagnvirkir, hljóð- og myndrænir námsleikir sem koma inn á nokkur námssvið.   

Sjá nánar um Osmo


Puppet Pals 2

Leikbrúðugerðarforrit, hægt að skapa og leika í eigin sögum með myndrænum karakterum og hljóði.

Sjá nánar um Puppet Pals 2


Read aloud: a text to speech voice reader 

Read Aloud er talgervill sem styður við 40+ tungumál og les upphátt texta á fjölbreyttu formi (HTML, PDF, Docs, Word o.fl.) í vefvafra.

Sjá nánar um Read aloud: a text to speech voice reader 

Fræðsla til foreldra/forráðafólks

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

RÚV 

RÚV veitir aðgang að fréttum, sjónvarps- og útvarpsefni í gegnum vef og smáforrit. Hugbúnaðurinn býður upp á streymi, bæði í beinni útsendingu og spilun eftir spurn, án þess að notendur þurfi að skrá sig inn.

Sjá nánar um RÚV

Til stendur að taka í notkun smáforritið RÚV í skólastarf í Garðabæ.  

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sphero Edu

Forrit til að stjórna og forrita Sphero vélmenni/þjarka með bæði blokkaforritun og textaforritun. Kennir nemendum grunnatriði í forritun á skemmtilegan og skapandi hátt.

Sjá nánar um Sphero Edu

Smelltu hér til að skoða áhættugreiningu hugbúnaðarins á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.


Stop Motion Studio Pro iPad

Hikmyndagerðarforrit.

Sjá nánar um Stop Motion Studio Pro