Starfshópur um menningar- og fræðamiðstöð

Starfshópur um fjölnota menningar- og fræðamiðstöð í Garðabæ var skipaður samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. febrúar 2018. Hópurinn tók til starfa í mars og starfaði út apríl 2018.

Hlutverk hópsins var að kanna grundvöll fyrir byggingu og starfsemi fjölnota menningar- og fræðamiðstöðvar í Garðabæ.Samkvæmt verkefnislýsingu skyldi vinna grófa þarfagreiningu þar sem horft er til nýtingar hússins fyrir fjölbreytta menningar- og fræðastarfsemi fyrir alla aldurshópa, s.s. aðstöðu fyrir söfn bæjarins, tónlist, myndlist, leiklist, dans og skapandi greinar almennt, ráðstefnur og sýningar. Einnig frumkvöðlastarfsemi og vettvang ungs fólks og eldri borgara bæjarins til að njóta menningar og lista. Einnig skyldi leggja til valkosti um staðsetningu, m.a. með umferðarmál og aðgengi að leiðarljósi.

Í starfshópnum voru Gunnar Valur Gíslason, formaður, Sigríður Hulda Jónsdóttir, Þóroddur Bjarnason, Ingibjörg Guðjónsdóttir og Laufey Jensdóttir.

Starfshópurinn hélt sjö fundi á starfstíma sínum þar sem tekið var á móti gestum hópsins. Starfshópurinn gekkst fyrir opnum íbúafundi þann 11. apríl 2018 þar sem rúmlega 70 manns mættu og tóku þátt í hópavinnu. Starfshópurinn fékk til sín viðmælendur til að fá fram þeirra sýn, viðhorf og hugmyndir um undirbúning að uppbyggingu og rekstri menningar- og fræðamiðstöðvar.

Hópurinn skilaði af sér greinargerð sem var lögð fram í bæjarráði Garðabæjar 8. maí 2018.

Greinargerð starfshópsins.