Spurt og svarað

Dagforeldrar

Get ég verið með dagforeldri í öðru sveitarfélagi en samt fengið niðurgreiðslu?

Já það er hægt, viðkomandi dagforeldri þarf að vera með gilt leyfi frá því sveitarfélagi sem það starfar í, skrifa undir þjónustusamning við Garðabæ og skrifa undir vistunarsamning við foreldri og Garðabæ.
Sjá upplýsingar um dagforeldra hér á vefnum.

Hvar sé ég lista yfir dagforeldra?

Hér má sjá lista yfir starfandi dagforeldra í Garðabæ.

Hver er niðurgreiðsla vegna dagforeldragjalda?

Garðabær greiðir niður gæslu barna úr Garðabæ frá 10 mánaða aldri hjá dagforeldri. Markmiðið er að gera vistun hjá dagforeldri að raunverulegum valkosti fyrir foreldra ungra barna með því að kostnaður við hana sé sá sami og við leikskóladvöl.

Gjaldskrár í Garðabæ (sjá þar Reglur um greiðslur vegna dvalar barna úr Garðabæ hjá dagforeldrum)

Hvernig gerist ég dagforeldri?

Til að sækja um að gerast dagforeldri þarf að sækja um hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. 
Sjá nánar hér.

Leikskólar

Hvenær kemst barnið mitt inn í leikskóla?

 Leikskóladvöl er úthlutað eftir aldri barna. Leitast er við að veita þeim börnum leikskólavist sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaárið hefst, 1. september ár hvert.
Sjá nánar um innritun í leikskóla hér. 

Er systkinaafsláttur?

Ef fleiri en eitt barn eru í dvöl á leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldrum eiga foreldrar rétt á systkinaafslætti fyrir eldra/elsta barnið. Foreldrar sem eiga tvö eða fleiri börn fá 50% afslátt af grunngjaldi eldra/elsta barnsins og 75% af grunngjaldi fyrir hvert barn umfram tvö. Afsláttur er veittur af grunngjaldi, fullt verð er greitt fyrir fæði. 
Sjá upplýsingar hér um systkinaafslátt.

Get ég sótt um leikskólapláss þó ég búi ekki í Garðabæ?

Já, þú getur sótt um en forsenda úthlutunar er að lögheimili sé komið í Garðabæ og að barn sé búsett í bænum. Sjá nánar hér um innritun í leikskóla.

Hvaða leikskólar eru í Garðabæ og hvar eru þeir?

Hér má finna allar upplýsingar um leikskóla í Garðabæ.

Hvar sæki ég um leikskólapláss?

Sótt er um leikskóladvöl í þjónustugátt Garðabæjar (tenging þaðan yfir í Völu leikskólakerfi). Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sé búsett í bænum. 

Hvar sæki ég um systkinaafslátt?

Ekki þarf lengur að sækja um systkinaafsláttinn heldur á hann að reiknast út sjálfkrafa.

Foreldrar, sem hafa tvö eða fleiri börn á leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldrum fá 50% afslátt af grunngjaldi fyrir barn umfram eitt og 75% af grunngjaldi fyrir hvert barn umfram tvö.
Afsláttur er veittur af grunngjaldi, fullt verð er greitt fyrir fæði. Systkinaafsláttur gildir alltaf fyrir eldra/elsta barn óháð fjárhæðum.

Hvenær er hægt að sækja um leikskólapláss?

Hægt er að sækja um leikskóladvöl allt árið inni á þjónustugátt Garðabæjar
Aðalinnritun í leikskóla hefst í mars/apríl en innritað er allt árið eftir því sem leikskólapláss losna. Við innritun í leikskóla er tekið mið af kennitölu barna, þau elstu fá úthlutað fyrst.

Hverjar eru reglurnar um úthlutun leikskólaplássa?

Leikskóladvöl er úthlutað eftir aldri barna. Nánast öll börn sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaárið hefst, 1. september ár hvert, eiga kost á leikskóladvöl.

Sótt er um leikskóladvöl í þjónustugátt Garðabæjar.
Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili í Garðabæ og sé búsett í bænum.

Aðalinnritun í leikskóla hefst í mars/apríl en innritað er allt árið eftir því sem leikskólapláss losna. Við innritun í leikskóla er tekið mið af kennitölu barna, þau elstu fá úthlutað fyrst. Leitast er við að innrita systkini í þann leikskóla sem eldra systkini dvelur í þegar að úthlutun er komið samkvæmt aldursröð.
Sjá nánar hér um innritun í leikskóla.   

Hvernig breyti ég dvalartíma eða segi upp leikskóladvöl?

Til að breyta umsóknum leikskólavist, senda inn flutningsbeiðnir um leikskóla eða breyta dvalartíma er farið inn á umsóknarvef Völu leikskóla, sjá nánar hér. Til að segja upp leikskóladvöl þarf að fara inn á 
þjónustugátt Garðabæjar og fylla þar út umsókn sem heitir ,,Uppsögn á leikskóla". 


Verða leikskólar opnir í sumar?

Leikskólar í Garðabæ eru opnir á sumrin en börnin skulu samt sem áður taka fjórar vikur í sumarfrí og fellur greiðsla fyrir júlímánuð niður. 

Þarf barnið að vera komið með kennitölu til að hægt sé að sækja um leikskólapláss?

Já, kennitala er forsenda umsóknar. 
Sjá nánar hér um innritun í leikskóla.

Þarf ég að sækja um á hverjum leikskóla fyrir sig?

Nei, einungis er sótt um einu sinni fyrir barn. Umsóknin gildir fyrir alla leikskóla bæjarins en hægt er að setja fram óskir um leikskóla í umsókninni.
Sjá nánar hér um innritun í leikskóla.

Eru afslættir af leikskólagjöldum, s.s. tekjutengdir afslættir?

Ef fleiri en eitt barn eru í dvöl á leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldrum eiga foreldrar rétt á systkinaafslætti fyrir eldra/elsta barnið.
 Foreldrar með tekjur undir viðmiðunarmörkum geta sótt um tekjutengdan afslátt af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra.
Sjá nánar hér

Grunnskólar

Er skólaakstur barna í skólavist utan lögheimilis á milli sveitarfélaga?

Nei, það er ekki skólaakstur á milli sveitarfélaga.

Hvaða grunnskólar eru í Garðabæ?

Hér má finna upplýsingar um grunnskóla í Garðabæ.

Hvar sæki ég um í frístundaheimili?

Innritun er rafræn og hægt er að finna hlekk í umsókn um dvöl á frístundaheimili í Þjónustugátt Garðabæjar (tenging þar yfir í Völuumsóknarkerfið). 

Hvar sæki ég um í grunnskóla í Garðabæ?

Innritun er rafræn og umsókn er í Þjónustugátt Garðabæjar. 

Hvar sæki ég um mötuneyti?

Upplýsingar um skráningu í mat í grunnskólum Garðabæjar má finna inn á vef hvers grunnskóla.
Hér má sjá hlekki á vefi skólanna.

Verður barnið mitt að vera í hverfisskólanum?

Nei. Í Garðabæ velja foreldrar skóla fyrir barn sitt og bera ábyrgð á að innrita barnið í þann skóla sem þeir velja.

Skólarnir sem innrita börn í 1. bekk kynna starf sitt fyrir foreldrum verðandi grunnskólanemenda í febrúar/mars ár hvert. Einnig fer fram kynning fyrir nemendur sem eru að fara í 8. bekk og foreldra þeirra á þeim kostum sem nemendur í Garðabæ hafa á efsta stigi grunnskóla.

Íþróttir og tómstundir

Er frístundabíll?

Já, frístundabíllinn hefur það hlutverk að keyra börn frá frístundaheimilum grunnskóla í íþrótta- og tómstundastarf. Til að börn geti nýtt sér frístundabílinn þarf að skrá sig, annað hvort eina önn í einu eða allt skólaárið. Tekið er gjald fyrir hverja önn. 
Sjá nánar um frístundabílinn hér. 

Hvaða tómstundastarf er í boði fyrir börn í Garðabæ?

Hér má finna upplýsingar um tómstundastarf sem er í boði í Garðabæ.

Hvað eru hvatapeningar (frístundastyrkur)?

Hvatapeningar eru fyrir börn á aldrinum 5-18 ára með lögheimili í Garðabæ. Hvatapeningana er hægt að nýta til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf  sem nær yfir 10 vikur að lágmarki. Undantekning er 5 og 6 ára börn þar sem lágmarkstímalengd námskeiða er 20 kennslustundir óháð vikufjölda. Hægt er að nýta hvatapeningana beint hjá félögum innan Garðabæjar sem og í öðrum sveitarfélögum. 
Sjá nánar hér um hvatapeninga. 

Eldri borgarar

Er afsláttur af fasteignagjöldum fyrir eldri borgara?

Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og holræsagjaldi skv. viðmiðunarfjárhæðum sem bæjarráð hefur samþykkt. Upplýsingar um fasteignagjöld og afslátt af þeim má finna hér.

Er akstursþjónusta fyrir eldri borgara í Garðabæ?

Markmið með akstursþjónustu eldri borgara er að auka sjálfstæði þeirra og stuðla að því að þeir geti búið lengur heima.

Rafræn umsókn um akstursþjónustu fyrir eldri borgara er að finna í Þjónustugátt Garðabæjar (undir umsóknir og 05. félagsþjónusta).

Einnig er hægt að sækja um skriflega á þar til gerðum eyðublöðum sem nálgast má í þjónustuveri Garðabæjar á Garðatorgi 7 eða skrifstofu stuðningsþjónustu Garðabæjar í Strikinu 3. 
Sjá einnig upplýsingar hér.

Er félagsstarf fyrir aldraða í Garðabæ?

Félagsstarf fyrir eldri borgara á vegum Garðabæjar fer fram í Jónshúsi í Sjálandshverfi, í Litlakoti á Álftanesi og í Smiðjunni, í kjallara Kirkjuhvols, safnaðarheimilis Vídalínskirkju. Íþróttastarf fer fram í íþróttamiðstöðinni Ásgarði, íþróttasal og sundlaug Sjálandsskóla auk annarra íþróttamannvirkja.

Boðið er upp á fjölbreytt félagsstarf, tómstundanámskeið, vinnustofur og opin hús fyrir eldri borgara. Þá halda hópar eldri borgara uppi félagsstarfi í sjálfboðastarfi í húsnæði á vegum Garðabæjar. Dagskrá félags- og íþróttastarfs er auglýst í Vikudagskránni, Morgunblaðinu og facebooksíðu Jónshúss. Í Jónshúsi og Litlakoti fer einnig fram félagsstarf á vegum Félags eldri borgara í Garðabæ og Félags eldri borgara á Álftanesi.
Sjá einnig upplýsingar hér. 

Geta eldri borgarar í Garðabæ fengið heitan mat í hádeginu?

Hægt er að kaupa heitan mat i hádeginu í Jónshúsi. Maturinn þarf að panta hann með dags fyrirvara í síma 512-1501. Einnig er hægt að panta mat og taka hann með heim í matarbakka. Greitt er fyrir mat í Jónshúsi samkvæmt gjaldskrá Garðabæjar.
Sjá einnig upplýsingar hér. 


Fatlað fólk

Hvar sæki ég um ferðaþjónustu?

Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsvagna kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Umsóknir skulu berast bæjarskrifstofu og skal fylgja þeim læknisvottorð, þar sem það á við. Hér á vefnum er hægt að nálgast umsókn til útprentunar (undir þjónusta Garðabæjar). Einnig er hægt að senda inn rafræna umsókn í gegnum þjónustugátt Garðabæjar.

Sjá einnig nánar hér.

Er frístund fyrir fötluð ungmenni?

Garðahraun er sértækt frístundar- og félagsmiðstöðvaúrræði fyrir börn í 5.-10.bekk við grunnskóla í Garðabæ sem eiga lögheimili í Garðabæ. Meginhlutverk Garðahrauns er að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur.
Einnig er í boði sérstakt sumarúrræði barna með sérþarfir í 1.-7. bekk á sumrin í Sumarhrauni.
Sjá nánari upplýsingar hér um Garðahraun og Sumarhraun.

Síðustu sumur hefur verið boðið upp á atvinnutengt frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni í Garðabæ.

Markmiði starfsins er tvíþætt:

  • Að gefa ungmennum tækifæri til þess að taka þátt í hinum ýmsu störfum með þeim stuðningi sem hver og einn þarfnast
  • Að efla sjálfstæði einstaklinga og styrkja félagsleg tengsl með því að áhersla er einnig lögð á fjölbreytt frístundastarf

Almennt er gert ráð fyrir 4 stundum á dag í vinnu og að síðan taki við frístundastarf.


Er hægt að sækja um sérstaka styrki fyrir fatlað fólk?

Já, styrkjum sem eru veittir samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, er ætlað að auðvelda fötluðu fólki að verða sér úti um þekkingu og reynslu og auka möguleika sína til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Annars vegar er um að ræða námsstyrki fyrir námskeiðsgjöldum, skólagjöldum og námsgögnum og hins vegar styrki vegna verkfæra- og tækjakaupa til að skapa atvinnutækifæri.

Umsóknir um styrki eru afgreiddar í samræmi við reglur sveitarfélagsins.

Opið er fyrir umsóknir að hausti til og er það auglýst sérstaklega. Forsendur fyrir styrknum eru að eiga lögheimili í Garðabæ, hafa náð 18 ára aldri og vera með varanlegt örorkumat.

Rafræn umsóknareyðublöð eru á Þjónustugátt Garðabæjar

Styrkir vegna námskostnaðar og verkfæra- og tækjakaupa (umsókn á pappír - undir þjónusta við fatlað fólk)

Stuðningsþjónusta

Hverjir eiga rétt á stuðningsþjónustu?

Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun.

Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi.

Áður en aðstoð er veitt skal sá aðili sem fer með stuðningsþjónustu meta þörf í hverju einstöku tilviki. Læknisvottorð skal liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður er að ræða.
Sjá nánar hér um stuðningsþjónustu.

Hvernig sæki ég um stuðningsþjónustu?

Hægt er að sækja um hér á þjónustugátt Garðabæjar: Rafræn umsókn um stuðningsþjónustu/félagslega heimaþjónustu

Fjárhagsaðstoð

Hverjir geta sótt um fjárhagsaðstoð?

Allir fjárráða einstaklingar sem eiga lögheimili í Garðabæ geta sótt um fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu og er alltaf tímabundið úrræði.

Hvernig sæki ég um fjárhagsaðstoð?

Allir fjárráða einstaklingar sem eiga lögheimili í Garðabæ geta sótt um fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu og er alltaf tímabundið úrræði.  Sótt er um fjárhagsaðstoð á sérstöku umsóknareyðublaði sem er aðgengilegt á þjónustugátt Garðabæjar.

Sjá nánar hér um fjárhagsaðstoð.

Hvaða gögnum þarf að skila inn vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð?

Til að umsókn um fjárhagsaðstoð teljist gild þarf að skila eftirtöldum gögnum:

  • Skattframtali og staðgreiðsluyfirliti umsækjanda og maka/sambúðaraðila staðfestu af Ríkisskattstjóra
  • Upplýsingar um tekjur og aðrar greiðslur umsækjanda og maka/sambúðaraðila síðustu tveggja mánaða, þ.m.t. launaseðlar, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands og/eða Fæðingarorlofssjóði.
  • Ef umsækjandi er vinnufær þarf að skila staðfestingu á að bótarétti úr atvinnuleysistryggingasjóði sé lokið og/eða staðfestingu skráningar í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun.

Hversu há er fjárhagsaðstoðin? 

Fjárhæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af skattskyldum tekjum umsækjanda eða hjóna og sambúðaraðila og koma allar skattskyldar tekjur til frádráttar við útreikning fjárhæðar. Fjárhæð fer eftir búsetuaðstæðum hverju sinni. Fjárhagsaðstoð er skattskyld.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Hverjir eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi?

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram almennar húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.

Garðabær annast afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir sína íbúa.

Forsenda fyrir sérstökum húsnæðisstuðningi hjá Garðabæ er að fólk hafi sótt um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og fengið samþykkta umsókn.
Fyrirspurnir um sérstakan húsnæðisstuðning sendist á netfangið husbot@gardabaer.is.

Sjá nánari upplýsingar hér.

Barnavernd

Hvað á að tilkynna?

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

  • búi við óviðunandi uppeldisaðstæður
  • verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
  • stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.
Sjá nánar hér um tilkynningar til barnaverndar.

Hvernig tilkynni ég aðstæður barns til barnaverndar?

Starfsmenn barnaverndarþjónustu Garðabæjar, Garðatorgi 7, taka við tilkynningum um börn búsett í Garðabæ vegna gruns um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barna og ungmenna. Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi.

Starfsmenn barnaverndar á velferðarsviði taka við almennum tilkynningum og fyrirspurnum á afgreiðslutíma bæjarskrifstofu Garðabæjar í síma 525 8500.

Eftir lokun skrifstofu og um helgar sinnir sameiginleg bakvakt barnaverndar Garðabæjar, Kópavogs og Hafnarfjarðar, neyðartilvikum vegna barna sem þar eru búsett. Sími bakvaktar er 112.
Sjá nánar hér um tilkynningar til barnaverndar.

Sorphirða

Ef ég er ekki með neina tunnu, hvar panta ég?

Í nýjum húsum þar sem ekki hefur verið sorphirða áður þurfa eigendur að sækja um sorptunnur/gáma í gegnum umsókn í þjónustugátt Garðabæjar. 

Umsókn um nýjar tunnur eða breytingar á sorpílátum - þjónustugátt Garðabæjar (umsókn er undir kafla 13 Umhverfissvið)

Vinsamlegast athugið að samþykkja þarf skilmála til að fá tvískipta tunnu fyrir plast og pappír.

Get ég fengið aðra tunnu ef mín er alltaf full?

Hægt er að bæta við sorpílátum. Sækja þarf um rafrænt í þjónustugátt Garðabæjar (undir kafla 13 umhverfissvið): Umsókn um nýjar tunnur eða breytingar á sorpílátum - þjónustugátt Garðabæjar 

Rukkað er fyrir tunnur skv. gjaldskrá og einnig er umsýslusgjald vegna breytinga.

Hvað á ég að gera ef ruslatunnan mín er ónýt eða týnd?

Hægt er að hringja í þjónustuver Garðabæjar í síma 525 8500 eða senda á netfangið gardabaer@gardabaer.is .  Einnig er hægt að senda inn ábendingu á ábendingavef umhverfis ef þarf að panta lok eða festingu eða láta vita ef tunna hefur ekki skilað sér eftir losun.

Hvar á ég að staðsetja ruslatunnur?

Miðað er við 7 metra frá þeim stað sem sorpbíll getur stöðvað. Mikilvægt er að það sé gott aðgengi að tunnunum og að ekki þurfi að fara með þær upp og niður tröppur, sé hjá því komist. Tunnur eiga að vera staðsettar götumegin húss.

Kjósi íbúi að staðsetja tunnu annarsstaðar en viðmið segir til um þarf íbúi að koma tunnunni á slíkan stað á losunardegi.

Hvar eru grenndargámar?

Staðsetningu grenndargáma í Garðabæ má sjá á kortavefnum . Smellt er á "Umhirða" og svo hakað í "Grenndargámar"

Snjómokstur

Hvar get ég nálgast salt og sand á veturna?

Í þjónustumiðstöð Garðabæjar, Lyngási 18.

Hvernig er snjómokstri háttað?

Í Garðabæ hefst snjómokstur kl. 4 að nóttu þegar snjóað hefur og er unnið eftir forgangsáætlun. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar og verktakar vinna hörðum höndum að því að halda öllum aðalleiðum opnum, hvort sem um er að ræða götur eða stíga. Húsagötur koma þar á eftir og eru þær hreinsaðar eins hratt og hægt er á hverjum tíma.

Hægt er að skoða þær götur og stíga sem eru í forgangi varðandi snjómokstur á kortavefnum map.is/gardabaer. Opna þarf flokkinn "Umhirða" í upplýsingaglugganum hægra megin á síðunni og haka við "Snjómokstur". Þá koma upp leiðirnar sem farnar eru og sést hvaða götur og stígar eru í forgangi. Ef smellt er á "i" sést hvað litirnir tákna.  

Byggingarmál

Hvar sæki ég um byggingarleyfi?

Til að sækja um byggingarleyfi þarft þú að skrá sig inn á Þjónustugátt Garðabæjar.

Fara í umsóknir lið 9 Byggingarmál – Umsækjandi eigandi velur umsókn nr. 1 Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi.

Ef þú telur að um framkvæmd sem er ekki leyfisskyld getur þú valið umsókn nr. 2 tilkynning um framkvæmd undanþegnar byggingarleyfi.

Eða ef hönnuður sækir um:

Til að sækja um byggingarleyfi þarft þú að skrá þig inn á Þjónustugátt Garðabæjar:

Fara í umsóknir lið 10 Byggingarmál – Hönnuður velur umsókn nr.1 Hönnuður – umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Þarf ég að sækja um byggingarleyfi ef ég vil setja garðhús í garðinn minn?

 

Smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar eftirfarandi kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi:

1. Flatarmál smáhýsis er að hámarki 15 m².

2. Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis, frá glugga eða hurð húss og frá útvegg timburhúss er a.m.k. 3,0 m eða sýnt er fram á að brunamótstaða veggja smáhýsis og aðliggjandi húss sé þannig að fullnægjandi brunahólfun náist á milli húsanna.

3. Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 m er glugga- og hurðalaus.

4. Mesta hæð þaks á smáhýsi er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. 5. Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 m skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.

Þarf ég byggingarleyfi fyrir stækkun á bílskúr?

Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda, sbr. þó 2.3.5 gr

Hvar finn ég teikningar af húsinu mínu?

Teikningar má finna á kortavefnum.

Efst í vinstra horninu er leitargluggi sem hægt er að skrá heimilisfang og leita. Þá birtist gluggi á síðunni með valmöguleika að skoða teikningar.

Hvar finn ég upplýsingar um götur, stíga, lóðamörk og veitur hjá Garðabæ?

Allar slíkar upplýsingar má finna á kortavefnum.

Efst í hægra horni á síðunni er gluggi með ýmsum valmögleikum þar sem hægt er að finnar upplýsingar um götur, stíga, lóðamörk, veitur og fl. 

Hvernig sækir húsfélag um svalarlokun? 

Húsfélagið sækir um leyfi . Formaður þarft að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða í umboði húsfélags á þjónustugátt Garðabæjar:

Fara í umsóknir lið 9 Byggingarmál – Umsækjandi eigandi velur umsókn nr. 2 tilkynning um framkvæmd undanskylda byggingarleyfis.

Umsókn þarf að fylgja samþykki annarra íbúa hússins ásamt teikningum af framkvæmd. Aðaluppdrættir/útlitsteikning og burðavirkisteikning/festingar svalarlokunar.

Reglur um veggi

Markmiðið með samþykkt um veggi og girðingar er að skapa umgjörð um veggi og girðingar og leiðbeina íbúum Garðabæjar. Samþykktin tekur á reglum Garðabæjar um veggi og girðinga, fer yfir lög og reglur sem gilda og veitir mikilvægar upplýsingar til íbúa í framkvæmdahugleiðingum á einkalóðum.

Annað

 Hvað ræður því hvaða fjölskyldumeðlimur fær rukkun fyrir fasteignagjöldum?

Elsti aðilinn sem skráður er fyrir fasteigninni, fær senda rukkun vegna fasteignagjalda. Ef óskað er eftir breytingu á fyrirkomulaginu skal hafa samaband við þjónustuver á gardabaer@gardabaer.is .