Byggingarmál

Embætti byggingarfulltrúa starfar á grundvelli mannvirkjalaga, byggingarreglugerðar og samþykkt bæjarstjórnar svo og öðrum lögum, reglugerðum og samþykktum er byggingarmál varða.

Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. 

Embætti byggingarfulltrúa starfar á grundvelli mannvirkjalaga, byggingarreglugerðar og samþykkt bæjarstjórnar svo og öðrum lögum, reglugerðum og samþykktum er byggingarmál varða. Ferli byggingarmála geta reynst flókin en hér má finna upplýsingar um ýmis þeirra.

Upplýsingar veitir:

Fullnægjandi byggingarnefndarteikningar þurfa að berast byggingarfulltrúa í síðasta lagi, fyrir hádegi á þriðjudegi, viku fyrir fund bæjarráðs til að vera tekið fyrir. Ef athugasemdir eru gerðar við teikningar tekur ferlið lengri tíma.

Einnig er hægt að senda póst á bygg@gardabaer.is

Innviðaráðherra setur, í samráði við Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun, byggingarreglugerð sem nær til landsins alls þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laga um mannvirki.  Ný byggingarreglugerð  tók gildi 24. janúar 2012 og er nr. 112/2012.

Nánar um byggingarleyfisumsóknir, úttektir o.fl. (pdf-skjal)

Gott að hafa í huga 

Áður en farið er út í að byggja eða breyta þarf að hafa í huga ýmis atriði. Það borgar sig að rýna vel í alla kostnaði og hugmyndir varðandi framkvæmdirnar áður en hafist er handa. Breyting á samþykktum uppdráttum kostar pening og tíma. Athuga má einnig hvort bygging passi við gildandi deiluskipulag með fyrirspurn til byggingarfulltrúa með uppdrætti í viðhengi. Ef framkvæmdir krefjast breytinga á deiluskipulagi fylgir því gjald, grenndarkynning og 6-8 vikna bið.

Útgáfa byggingarleyfa

Til þess að byggja eða breyta húsi þarf eigandi að fá byggingarleyfi frá byggingarfulltrúa Garðabæjar. Því er eingöngu veitt ef ýmiss skilyrði eru uppfyllt og aðeins eftir útgáfu þess mega framkvæmdir hefjast.

 Leggja má inn byggingarleyfisumsókn þegar uppdrættir að verki eru fullkláraðir. Með umsókninni á að fylgja m.a. aðaluppdrættir í tvíriti, tilkynning um hönnunarstjóra og samþykki meðeigenda eða annara aðila eftir aðstæðum. 

Ef aðaluppdrættir eru samþykktir er byggingarleyfi gefið út ef eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt: 

  • Byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd, svo sem gatnagerðargjald og bílastæðagjald.  
  • Byggingarstjóri hefur undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína og afhent leyfisveitanda undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu þeirra iðnmeistara sem ábyrgð munu bera á einstökum verkþáttum. 

Byggingarleyfi fellur úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd telst hafin við fyrstu áfangaúttekt.

Byggingarleyfi undirritast af byggingarfulltrúa.

Öll gjöld skulu greidd við afhendingu byggingarleyfa. Þá eru að auki afhentir samþykktir aðaluppdrættir og séruppdrættir.

Grenndarkynning

Það getur komið svo til að byggingar- og framkvæmdarleyfi krefjist óverulegra breytinga á deiliskipulagi, t.d. ef framkvæmdir krefjast þess að byggja út fyrir lóðamörk, yfir hæðarmörk eða ef ekki er deiliskipulag fyrir hendi. Þá þarf málið að vera grenndarkynnt og í því felst að nágrönnum í vissum radíusi, sem taldir eru eiga hagsmuna að geta, er sent málið til kynningar. Þeim er gefinn að minnsta kosti fjögurra vikna frestur til að koma með rökstuddar athugasemdir með eða á móti framkvæmdum.

 Byggingarleyfisumsókn er afgreidd eftir frestinn og útkoma hennar ræðst af athugasemdum nágranna og ákvörðun bæjarfulltrúa

Eignaskiptayfirlýsing

Hvað er eignaskiptayfirlýsing?

Eignaskiptayfirlýsing er lögboðinn skriflegur gerningur eigenda fjöleignarhúss sem gerður er á grundvelli fyrirmæla fjöleignarhúsalaga og geymir lýsingu á húsinu og lóð þess og mælir fyrir um skiptingu þess í séreignir, sameign allra og sameign sumra og ákvarðar hlutdeild hvers eiganda í sameign og markar með því grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum húss og lóðar. Eignaskiptayfirlýsing er m.ö.o. skjal sem kveður á um skiptingu fjöleignarhúss í eignarhluta. Hverjum séreignarhluta er lýst og tilgreint hvað honum fylgir sérstaklega. Þá kemur fram hvaða hlutar húss séu í sameign og hvort sú sameign tilheyri öllum eigendum eða einungis sumum og þá hverjum. Þá er kveðið á um atriði eins og hlutfallstölur, kvaðir, réttindi til bílskúra, bílastæða og byggingar. Eignaskiptayfirlýsing er því aðalheimildin um skiptingu fjöleignarhúss í séreign og sameign og getur komið í veg fyrir margvíslegan ágreining milli eigenda.

Eignaskiptayfirlýsingu er þinglýst og á grundvelli hennar ganga eignarhlutar kaupum og sölum, eru veðsettir, kvaðabundnir, á þá lögð opinber gjöld, tilteknum kostnaði í húsinu skipt niður, vægi atkvæða metið á húsfundum í vissum tilvikum o.fl.

Þeim einum er heimilt að taka að sér að gera eignaskiptayfi­rlýsingar sem uppfylla lögmælt skilyrði og hafa fengið til þess leyfi frá ráðherra. Lista yfir ley­fishafa er að fi­nna á www.velferdarraduneyti.is

Í eignaskiptayfirlýsingu skal skipting húss koma glöggt fram og tilgreint hvað tilheyrir hverjum eignarhluta,hvortum sé að ræða séreign, sameign allra eða sameign sumra og hvaða eignarhlutum slík sameign tilheyrir. Í eignaskiptayfirlýsingu skal og greina frá forsendum hennar og þeim gögnum sem hún er byggð á og fylgja henni. Sé um að ræða frávik eða afbrigði frá venjulegri tilhögun eða útfærslu skal þeirra glögglega getið. Í eignaskiptayfirlýsingu skulu auk þess koma fram þau atriði sem upp eru talin í 8. gr. reglugerðar nr. 910/2000.

Með eignaskiptay­firlýsingu skulu fylgja lóðaruppdráttur, grunnmyndir og sniðmyndir af hverri hæð húss, þar sem hvert rými er merkt í samræmi við skráningarreglur. Skráningartafla skal og fylgja eignaskipta-y­firlýsingu. Öll ofangreind gögn sem fylgja eignaskiptay­firlýsingu skulu vera af stærð inni A4.

Eignaskiptayfirlýsingu skal skila í .pdf og skráningartöflu á excel formi hér

Staðfesting og meðferð byggingarfulltrúa

Byggingarfulltrúi áritar eignaskiptayfirlýsingar eftir yfirferð áður en þeim er þinglýst, til staðfestingar á því að þær séu í samræmi við samþykktar teikningar og að þær séu unnar í samræmi við reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar. Nánari upplýsingar um eignaskiptayfirlýsingu má finna á vef Velferðarráðuneytisins

Reglugerð um eignaskiptayfirlýsingu, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum nr. 910/2000 .

Umsóknir um byggingarleyfi

Frá og með 15. apríl 2019 verður allt ferli vegna umsókna um byggingarleyfi rafrænt hjá Garðabæ. Er það liður í að einfalda ferlið þegar sótt er um byggingarleyfi, gera það skýrara fyrir hlutaðeigandi og að upplýsingar séu aðgengilegar.

Leiðbeiningar um umsókn um byggingarleyfi hjá Garðabæ.

Rafrænar umsóknir Garðabæjar eru á Mínum Garðabæ. Til að skrá sig inn á Minn Garðabæ þarf íslykil eða rafræn skilríki.

Með nýjungunum geta aðilar séð eftirfarandi á Mínum Garðabæ:
• Hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar geta skráð sig á verk með rafrænum skilríkjum á Mínum Garðabæ.
• Eigandi lóðar sér gögn málsins og stöðu þess.
• Hönnuðir sem sækja um byggingarleyfi fyrir hönd eiganda sjá gögn málsins og stöðu þess.
• Hönnunarstjórar, byggingarstjórar og meistarar geta séð þau verk sem þeir eru skráðir á.
• Hönnuðir geta sent inn teikningar rafrænt til yfirferðar hjá byggingarfulltrúa.

Hér má sjá hvaða umsóknir eru aðgengilegar á Mínum Garðabæ undir byggingarmál. 

OneApp rafrænt úttektarkerfi

OneApp er rafrænt úttektarkerfi fyrir OneLandRobot til auðvelda byggingarstjórum að framkvæma úttektir.

Hér má nálgast handbók þar sem fjallað er um notkun OneApp sem notað er til að framkvæma áfangaúttektir. OneApp er notað af byggingarstjórum til að framkvæma úttektirsenda þær með rafrænum hætti inn í mál viðkomandi framkvæmdar sem skráð er í One málaskrá hjá embætti viðkomandi sveitarfélags

Handbók OneApp