Kvennahlaup ÍSÍ

Árið 1990 var fyrsta kvennahlaup ÍSÍ haldið. Aðalhlaupið var í Garðabæ en einnig var hlaupið á sjö öðrum stöðum á landinu. Þátttakan hefur aukist með ári hverju og í Garðabæ halupa að jafnaði  sex til átta þúsund konur árlega. Fyrstu árin var hlaupið frá Garðaskóla en frá 2003 hefur hlaupið hafist á Garðatorgi. Hægt er að velja um mismunandi hlaupaleiðir frá 2 km og upp í 9 km.

Konur hvattar til hreyfingar og samstöðu

Tilgangurinn með Kvennahlaupinu í upphafi var að fá konur til að stunda líkamsrækt og sýna samstöðu í því efni. Þess vegna er konum boðið að leggja mislangar vegalengdir að baki á þeim hraða sem hver þeirra ræður við. Í hlaupinu geta konur sameinað holla hreyfingu og útiveru og lögð er áhersla á samstöðu kvenna.

Það gefur hlaupinu aukið gildi að það fer jafnan fram á kvenréttindadeginum 19. júní eða sem næst honum. Kvennahlaupið hefur verið stærsti íþróttaviðburðurinn á Íslandi á ári hverju í meira en áratug. Aðalstyrktaraðili Kvennahlaups ÍSÍ undanfarin ár er fyrirtækið Sjóvá-Almennar. Á heimasíðu Sjóvá, http://www.sjova.is/, er hægt að skoða myndir frá Kvennahlaupinu og einnig er þar að finna ýmsan fróðleik um hlaupið.

19. júní sjóður um kvennahlaup í Garðabæ

Leiðbeiningar með umsóknareyðublaði um styrk úr 19. júní sjóði um kvennahlaup í Garðabæ

1.      Umsækjendur

Nöfn allra umsækjenda þurfa að koma fram á umsóknareyðublaði. 

2.      Ábyrgðaraðili

Ábyrgðaraðili með verkefninu skal valinn úr hópi umsækjenda.  Hann sér um tengsl við starfsmann stjórnar 19. júní sjóðs og ber ábyrgð á að skýrslum verði skilað.

3.      Lýsing á verkefninu

Lýsing á verkefni skal skráð á sérstakt blað sem fylgja skal umsókninni.  

Í lýsingunni eiga að koma fram eftirfarandi atriði :

 • Vel skilgreind markmið.
 • Greinargóð lýsing á áætlaðri framkvæmd þar sem fram koma þær leiðir sem farnar verða eða þær aðferðir (skilgreining árangursmælikvarða) sem beitt verður til að ná settum markmiðum. Einnig þarf að setja viðmið um árangur verkefnisins.
 • Verkaskipting þátttakenda.
 • Áætlun um upphaf og lok verkefnis og / eða áfanga.
 • Sundurliðuð kostnaðaráætlun.
 • Aðrar upplýsingar svo sem.

4.      Utanaðkomandi ráðgjöf

Æskilegt er að umsækjendur leiti ráðgjafar hjá sérfræðingum eða stofnunum við skipulag verkefnis og mat.  Gera þarf ráð fyrir kostnaði vegna þessa í kostnaðaráætlun. 

5.      Framkvæmda- og kostnaðaráætlun

Í framkvæmdaáætlun komi fram tímalengd verkefnis, helstu verkþættir og verkaskipting þátttakenda. 
Í kostnaðaráætlun komi fram fjöldi vinnustunda og skipting á þátttakendur og tímabil.  Ennfremur skili umsækjendur sundurliðaðri áætlun um annan kostnað þar sem við á svo sem aðkeypta þjónustu, ferðakostnað og efniskaup. 

6.      Mat á umsóknum

Stjórn 19. júní sjóðs getur leitað umsagna og álits utanaðkomandi aðila við mat á umsóknum

Við mat á umsóknum hefur stjórn 19. júní sjóðs eftirtalin atriði til hliðsjónar:

 • Gildi verkefnis fyrir umsækjendur og áhrif þess á og fyrir íþróttaiðkun kvenna
 • Rökstudda skipulagningu á framkvæmd verkefnis.
 • Faglega umsjón og / eða utanaðkomandi ráðgjöf.
 • Framlag verkefnis varðandi þróun á þátttöku kvenna í íþróttum.

7.      Skýrslur

 • Styrkþegum ber að skila áfangaskýrslu til stjórnar 19. júní sjóðs.  Í henni er gerð grein fyrir hvað unnið hefur verið, hvernig og hvað sé framundan.
 • Allir styrkþegar þurfa að skila lokaskýrslu. 

Í lokaskýrslunni þarf m.a. að koma fram.

 • Aðdragandi og undirbúningsvinna.
 • Lýsing á markmiðum.
 • Verklýsing þar sem fram kemur skipulag, umfang og framkvæmd vinnunnar.
 • Niðurstöður og mat.  Nauðsynlegt er að umsækjendur leggi mat á hvernig til hefur tekist með verkið að því loknu og hvort upphaflegum markmiðum hafi verið náð.

Mikilvægt er að allar upplýsingar séu eins ítarlegar og framast er kostur.